Heilar kynfæri kvenna

Ágústa Kolbrún Roberts.
Ágústa Kolbrún Roberts. Ljósmynd/Pétur Þór Ragnarsson

Jógakennarinn og heilarinn Ágústa Kolbrún Roberts hefur farið óhefðbundnar leiðir í lífinu eins og hún segir sjálf frá. Hún hefur meðal annars eytt 13 mánuðum í skógi með indíánum í Ameríku og er tiltölulega nýkomin heim eftir sex mánuði í heilunarskóla í Gvatemala. 

Nú gefur Ágústa út heilunarmyndbönd á Facebook einu sinni í viku þar sem að hún er með alls konar heilræði. Hún tekur einnig að sér að heila einstaklinga og hópa og hjálpar þeim að tengjast sjálfum sér og slaka almennilega á. 

Vaknaði bara þegar hún vaknaði

„Ég seldi íbúðina mína, gaf allt dótið mitt og bara losaði mig við allt saman,“ sagði Ágústa um undirbúninginn fyrir Gvatemala-ferðina. „Þetta var svona núllpunktur fyrir mig.“

Aðalmarkmið skólans sem Ágústa fór í er að hjálpa nemendum að finna hverjir þeir eru óháð samfélaginu og öllu því sem hefur mótað þá utan frá. Skólinn er staðsettur í miðjum skógi í Gvatemala og er umhverfið að sögn Ágústu alveg stórfenglegt þar sem bleik og appelsínugul blóm umvefja vatn og eldfjall svæðisins.

„Á hverjum degi vaknaði ég bara þegar ég vaknaði, tók hugleiðslu og bæn og jarðtengdi mig með því að gera venjuleg heimilisstörf,“ sagði Ágústa. „Dagurinn minn var alltaf ótrúlega ævintýralegur frá byrjun þótt ég væri bara að gera venjuleg heimilisstörf því að umhverfið í kringum mig var svo yfirnáttúrulega fallegt.“

Útsýnið frá húsi Ágústu í Gvatemala.
Útsýnið frá húsi Ágústu í Gvatemala.

Lærði tantra og súkkulaðiheilun

Í skólanum lærði Ágústa bæði tantra og súkkulaðiheilun hjá tveim stofnendum skólans sem hún kallar seið- eða galdramenn. Súkkulaðiheilun gengur út á það að drekka 100 prósent súkkulaði sem slakar á öllum vöðvum líkamans en þetta gerði Ágústa á hverjum degi.

„Þetta tengir mann við manns innsta kjarna sem að er þetta saklausa fallega hjarta sem er í litla barninu inni í okkur,“ segir Ágústa um súkkulaðiheilun. „Maður þarf að læra að treysta heiminum upp á nýtt í hvert skipti og læra að leyfa sér að vera eins og maður er, ekki eins og fólk vill að maður sé.“

Hinsvegar gengur tantra heilun út á það að beisla kynorkuna og tengjast henni betur.

„Þegar fólk er í sambandi við hvort annað en með hugann úti um allt þá fær það ekki fullnægingu,“ segir Ágústa og bætir við að tantra hjálpi fólki að vinna úr þessu vandamáli og einbeita sér bara að sínu. „Heimurinn væri svo miklu betri ef allir væru í góðri tantra tengingu við sjálfan sig. Þá væri ekki svona mikið kynferðisofbeldi í heiminum þar sem menn telja sig hafa rétt á því að snerta annað fólk.“

Líður eins og í Harry Potter

Ágústa er nú búin að vera heima á Íslandi í um fjóra mánuði og segir það vera ákveðið menningarsjokk að koma aftur. Hún hefur þó tekið ákvörðun um að búa hér næstu árin þar sem að hún á son sem er að klára grunnskóla.

„Allir voru litríkir eins og ég þarna úti og ég þótti svo venjuleg,“ sagði Ágústa. „Nú líður mér svolítið eins og ég sé í Harry Potter þar sem ég er nýkomin úr galdraskólanum og komin aftur meðal venjulega manna,“ bætir hún við og hlær.

Nú er Ágústa á fullu að leita sér að verkstæðishúsnæði í Reykjavík því að hana langar að opna heilunarsetur þar sem hún getur bæði búið og haldið hugleiðslustundir, heilunarskóla og allskonar annað skemmtilegt.

„Mig langar ekkert í venjulegt heimili,“ sagði Ágústa. „Ég er með mikla list inni í mér og mig langar að skapa rými þar sem að ég get dansað, heilað, málað, sungið, prjónað og bara gert allskonar skapandi hluti.“

Heilar í gæsaveislum

Eins og staðan er núna vinnur Ágústa aðallega að taka að sér að heila einstaklinga og hjálpa þeim að slaka á og upplifa vellíðan. Hún hefur einnig mikið verið að fara í gæsanir seinustu tvö ár þar sem hún heilar kynfæri kvenna.

„Þetta eru allt mjög praktískar æfingar sem að við förum í,“ segir Ágústa um heilanir í gæsaveislum. „Við förum í tengingu við okkur sjálf og kynorkuna. Það eru allar konur sem vilja vera í dýpri tengingu og fá meiri kraft í kynorku sína.“

Íslendingar eru of vinnuglaðir

Í lokin segir Ágústa að það sé margt sem að meðal Íslendingur getur lært af jóga og heilun eins og að vera frjálsari og njóta lífsins meir.

„Við erum rosalega vinnuglöð á Íslandi og missum þess vegna mikið af upplifunum í lífinu,“ segir Ágústa. „en við þurfum í raun ekki að vinna svona mikið því okkur vantar ekki svona mikið. Við þurfum að vera duglegri í því að finna fegurðina í okkur í staðinn fyrir að reyna að kaupa hana utan frá í gallabuxum, augnhárum eða snyrtivörum.“

Ágústa bætir því við að henni finnist ríkidæmi snúast um að hafa tíma fyrir sjálfan sig og gera það sem maður elskar í lífinu. Hún viðurkenndi samt að þetta snérist allt um jafnvægi og fólk þyrfti að finna það sjálft

„Ég hef oft rekið mig á það að vera of mikill hippi og eiga engan pening,“ sagði Ágústa. „En ég hef líka verið mjög íslensk og rekið mjög farsælt jógastúdíó, unnið 12 tíma á dag og ekki haft tíma til þess að gera neitt fyrir sjálfa mig. Ég er að vinna í því að finna meðalveginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál