6 ára Jóhanna sigraði keppnina

Jóhanna Ósk 6 ára á vinstri myndinni og 36 ára …
Jóhanna Ósk 6 ára á vinstri myndinni og 36 ára á hægri myndinni.

Í sumar voru liðin 30 ár frá því að Flugstöð Leifs Eiríkssonar var vígð og af því tilefni var efnt til myndasamkeppni á facebook þar sem fólk gat sent inn gamlar myndir af sér á ferðalagi um stöðina. Fjölmargar skemmtilegar myndir bárust þar sem innréttingar og tíska níunda áratugarins voru áberandi. Sagan á bak við vinningsmyndina er skemmtileg en sú mynd var tekin í flugstöðinni í júlí 1987 af Jóhönnu Ósk sex ára.

„Þetta er önnur eða þriðja myndin sem er tekin á glænýja Olympus OM40 filmuvél sem við hjónin keyptum í fríhöfninni,“ segir Ásgerður Eiríksdóttir sem sigraði myndakeppnina. 

Jóhanna Ósk og fjölskylda voru á leið í sérstaka fjölskylduferð á vegum ferðaskrifstofunnar Sögu til Costa del Sol með Arnarflugi. Í þessa ferð fór hún með foreldrum og bróður sínum, ömmu og afa auk frænda á sama aldri og hún. Í dag er Jóhanna Ósk 36 ára.

„Það var óskaplega gott að koma með börn í Leifsstöð og ákveðin „útlönd“ að koma þangað inn,“ segir Ásgerður Eiríksdóttir, móðir Jóhönnu.

„Jóhanna Ósk var heimavön í Leifsstöð þar sem hún hafði fengið að fara erlendis með ömmu og afa sínum áður. Reyndar fannst manni strax í innritun að þar væru flugfreyjurnar sem myndu koma manni alla leið. Inni í flugstöðinni var lögð mikil áhersla á stemningu með lifandi gróðri og til að mynda voru þar pálmatré sem hvergi var hægt að sjá annarstaðar á íslandi en í gróðurhúsum í Hveragerði. Innkoman var  var ákveðin hallarstemmning breiður stigi upp og rosalega hátt til lofts og vítt til veggja. Þar gat að líta varning sem fékkst hvergi annarsstaðar og svo mátti sjá bregða fyrir flugfreyjum og flugstjórum sem var ekki lítil upplifun,“ segir Ásgerður.

Jóhanna Ósk á leiðinni til Spánar 1987. Myndin sigraði ljósmyndakeppni …
Jóhanna Ósk á leiðinni til Spánar 1987. Myndin sigraði ljósmyndakeppni í tilefni af 30 ára afmæli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Jóhanna Ósk er 36 ára í dag.
Jóhanna Ósk er 36 ára í dag.

Spánverjar hrifnir af hvíta hárinu

Ferðin til Spánar gekk ljómandi vel og á þessum tíma þótti flugið jafn mikið ævintýri og áfangastaðurinn. 

„Það sem við vorum öll spennt að fá að borða í fluginu og krakkarnir fengu hamborgara, litabók og liti en það þekktist varla á þeim tíma að það væri verið að græja eitthvað sérstaklega fyrir börn,“ segir Ásgerður.

Ferðin var skemmtileg og fjölskyldan naut þess að vera í fríi saman í sólinni.

„Spánn tók vel á móti okkur og voru Spánverjar sérstaklega hrifnir af hvíta hárinu á krökkunum og fengu að snerta það og þannig eignuðumst við vini spænska fjölskyldu sem deildu með okkur melónu á ströndinni. Krakkarnir léku sér saman og virtust aldrei vera í vandræðum með að skilja hvert annað.“

Mæðgurnar Ásgerður og Jóhanna Ósk.
Mæðgurnar Ásgerður og Jóhanna Ósk.

Hélt að símtalið væri hrekkur

Ásgerði krossbrá þegar hringt var í hana og henni tilkynnt um vinninginn og ætlaði varla að trúa þeim sem var á línunni

„Mér fannst það ótrúlegt og minnir að ég hafi spurt hvort þetta gæti verið hrekkur en mig grunar alltaf Jóhönnu Ósk um græsku enda er hún hrekkjótt með eindæmum! Svo fannst mér þetta einstök gæfa að „lenda í því að vinna svona“ og ég er mjög þakklát. Ég á reyndar mjög vinningsheppna vinkonu á Eyrarbakka sem lofaði að leggja á mig álög og smita mig af vinningsheppninni og kannski er það komið fram. Mér finnst þetta alveg frábært og mun að sjálfsögðu njóta mikið vel,“ segir Ásgerður að lokum en þessar lukkulegu mæðgur eru nú á leið til Alicante þar sem þær ætla að njóta sólarinnar saman enda þær hafa ekki farið saman til útlanda í um það bil 12 ár.

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem teknar voru í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og voru sendar inn í ljósmyndakeppnina. Eins og sjá má voru allir í sínu fínasta pússi og augljóst að ekki var hægt að fara úr landi nema vera klæddur í nýjustu tísku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál