Vann sig í gegnum erfiða lífsreynslu

Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi segir að markþjálfun skili miklum …
Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi segir að markþjálfun skili miklum árangri. mbl.is/Árni Sæberg

Linda Baldvinsdóttir markþjálfi er lesendum Smartlands að góðu kunn. Linda segir að það hafi algerlega opnast fyrir henni nýr heimur þegar hún kynntist markþjálfuninni.

„Ég var búin að kynna mér árangursfræði lengi á netinu og í góðum bókum ásamt því að hlusta á fjölda fyrirlestra og ég heillaðist mikið af þessum fræðum. Þau hjálpuðu mér svo sannarlega að finna út hver ég var og hvað ég vildi fá út úr lífinu.

Á þessum tíma var ég að vinna mig frá erfiðum tímabilum sem höfðu bankað upp á í mínu lífi og ég bara verð að viðurkenna að það opnaðist nýr heimur fyrir mér þegar ég lærði markþjálfunina og í framhaldinu einnig NLP-markþjálfun. Ég tel að mjög mörg af okkar vandamálum felist í því að við erum ekki góð í samskiptum og lausnamiðaðri nálgun. Í þeim tilgangi ákvað ég að bæta við mig námi í samskiptaþjálfun og lærði hjá Gordon Training International. Hægt er að kynna sér allt um þá samskiptaþjálfun inni á Gordon.is,“ segir Linda.

Þegar ég spyr Lindu út í hennar fyrra líf kemur í ljós að hún starfaði á skrifstofu á vegum Reykjavíkurborgar og þar á undan var hún heimavinnandi húsmóðir þar sem hún sinnti börnum og búi. 

„Það valdi ég að hafa sem forgang í mínu lífi og sé ekki eftir húsmóðurdögunum né þeim tíma sem ég fékk að verja með börnunum mínum, það voru forréttindi að fá að sinna því mikilvæga hlutverki. Mér fannst nú stundum eins og mér væri að mistakast í því hlutverki og að það yrði líklega bara ekkert úr þessum börnum mínum,“ segir Linda og hlær og bætir við:

„En mér til mikillar gleði get ég þó sagt í dag að ég hef líklega gert eitthvað rétt þar sem þau standa sig öll vel í lífinu og ég er afar stolt af þeim öllum,“ segir hún. 

Markþjálfun hefur notið mikilla vinsælda hjá fólki sem vill skara fram úr, en hvað gerir markþjálfi nákvæmlega?

„Það sem markþjálfi eða samskiptaráðgjafi gerir nákvæmlega er að hann hlustar, speglar, spyr mikið og opið. Hann færir fram verkefni sem viðskiptavinirnir geta nýtt sér til aukinnar sjálfsþekkingar og markmiðasetningar, en fyrst og síðast þarf að myndast traust á milli markþjálfans/ráðgjafans svo hægt sé að finna þær hindranir sem leynast í hugsunum okkar og í kjölfarið finna nýjar og betri hugsanir sem færa okkur betra og gjöfulla líf sama á hvaða sviði það er.“

Getur markþjálfi hjálpað öllum?

„Markþjálfi getur hjálpað öllum þeim sem vilja breytingar á lífi sínu og eru tilbúnir til að leggja á sig þá vinnu sem það krefst, en það er sama hvort það eru markþjálfar, samskiptaráðgjafar, sálfræðingar eða aðrir sem eru allir af vilja gerðir til að aðstoða fólk við að ná árangri, það er alltaf fyrst og síðast undir staðfestu og vilja hvers og eins komið hvaða árangur næst.“

Hver eru helstu vandamál fólks sem leitar til þín?

„Léleg sjálfsmynd og sjálfstraust, vandamál í samskiptum við börn, unglinga, maka, vinnufélaga og stórfjölskylduna ásamt sorg, depurð og kvíðatengdri líðan eru líklega stóru vandamálin sem fólk kemur með inn á borð til mín. Mér þykir afar sárt að sjá hvað það er mikil sorg og vanlíðan á okkar litla landi þrátt fyrir að samkvæmt mælingum höfum við það einna best af þjóðum heims hvað varðar veraldlega velmegun,“ segir Linda. 

Hvaða mistök er fólk oftast að gera í lífinu?

„Við erum alltaf öll að gera einhver mistök í lífinu ef við viljum kalla það mistök, ég vil gjarnan kalla þetta lærdómsferli og líklega þurfum við flest að læra mest á sviði samskipta, bæði við okkur sjálf og aðra. Svo erum við afar dugleg að sóa þessu dýrmæta lífi okkar með því að njóta þess ekki að vera bara við sjálf hvað svo sem öðrum finnst um það. Sem reyndar ég tel kannski vera sorglegustu mistökin okkar; að lifa ekki samkvæmt okkur sjálfum heldur einhverjum öðrum. Mér þætti bara forvitnilegt að vita hvað gæti gerst í lífi okkar allra ef við hreinlega hættum algjörlega að pæla í því hvað öðrum fyndist eða hvað aðrir vilja halda um okkur. Ég held að lífið yrði bara glimmerstráð og laust við depurð og kvíða að mestu, en hvað veit ég svosem,“ segir hún og hlær. 

Hvað tekur langan tíma að koma lífinu í rétt horf með markþjálfun?

„Ég segi oft að við þurfum að líta á andlega heilsu með sama hætti og þá líkamlegu. Við þurfum að halda okkur stöðugt við þar. Það tekur kannski ekki svo langan tíma að koma sér í þokkalegt form, en svo er að halda því við og við þurfum þess svo sannarlega þar sem við erum að búa okkur til nýjar venjubrautir og hugsanir en þær gömlu eru þó ansi lífseigar – ég stóð mig til dæmis að því í sumar að vera í tvígang að keyra heim að lokinni vinnu og rankaði við mér þegar ég var hálfnuð á leiðinni að gamla heimilinu mínu þar sem ég bjó fyrir tíu árum. Lífseigar þessar gömlu venjur - þannig að, til að svara spurningunni þá get ég sagt: Þú getur náð ótrúlegum árangri á skömmum tíma en síðan er gott að mæta í andlegu ræktina reglulega til að halda sér á beinu brautinni á meðan nýjar venjur fá að ná rótfestu.“

Hvers vegna nær fólk ekki árangri í lífinu?

„Stutta svarið mitt er óttinn. Óttinn við það hvað öðrum finnst, ótti við að við séum ekki nægjanlega góð og frambærileg, að aðrir séu betri, klárari, fallegri en við og svo framvegis, og svo viljum við ekki særa né fá höfnun - en fyrst og síðast er þetta ótti í einni eða annarri mynd.

Þar á eftir kemur held ég held skortur á sjálfsþekkingu – að vita hvað við viljum og hver við erum. En auðvitað eru ýmsir aðrir þættir sem koma inn í þetta. Lífið hefur þann skemmtilega hátt á að við stjórnum ekki öllu og þurfum því stundum að vinna bara þau verkefni sem það færir okkur og árangur okkar getur leynst svo víða og án þess að eftir honum sé tekið sérstaklega. Við sjáum ekki og skiljum oft ekki líf annarra og af hverju þeir bregðast við eins og þeir gera, en lífið hefur kennt mér að við erum yfirleitt öll að leitast við að fá jákvæða útkomu úr öllum verkefnum og að við erum líka að gera okkar besta hverju sinni - þó að það sé kannski ekki alltaf nóg samkvæmt einhverjum mælikvörðum.“

Linda Baldvinsdóttir.
Linda Baldvinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Ertu með einhver góð ráð fyrir þá sem vilja ná árangri í lífinu?

„Mitt fyrsta ráð er: Njóttu lífsins í þakklæti og gleði og láttu ekki vondar bitrar tilfinningar eyðileggja þennan dásamlega stutta tíma sem þér er úthlutað hér.

Annað ráð mitt er: Hlustaðu á hjarta þitt og framkvæmdu samkvæmt því en ekki því sem aðrir segja þér að sé rétt fyrir þína tilvist hér.

Vendu þig á að tala fallega um þig og aðra, það skilar sér að lokum til þín, lögmál sáningar og uppskeru gildir reyndar í öllu sem við segjum og gerum, svo það borgar sig að vanda sig og hugsa um hvaða uppskeru við viljum sjá.

Starfaðu við það sem veitir þér ánægju og vekur ástríðu þína fyrst og fremst og mundu að árangurinn er oft fólginn í því að hjálpa öðrum að ná árangri. Svo gefur það okkur mikla gleði að fá að hjálpa öðrum að vaxa og dafna þó að ekki fari mikið fyrir því eða um það sé talað.“

Hvað hefur þroskað þig mest í lífinu?

„Þau erfiðu verkefni sem lífið hefur fært mér til úrlausnar hafa þroskað mig mest, því það er nú svo skrýtið að erfiðustu verkefnin og dimmustu dagarnir bera í sér mesta þroskann og hjálpa okkur mest við að komast á stað fordómaleysis, æðruleysis og umburðarlyndis.“

Hvers vegna ákvaðstu að velja það að hjálpa öðrum?

„Vegna allra þeirra ótrúlega erfiðu verkefna sem lífið fékk mér til úrlausnar, og trúðu mér, þau hafa verið nokkuð mörg og erfið. En vegna þeirra ákvað ég að reynsla mín yrði að nýtast þeim sem lífið færi ekki svo mildum höndum um og þeim sem vildu finna styrk sinn, mátt og megin. Ég sagði á einum tímapunkti lífs míns að ég bara hreinlega skildi ekki bofs í því hvers vegna ég, þessi góða stelpa, hefði fengið svona mörg og erfið verkefni upp í hendurnar, en það skildi ég vel þegar ég fór að hjálpa þeim sem voru að kljást við sín erfiðu verkefni. Ég hafði bara verið í háskóla lífsins og tel að ég hafi staðist prófin nokkuð vel, að minnsta kosti nægjanlega vel til að geta orðið öðrum að liði,“ segir Linda. 

Hvernig lífi lifir þú í dag?

„Ég lifi lífinu í dag samkvæmt því sem veitir mér gleði og ánægju hverju sinni og ég á afar gott líf í dag, líf sem nærir mig andlega og veraldlega.

Ég veit að Guð, lífið, alheimurinn eða hvernig svo sem þú skilur æðri mátt og lífið, sér fyrir mér og mínum þörfum og ég get bara sleppt tökum og leyft lífinu að gerast án minna afskipta. Og trúðu mér, það er alltaf eitthvað spennandi að gerast þegar við erum ekki alltaf að reyna að vera við stjórnvölinn, lífið kemur sífellt með nýjar og nýjar lexíur og skemmtilegheit - prófaðu bara og sjáðu að jafnvel allt það dimmasta og erfiðasta í þínu lífi verður þér að lokum til góðs með einhverjum hætti,“ segir hún. 

Hvað gerir þig hamingjusama?

„Að lifa í þakklæti, gleði og í fullu samræmi við sjálfa mig hverja stund gefur mér hamingjuna og svo gleðst ég svo sannarlega yfir þeim forréttindum að eiga lífið sjálft og tækifærin sem eru úti um allt hér á okkar jörðu, að vera heilbrigð og eiga góðan maka, fjölskyldu og vini sem eru mér eilíf uppspretta gleði og þakklætis með orðum sínum og gjörðum. Þetta er það sem er hamingjan fyrir mér.“

Linda Baldvinsdóttir.
Linda Baldvinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál