Hún má alls ekki vera sparibók uppi í hillu

Kristín Eva Þórhallsdóttir og Brynhildur Björnsdóttir.
Kristín Eva Þórhallsdóttir og Brynhildur Björnsdóttir.

Komdu út er nýútkomin bók fyrir krakka sem er uppfull af hugmyndum um það sem hægt er að gera úti. Bókin er skrifuð af Brynhildi Björnsdóttur og Kristínu Evu Þórhallsdóttur sem stjórnuðu útvarpsþættinum Leynifélagið og sjónvarpsþættinum Vasaljós.

„Í bókinni er til dæmis kennt hvernig á að búa til náttúrudagbók og búa til mandölur úr könglum, steinum, skeljum eða hverju því sem við finnum úti. Og líka hvernig á að steikja fífla, finna pöddur, standa á hafsbotni, draga mömmu og pabba út, taka ljósmyndir, breyta sér í drulluskrímsli og fleira,“ segir Brynhildur.

„Það má lesa þessa bók eins og uppskriftabók sem vekur upp hungur til útiveru og kveikir á hugmyndum. Hún höfðar til allra krakka, ekki bara þeirra sem eru vanir útivist, eða eru vísindalega þenkjandi, heldur líka þeirra sem eru skapandi. Við bendum á að náttúran getur kveikt á sköpun og þangað er endalaust hægt að sækja efnivið,“ bætir Kristín Eva við.

Innan á bókakápunni á Komdu út segir að það megi beygla bókina og setja sand í hana og lesa hana á hvolfi. „Þetta er bók sem á að nota og taka með í alls konar ferðalög. Hún má alls ekki vera sparibók uppi í hillu,“ segir Kristín Eva.

„Þess vegna er bókin meðfærileg og hún kostar ekki mikið,“ bætir Brynhildur við.

Bókin er sérstaklega fallega myndskreytt sem gefur henni ævintýralegan blæ.

„Halla Sigga, hönnuður hjá Forlaginu, á allan heiðurinn af því hversu falleg bókin er og eru myndirnar heill heimur út af fyrir sig. Börn sem ekki eru farin að lesa geta til dæmis notið bókarinnar fyrir þær sakir einar hversu skemmtilegar myndirnar eru og vel er hægt að spinna sögur út frá þeim,“ segir Kristín Eva.

Í bókinni eru annars vegar kynnt ákveðin svæði eins og fjara, heiði eða hraun og bent á allt sem þar er hægt að finna og gera. Hins vegar eru tillögur að ferðum eins og skýjaferð, pödduferð og gönguferð.

„Krakkar geta stundum verið óþolinmóðir á langri göngu en þá stingum við upp á því að gera hana skemmtilegri með því að ganga í búning eða með skrítna hatta og fara í ímyndunarleik,“ segir Brynhildur.  

„Allur fróðleikur sem við eigum um umhverfi okkar og náttúru er komin til vegna forvitni af hverju fjall varð til eða af hverju fuglar eru í laginu eins og þeir eru. Leitin að svörunum er oftast það sem er skemmtilegt við að uppgötva náttúruna og þess vegna er fullt af spurningum í bókinni með engin svör. Það vekur meiri áhuga að horfa á fjall og hugsa hvernig það varð til og koma með hugmynd að nafni á fjallið í stað þess að byrja á því að vita hvað fjallið heitir,“ segir Kristín Eva.

Slóans gelgja og deplagleypir eru fiskaheiti sem koma fram í bókinni og krökkunum gefið það verkefni að teikna myndir af þeim án þess að hafa myndir af fiskunum sem fyrirmyndir.

„Við eigum svo mikið af áhugaverðum og skemmtilegum orðum yfir bæði yfir dýr og gróður, það er til dæmis til sveppur sem heitir ormkylfa. Krakkarnir geta ímyndað sér út frá orðunum hvernig þessi sveppur lítur út en farið svo á heimasíðuna okkar ferdafelaginn.is til að sjá hvernig hann lítur út í raun og veru,“ segir Brynhildur.  

En samhliða bókinni opnuðu Brynhildur og Kristín Eva vefsíðuna ferdafelaginn.is þar sem þær setja inn alls konar efni sem tengist efninu og var verkefnið styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar stofnanda Hagkaups og einnig fékk verkefnið menningarstyrk Seðlabanka Íslands tengdan nafni Jóhannesar Nordals.

„Fyrst og fremst snýst þetta um að hafa gaman úti og njóta þess að búa á þessari sniðugu jörð en líka hvetja til uppgötvana, sjálfstæðrar hugsunar og kveikja ást á umhverfinu,“ segja Brynhildur og Kristín Eva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál