Hætti forstjórastarfinu og fór í heimsreisu

Fjölskyldan nýtur sín vel á ferðalaginu.
Fjölskyldan nýtur sín vel á ferðalaginu.

Guðný Guðjónsdóttir sagði upp starfi sínu sem forstjóri Sagafilm og hélt af stað í heimsreisu ásamt eiginmanni sínum, Baldri Sigurvinssyni, og tveimur börnum Söru og Óðni. Sara tók sér ársfrí frá námi en hún er útskrifuð úr menntaskóla og ætlar í háskóla í haust. Óðinn, sem er 12 ára, hefur stundað námið á meðan á ferðalaginu stendur.

Í dag eru fjölskyldan sem sagt búin að vera á ferðalagi í fimm mánuði og hefur nú þegar heimsótt 14 lönd eins og til dæmis Þýskaland, Taíland, Malasíu, Balí (Indónesíu), Singapúr, Kambódíu, Ástralíu, Nýja-Sjáland, Síle, Bólivíu, Perú, Mexíkó og Belize. 

„Okkur var búið að dreyma um að fara í svona reisu lengi og höfum öll yndi af því að ferðast. Móðir mín lést skyndilega í júní í fyrra sem var okkur mikið áfall og minnti okkur enn frekar á að við vitum ekki hversu langan tíma við höfum.  Um að gera að láta draumana rætast á meðan maður hefur enn heilsu og getu til,“ segir Guðný en fjölskyldan lagði af stað í heimsreisuna 4. janúar síðastliðinn. 

„Við ákváðum að skipuleggja ferðina sem allra minnst. Undanfarin fimmtán ár hef ég unnið mjög mikið og líf mitt verið þrælskipulegt. Mig langaði því að leyfa mér að ferðast eftir því hvað okkur langaði að gera hverju sinni. Auðvitað verða ákveðnir þættir að vera vel skipulagðir fyrirfram, s.s fjármálin, tryggingar, sprautur og svo framvegis. Að öðru leyti vorum við búin að panta flugið til Frankfurt og Bangkok og gistingu en ákváðum annað jafn óðum. Þannig höfum við getað leyft okkur að framlengja á stöðum sem við vildum kynnast betur og stytta dvölina ef svo bar undir,“ segir Guðný en fjölskyldan áætlar að vera á ferðalagi fram í um miðjan júní. 

Þegar ég spyr hana hvað hafi staðið upp úr segir hún það ótalmargt. 

„Yndislega fólkið í Kambódíu, skoðunarferð um Angkor What, sem er eitt af undrum veraldar, gylltu Búddha-hofin í Bangkok, sólsetrið á Balí, að fara á fílsbak, saltslétturnar og nornamarkaðurinn í Bólivíu, fegurðin í Perú, strendurnar í Ástralíu, Maya-rústirnar í Mexíkó, vínbúgarðar í Síle og að hitta gamla vini víðs vegar um heiminn ásamt því að eignast fleiri. Ég gæti haldið lengi áfram, þetta er búin að vera frábær upplifun,“ segir Guðný. 

Guðný segir að allir í fjölskyldunni hafi átt sér draumastaði og því hafi þau reynt að gera öllum til hæfis. 

„Son minn langaði til Ástralíu, manninn minn til Suður-Ameríku, dóttur mína til Balí og mig langaði til að kynnast Asíu betur og hitta gamla vini frá skólaárunum sem búa í Malasíu og Bandaríkjunum auk þess sem ég elska Quebec í Kanada og vildi fara þangað aftur. Það fengu því allir eitthvað við sitt hæfi auk þess sem við bættum við stöðum sem við höfðum heyrt vel látið af. Markmiðið var að kynnast hvernig fólk lifði lífi sínu á þessum stöðum, skoða náttúruna og upplifa menninguna. Við völdum því ekki hefðbundna ferðamannastaði.“

Óðinn 12 ára sonur Guðnýjar.
Óðinn 12 ára sonur Guðnýjar.

Þegar ég spyr Guðnýju út í kostnaðinn segist hún ekki hafa gert nákvæma kostnaðaráætlun. 

„En ég var búin að kynna mér gróft hvað þetta kostaði. Reglan var að vera lengur á stöðum þar sem er ódýrara er að lifa og styttra á öðrum stöðum. Oftast er ódýrara að panta flug og gistingu með löngum fyrirvara eða mjög stuttum (last minute pricing). Við völdum seinni kostinn til að hafa meiri sveigjanleika. Það er mjög ódýrt að lifa bæði í Asíu og Suður-Ameríku og krónan nær miklu lengra í þeim löndum en heima. Við settum okkur viðmiðunarverð fyrir gistingu og reynum svo að gista í íbúðum inni á milli þar sem við gætum keypt í matinn og eldað sjálf.“

Þegar ég spyr Guðnýju hvað þau hafi tekið með sér játar hún að þau hafi haft allt of mikið dót meðferðis. 

„Við tókum allt of mikið með okkur. Nauðsynlegt er í svona ferð að hafa lyfjabox með því helsta en sem allra minnst af fötum. Það þyngsta sem við tókum með okkur voru allar skólabækur sonarins. Sum flugfélög eru mjög ströng varðandi þyngd á töskum og í mörgum tilfellum er ódýrara að kaupa sér einstaka flíkur og það nauðsynlegasta á leiðinni frekar en að bera það með sér alla leiðina. Yfirvigt í flugi er dýr þegar fjórir ferðast til þetta margra landa. Annars er auðvitað nauðsynlegt að taka símana sína, gott að hafa Ipad, kredit- og debetkortin, passana og svo af stað. Við höfum svo sent heim aukadót frá þremur löndum.“

Baldur er mannfræðingur og kennari.
Baldur er mannfræðingur og kennari.

Aðspurð  hvað hafi komið mest á óvart segir hún að það hafi verið hvað þetta er lítið mál. 

„Við heyrum allt það versta um heiminn í fréttum og áttum því von á ýmsu. Okkur hefur hinsvegar aldrei fundist okkur ógnað á neinn hátt, allt hefur gengið vonum framar og fólk víðsvegar um heiminn almennt hjálpsamt og indælt. Jafnvel í löndum þar sem nánast enginn talar ensku eins og í Síle, Bólivíu og Perú tókst okkur að gera okkur skiljanleg með því að nota takmarkaðan orðaforða á spænsku, nota google translate og líkamstjáningu.“

Hver er besti staðurinn sem þið hafi heimsótt?

„Það fer líklega eftir því hvern þú spyrð. Öll þessi lönd hafa sinn sjarma. Melbourne í Ástralíu sló í gegn hjá okkur öllum, Balí er yndisleg, Kambódía kom okkur öllum á óvart og Mexíkó er staður sem við eigum eftir að heimsækja aftur.“

Nú hlýtur það að taka á að vera fjögur saman í svona langan tíma. Er fjölskyldan alltaf sammála?

„Nei, við erum nú kannski ekki alltaf sammála en við sættumst alltaf á einhverja niðurstöðu. Við erum búin að vera saman 24/7 síðastliðna mánuði og það hefur gengið mjög vel. Sérstaklega er ég stolt af krökkunum mínum sem aldrei rífast og hugsa mjög vel hvort um annað.“

Þegar viðtalið var tekið var fjölskyldan stödd í Las Vegas og var næsti áfangastaður San Diego og svo ætla þau að enda í Kanada. 

Sara tók sér ársfrí frá námi en hún útskrifaðist sem …
Sara tók sér ársfrí frá námi en hún útskrifaðist sem stúdent í fyrra.
Guðný Guðjónsdóttir.
Guðný Guðjónsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál