28 ár á bak við búðarborðið - ekkert mál að eldast

Lilja Hrönn Hauksdóttir.
Lilja Hrönn Hauksdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Lilja Hrönn Hauksdóttir kaupmaður í Cosmo er búin að vera fyrir aftan búðarborðið síðan 1987 eða í 28 ár. Á þessum 28 árum hefur aldrei hvarflað að henni að gera eitthvað annað og hún hefur aldrei fengið kulnun í starfi. Þegar hún er spurð að því hvers vegna það sé stendur ekki á svörunum. 

„Það er bara af því ég að elska að gera það sem ég er að gera. Þetta er mín ástríða og ég elska að klæða konur. Þetta haustið hefur tekist vel til,“ segir hún. Lilja Hrönn neitar því samt ekkert að hún hafi upplifað mörg tískuslys í gegnum tíðina og það er eitt tímabil sem er sérstaklega minnisstætt. 

„Við lentum í hræðilegum vandræðum í kringum árið 2000 þegar lágu buxurnar voru hvað mest í tísku. Ég lét sérsauma fyrir mig buxur svo ég ætti eitthvað fyrir kúnnana mína því það var ekki hægt að fá neitt nema þessar ferlega lágu buxur sem voru ekki klæðilegar,“ segir hún og fer að hlæja þegar hún rifjar þetta upp. Þegar horft er til baka hljóta allir að sjá að lágar buxur og magabolir eru alltaf vond hugmynd - allavega fyrir venjulegar íslenskar konur. 

Lilja Hrönn er búin að vera bak við búðarborðið í bráðum 30 ár og því ekki úr vegi að spyrja hana hvernig sé að eldast sem tískudrottning.

„Þetta er ennþá í góðu lagi. Ég sé ekki fyrir mér að hætta á næstunni. Búðin mín er mín ástríða og ég vakna á hverjum degi og hlakka til dagsins á morgun,“ segir hún. 

mbl.is/Styrmir Kári


Nú er ný árstíð að skella á og þegar ég spurði Lilju Hrönn út í haustískuna 2015 stóð ekki á svörunum. 

„Hausttískan er mjög frjálsleg, dömuleg og líka smá röff. Litirnir sem eru ríkjandi í ár eru grátt, navy og svo koma jarðlitir sterkir inn. Það er mikil buxnatíska og svokallaðar „boyfriend“ buxur hafa aldrei verið vinsælli. Það er hægt að dressa þær bæði upp og niður,“ segir Lilja Hrönn. 

Lilja Hrönn Hauksdóttir.
Lilja Hrönn Hauksdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Þegar hún er spurð að því hvernig konur eiga að dress slíkar buxur upp þá mælir hún með því að fara í silkiskyrtu við og eru þær girtar ofan í buxurnar að framan. Við þetta er svo farið í háa hæla eða ökklastígvél. 

„Ef ég væri að klæða þær niður myndi ég fara í þröngan bol og setja á mig klút. Þessar buxur passa við öll tækifæri, bæði á djammið og í vinnuna.“

Þegar Lilja Hrönn er spurð að því hvað sé nýtt í hausttískunni sem hefur ekki sést áður nefnir hún „boyfriend“ buxurnar. „Ég hef ekki fengið neitt í langan tíma sem hefur orðið jafnmikið æði og þessar buxur. Svo má nefna prjónapeysur sem hafa sjaldan verð vinsælli ásamt leðurjökkum.“

Lilja segir að það sé klæðilegt að reyna að vera í svolítið þröngu að ofan við buxur eins og þessar með kærastasniðinu. Þær séu svolítið lausar í sniðinu og því sé fallegt að hafa efri hlutann aðsniðinn eða þrengri en buxurnar. 

mbl.is/Styrmir Kári

Aðspurð að því hvað sé nauðsynlegt að eignast fyrir haustið nefnir Lilja Hrönn rifnar gallabuxur, leðurjakka og grófa töff peysu. 

„Svo vil ég leggja áherslu á að allar konur verða að eiga einar svartar klæðilegar buxur sem passa við öll tækifæri. Þessar buxur verða að vera háar í mittið. Svo myndi ég mæla með því að hver kona festi kaup á frakka.“

Þegar Lilja Hrönn er spurð hvað hana dreymi um að eignast fyrir haustið játar hún að hún sé búin að fá sér kærastabuxur í öllum litum en hana langi í silkiskyrtu og töff kápu.

Lilja Hrönn Hauksdóttir.
Lilja Hrönn Hauksdóttir. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál