„Ótrúlegt að einhvern langaði að giftast mér“

Ástin er í forgrunni hjá fimleikaparinu Agnesi Suto og Tomi Tuuha en þau gengu í hjónaband á eyjunni Sint Maarten 1. júní síðstaliðinn. Parið dvaldi í sjö daga í Karabíska hafinu til að láta drauminn um brúðkaupið rætast. Brúðkaupið var haldið á ströndinni og voru fjölskyldur þeirra beggja viðstaddar athöfnina. Greint er frá brúðkaupinu á vef Fimleikasambands Íslands. 

Hjónin kynntust á Heimsmeistaramótinu í Tokyo árið 2011 en þar tók Agnes þátt í sínu fyrsta stórmóti. 

„Fimleikamenn frá Norðurlöndum sátu saman í stúkunni og horfðu á podium-æfinguna, við byrjuðum að tala saman þar, og kynntumst svo betur á NEM 2011, ég flaug svo til Helsinki og var þar yfir jólin og eftir það byrjuðum við í fjarsambandi,“ segir Agnes en hún féll fyrir Tomi sem er 28 ára fimleikamaður frá Finnlandi. 

„Hann er mjög skemmtilegur, alltaf virkur og hefur mikinn áhuga á mismunandi íþróttagreinum. Hann byrjaði í fimleikum 8 ára og fljótt kom í ljós að hann væri mjög efnilegur,“ segir Agnes. Tomi er helst þekktur fyrir hæfni sína í stökki, en hann varð meðal annars Evrópumeistari á áhaldinu árið 2010 og sigraði heimsbikarmótaröðina í stökki árið 2014.

Eftir fimm ára samband fór hann á skeljarnar og bað Agnesar. 

„Ég kláraði síðasta vinnudaginn minn í Helsinki í júni í fyrra og við ákváðum að fara í almenningsgarð í góða veðrinu og þar bað hann mín. Fyrstu viðbrögð fjölskyldunnar voru góð. Tomi er æðislegur strákur sem hefur haft góð áhrif á mig, enda voru allir ánægðir með hugmyndina um brúðkaupið. Pabba fannst samt fyrst ótrúlegt að einhvern langaði að giftast mér, þar sem ég er mjög erfið manneskja.“

Hjónin eru í fjarbúð en Agnes segir að það hafi styrkt sambandið. 

„Það er mjög erfitt en það er alltaf þess virði að telja niður dagana þar til að við hittumst næst. Við tölum saman á hverjum degi og hann er tilbúin að styðja mig andlega í hverju sem er.“

Fram undan er annasamur tími hjá hjónunum en þau eru að æfa fyrir NEM og HM 2017.

„Ég ætla svo að halda áfram að þjálfa og æfa á Íslandi en hann ætlar að hefja tveggja ára flugnám í Pori, Finnlandi, frá janúar 2018. Þetta er planið núna en svo kemur í ljós hvernig við höldum áfram. Okkur langar að sjálfsögðu búa saman og ætlum að vinna í því að allt gangi upp sem fyrst,“ segir Agnes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál