Notar eldgömul efni sem hætt er að selja

Bára Atladóttir saumar föt og selur á netinu.
Bára Atladóttir saumar föt og selur á netinu.

Bára Atladóttir er 21 árs stúlka úr Breiðholtinu sem saumar og selur föt á netinu. Hún segir að eftir grunnskóla hafi verið augljóst að hún stefndi á Listnámsbraut í Fjölbraut í Garðabæ með fatahönnun sem aðalval þar sem hún hafði mestan áhuga á saumum í grunnskóla.

Hvenær byrjaðir þú fyrst að sauma? „Ég hef alltaf verið að sauma síðan ég man eftir mér. Mamma var alltaf að sauma og stússast í kringum þetta þegar ég var yngri svo hún kenndi mér þetta. Þá var ég aðallega að sauma eitthvað ofureinfalt og oftar en ekki hræðilega ljótt. Ég kunni ekki að sníða þá né fara eftir leiðbeiningum. Þetta varð svo alltaf meira og meira áhugamál og ég var farin að senda textílkennarann minn í grunnskóla í hinar og þessar búðir fyrir utan vinnutíma að sækja snið svo ég gæti saumað í tímum hjá henni. Henni fannst frábært að einhver hafði loksins áhuga á tímunum sínum og vildi allt fyrir mig gera.“

Hvernig var saumanámið í FG? „Ég byrjaði að sauma mjög ung og var orðin nokkuð sjóuð í saumaskapnum þegar ég byrjaði í menntaskóla. Í saumakúrsunum í FG er ætlast til að maður teikni allt upp 100 sinnum en það var ekki beint minn tebolli. Ég vil alltaf skissa hugmyndina niður á blað, sníða hana strax og sauma saman en breyti henni svo eftir þörfum þegar ég er búin að máta. Ég var því kannski ekki uppáhaldið hjá kennurunum sem fengu oftast að sjá illa saumaða flík eftir einn tíma á meðan aðrar voru enn að gera sniðin sín. Eftir yfir þrjátíú misheppnaðar flíkur fór ég að læra af mistökunum og nú vanda ég mig meira við allt sem ég geri, sérstaklega ef ég er að gera það fyrir aðra.“

Þú gerir eina flík og enginn á eins - getur fólk beðið þig um að gera eins? „Ég geri mismunandi mikið af flíkum, flest efnin sem ég nota eru hvergi til og því er mjög erfitt að gera sérpantanir úr sérstökum efnum. Ég var svo heppin að fyrir nokkrum árum fékk ég að eiga efnalager frá gamalli konu og eru efnin öll eldgömul sem hætt er að selja. Það gerir flíkurnar sérstakari. Svo datt ég aftur í lukkupottinn um daginn þegar efnabúð var að loka og ég fór og keypti afgangsstranga af efnum þar. Ég sauma eftir því hve mikið efni ég á, allt frá einni flík upp í 10 flíkur.“

Ertu að sauma eftir beiðni eða saumarðu allt sjálf? „Ég er bæði að sauma eftir beiðnum og upp úr sjálfri mér. Þetta byrjaði þannig að ég var alltaf að sauma eitthvað nýtt og birti myndir af flíkunum á Instagram og Facebook. Í kjölfarið fékk ég pósta eða símhringingar frá fólki sem vildi kaupa flíkina eða fá eins. Ég sauma allt sjálf en ef það kemur eitthvað upp á eða eitthvað sem ég þarf hjálp með er mamma alltaf til staðar. Hún er nánast alltaf með mér þegar ég bý til snið en hún er búin að vera að sníða og sauma síðan hún var lítil svo hún gefur mér oft góð ráð.“

Ertu ein í þessu eða hefurðu einhvern með þér? „Ég er ein en fjölskyldan styður mig í þessu, mamma hjálpar mér með kostnað og vinnuna sem fylgir þessu, bróðir minn gerði heimasíðuna og svo þarf pabbi greyið að lifa með því að eldhúsborðinu sé breytt daglega í sníðaborð.“

Hvernig auglýsiru þig? „Ég ákvað strax að ég vildi hafa heimasíðu, þó svo að Facebook sé frábær auglýsing þá vildi ég að fólk gæti pantað á netinu og borgað í gegnum PayPal. Ég bjó líka til aðdáendasíðu á Facebook til að auglýsa mig betur og seinna meir mun ég gefa flíkur á þeirri síðu í gegnum svokallaða „giveaway“ leiki. Ég er nýkomin með Instagram og hvet fólk til að elta mig þar en þar mun ég birta myndir af ferlinu, flíkunum og öðru skemmtilegu.“

Ertu að sauma eftir einhverjum ákveðnum stíl eða tímabili? „Ég er ekki að sauma eftir ákveðnum stíl en frekar mínum stíl. Ég elska síðar flíkur og kögur. Það er nánast undantekningarlaust kögur á öllu sem ég hef verið að gera síðustu vikur. Ég myndi aldrei sauma eitthvað sem mér finnst sjálfri ekki flott.“

Hyggstu selja annarsstaðar í framtíðinni? „Það væri auðvitað frábært að komast inn í einhverja búð í framtíðinni og jafnvel opna mína eigin en ég tek bara einn dag í einu og læt hugann ekkert reika of langt.“

Bára útskrifaðist úr FG núna um Jólin 2013 og ætlar að taka sér hlé frá skóla og vinna. Hana dreymir um að flytja erlendis í framtíðinni og fara í góðan háskóla og mennta sig sem fatahönnuð.

Flík eftir Báru Atladóttur, falleg yfirhöfn með kögri.
Flík eftir Báru Atladóttur, falleg yfirhöfn með kögri.
Bára notar falleg munstur og mikið af kögri.
Bára notar falleg munstur og mikið af kögri.
Flík eftir Báru Atladóttur.
Flík eftir Báru Atladóttur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál