Svava Johansen var fyrirmyndin

Álfrún Pálsdóttir ritstjóri Glamour.
Álfrún Pálsdóttir ritstjóri Glamour. Ljósmynd/Sissa

Álfrún Pálsdóttir hefur verið ráðin ritstjóri íslensku útgáfunnar af glanstímaritinu Glamour en blaðið mun koma út eftir áramótin. Álfrún hefur bakgrunn í tískuheiminum en hún starfaði hjá Svövu Johansen hjá NTC áður en hún leiddist út í blaðamennsku. Þegar Álfrún er spurð hvernig nýja starfið leggist í hana segist hún spennt. 

„Við erum öll ótrúlega spennt fyrir Glamour! Ég verð að viðurkenna að það var skrýtið að ganga af fréttagólfinu, þar sem ég hef setið í sama stólnum (sem er merktur mér!) í næstum því sjö ár, og upp á fjórðu hæð í 365 þar sem Glamour verður með höfuðstöðvar héðan í frá.

Það er auðvitað draumur fyrir mig að fá að þróa tímarit með mér reyndara fólki, bæði hjá 365 og hjá Condé Nast, sem er stærsta útgáfufélag í heimi og gefur út blöð á borð við Vogue, Vanity Fair og GQ, út um allan heim. Þarna höfum við fengið algjörlega einstakt tækifæri til að læra af þeim bestu í faginu og ég ætla mér að fá sem mest út úr því. Framundan eru þjálfunarbúðir hjá höfuðstöðvum Condé Nast í París og London.“

Álfrún hefur tröllatrú á teyminu sem ætlar að vinna með henni í blaðinu. 

„Ritstjórn blaðsins hef ég líka tröllatrú á, en ég hef verið aðdáandi verka bæði Silju og Regínu lengi. Silja á líka svo geðveikan Pug, sem heitir Yoko og ég er hálfpartinn að vona að hún fylgi með í ráðningu Silju. Ólöfu stal ég án þess að hika frá Fréttablaðinu. Ég hef aldrei kynnst manneskju sem er jafn furðulega skipulögð í óskipulaginu sínu. Svo minnir hún mig líka alltaf á að hugleiða þegar pressan er sem mest.“

Þegar hún er spurð hvort hún hafi lengi verið aðdáandi Glamour segir hún svo vera.  

„Glamour er ótrúlega flott blað, en gríðarlega misjafnt eftir því um hvaða útgáfuland ræðir. Efnistökin eru að einhverju leyti fyrirfram ákveðin, en við fáum svo frelsi til að aðlaga blaðið að íslenskum markaði og eins og við viljum hafa það. Til dæmis er breska Glamour allt öðruvísi en það bandaríska, sem er svo allt öðruvísi en það hollenska. Svo mætti lengi áfram telja. Íslenska Glamour mun því endurspegla það sem er að gerast á Íslandi, í tísku sem og öðru, en mun um leið leita út í heim að fyrirmyndum, í tísku, í tímaritabransanum og í lífinu.

Hjá okkur verður fókusinn á tísku og Silja Magg er tískuritstjórinn, en auk þess verða stór viðtöl, umfjallanir og úttektir á fólki og málefnum, umfjallanir um hönnun, myndlist, heilsu svo eitthvað sé nefnt. Samhliða þessu ætlum við að halda úti öflugri heimasíðu og vera fyrirferðarmikil á samskiptamiðlum.“

Hvernig lestu tískublöð og hvað sækir þú helst í þegar þú gerir það?

Sjálf les ég öll tímarit sem ég kemst yfir og hef mikinn áhuga á tímaritum, ekki síður á rekstrarhlið þeirra. Tímarit sem hafa vigt, eru falleg en efnistökin jafnframt vönduð heilla mig mest. Þannig tímarit eru eiguleg og sannkallað stofustáss, allavega á mínu heimili. Ég er uppalin í Svíþjóð og lærði í Noregi og ég hef því sótt mikið í tímarit þaðan gegnum tíðina, líka til að halda mér við í tungumálunum.“

Áður en Álfrún leiddist út í blaðamennsku starfaði hún hjá NTC sem rekur verslanir á borð við 17, Evu, Kultur og GS skó svo einhverjar séu nefndar. 

„Ég var lánsöm að alast upp hjá NTC - þar sem ég vann frá því að ég var 17 ára gömul, fyrst sem helgarstarfsmaður á gólfinu í Kringlunni og síðar sem verslunar- og innkaupastjóri. Það var góður skóli og ekki síst fyrir þær sakir að vera með öflugan kvenkynsstjórnanda, Svövu Johansen, sem fyrirmynd. Ég fór beint þaðan upp í Skaftahlíð árið 2006 þar sem ég smitaðist af blaðamannabakteríunni og þaðan varð ekki aftur snúið.“

Hvað finnst þér standa upp úr í hausttískunni?

„Ég elska haustið og tískuna sem þessari árstíð fylgir. Ég er hrifin af jakkafötunum og einfaldleikanum sem fylgir tískunni þessa stundina. Minna er meira er mitt mottó fyrir klæðaburð vetrarins, sem er ákveðinn léttir líka. Einnig er ég byrjuð að prufa mig áfram með útvíðar skálmar og támjóa skó. Aftur.“

Í hvað myndir þú aldrei fara?

„Aldrei að segja aldrei. Menn og konur hafa brennt sig á þessari spurningu.“

Hvernig farðar þú þig dagsdaglega? 

„Ég lærði förðunarfræði samhliða menntaskólagöngu minni og starfaði eftir það sem sminka í hjáverkum í nokkur ár. Þrátt fyrir það eru mínar förðunarvenjur ekkert spennandi og ég lítið fyrir að feta nýjar brautir fyrir framan speglinn. En með hækkandi aldri hefur húðumhirða fengið meira vægi hjá mér og mér finnst fátt fallegra en ljómandi og frískleg húð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál