Valdi fjölskylduna fram yfir frægðina

Emilía Björg Óskarsdóttir er búin að stofna söngskóla í Reykjanesbæ.
Emilía Björg Óskarsdóttir er búin að stofna söngskóla í Reykjanesbæ.

Emilía Björg Óskarsdóttir varð fræg á einni nóttu þegar hún var valin í hljómsveitina Nylon vorið 2004. Hún hætti í hljómsveitinni árið 2007 eftir þriggja ára starf. Stóra ástin, Pálmi Sigurðsson, spilar þar stórt hlutverk en hún gat ekki hugsað sér að vera í fjarbúð. Þau gengu í hjónaband 2007 og eiga í dag tvær dætur. Eftir að hafa unnið ýmis störf síðustu tíu ár stendur Emilía á tímamótum en hún er búin að stofna söngskóla í Reykjanesbæ. 

„Mér hefur fundist vanta svona söngskóla hér í Reykjanesbæ. Ég hef reynslu af því að kenna börnum og unglingum söng og hefur það verið draumur lengi að opna minn eigin söngskóla. Núna er komið að því,“ segir Emilía í samtali við Smartland. Söngskólinn verður í safnaðarheimilinu í Innri-Njarðvíkurkirkju og segir hún að öll börn á Suðurnesjum sem eru fædd á árunum 2001-2009 séu velkomin. 

„Skólinn verður byggður þannig upp að hver og einn nemandi fær að njóta sín og vera hann sjálfur. Ég legg mikla áherslu á jákvæðni og gleði og það á að vera gaman í tímunum. Á námskeiðunum verður farið í gegnum ýmis tæknileg atriði, míkrafóna tækni, tjáningu og túlkun, framkomu ásamt ýmsu öðru. Hver nemandi æfir tvö einsöngslög og einnig hóplag. Svo enda öll námskeiðin á glæsilegum tónleikum fyrir fjölskyldu og vini.“

Það er einhvern veginn ekki hægt að tala við Emilíu nema spyrja hana út í Nylon. Við kynntumst nefnilega þegar undirrituð skrifaði bók um Nylon-stelpurnar, 100% Nylon sem kom út 2004, en bókin seldist í bílförmum og hlaut Bókaverðlaun barnanna vorið 2005. 

„Þegar ég hætti í Nylon var ég búin að taka góðan tíma í að hugsa mig um, hvort ég virkilega vildi hætta. Hugmyndin kom fyrst í kollinn á mér þegar ég var með stelpunum í Bretlandi. Ég fann það bara að mínir draumar voru ekki alveg á sama stað og þeirra. Ég vildi vera á Íslandi með mínu fólki. Þó hefði ég aldrei viljað sleppa því að fara með þeim út en ég fann það í hjartanu að þessi bransi var ekki lengur fyrir mig,“ segir hún. Árið 2007 sagði Emilía skilið við Nylon og giftist eiginmanni sínum en í dag eiga þau tvær dætur.

Síðan hún hætti í Nylon hefur hún ekki verið í öðrum böndum en þó gert töluvert af því að syngja og koma fram. 

„Söngurinn hefur þó alltaf fylgt mér og ég tek ennþá að mér ýmis verkefni,“ segir hún. 

Sérðu aldrei eftir því að hafa hætt í Nylon og ekki flutt með stelpunum til Los Angeles?

„Nei, ég get með góðri samvisku sagt að ég hef aldrei séð eftir því. Ég var mjög meðvituð þegar ég tók ákvörðun um að hætta að þær myndu halda áfram. Ég er rosalega glöð fyrir þeirra hönd og stolt af vinkonum mínum fyrir alla þessa þrautseigju og dugnað sem þær búa yfir. Þær eru æðislegar.“

Hvað gerði það að verkum að þú gerðir það ekki?

„Ég hafði aðra drauma. Líf mitt í dag er nákvæmlega eins og ég vil hafa það. Ég er fyrst og fremst mamma, gift yndislegum manni og við erum ótrúlega sterkt teymi. Mig langaði ekki að vera í fjarsambandi. Ég valdi það sem skipti mig mestu máli, fjölskylduna mína í stað frægðar í útlöndum.“

Þegar ég spyr hana hvað hún hafi haft fyrir stafni síðan hún hætti í Nylon segist hún hafa gert hitt og þetta. 

„Ég hef nú gert ýmislegt. Mestu afrekin eru klárlega að eignast dætur okkar Pálma. Síðan hafa komið ýmis verkefni og núna er líklega eitt af því stærsta sem snýr að starfsframa sem ég hef gert að verða að veruleika, söngskólinn.“

Þegar ég spyr hana út í móðurhlutverkið segir hún að það hafi kennt henni ótalmargt. 

„Ég á svo ótrúlega skemmtilegar og hæfileikaríkar stelpur. Mér finnst svo mikill heiður að fá að horfa á þær vaxa og dafna og verða ákveðnar og fá skoðanir. Þær eru dásamlegar í alla staði og án efa það mikilvægasta sem ég hef nokkurn tíman átt.“

Emilía Björg Óskarsdóttir.
Emilía Björg Óskarsdóttir.

Emilía er vinsæl á Snapchat. Þegar ég spyr hana út í þennan miðil segist hún bara vera hún sjálf á miðlinum. 

„Ég hef lagt mikið upp úr því að vera bara ég sjálf eins og ég er. Ég er ekki að hugsa um að vera stífmáluð eða með einhverja „grímu“ uppi. Ég legg mikið upp úr jákvæðni og gleði og eins líka bara að koma vel fram við þá sem fylgjast með mér, af virðingu og kærleika.“

Aðspurð hvort það fari mikill tími í að snappið segir hún að hún taki kannski 15 til 20 mínútur á dag í það. 

„Þetta er mjög mismunandi. En svo getur farið mun lengri tími í að svara skilaboðum sem ég fæ en það er samt svo gaman að vera í samskiptum við fylgjendurna að ég bara nýt þess í botn!“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?

„Ég eyði mestum tíma með fjölskyldunni minni, þau eru nr. 1, 2 og 3. Svo höfum við gaman af því að ferðast saman, fara í göngur og vera með vinum okkar.

Fyrir sjálfa mig hef ég haft það fyrir reglu að fara í ræktina þrisvar í viku að lágmarki. Ég var svo heppin að skrá mig á Þitt form námskeið hjá Freyju Sigurðardóttir í Sporthúsinu í Reykjanesbæ fyrir rúmu ári og hef ekki getað hætt. Þessir tímar eru svona „mytime“ og eitthvað sem ég algjörlega elska.“

Ertu með einhver plön fyrir sumarið?

„Heldur betur! Í júní verður fyrsta námskeiðið hjá söngskólanum mínum. Það verður í þrjár vikur og ætla ég að kenna hverjum hóp tvisvar í viku. Svo stefni ég á að halda næsta námskeið í haust. Ég ætla svo að njóta þess að vera í fríi í júlí og jafnvel kíkja eitthvað út fyrir landsteinana.“

Hvernig slakar þú á eftir annasama daga?

„Við erum með heitan pott á pallinum sem er voðalega notalegt að slaka á í. Annars held ég að það að fara snemma að sofa sé besta slökunin og geri ég það mjög oft, fátt betra en að sofna bara með stelpunum upp úr kl. 20.00,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál