„Þessi lykt er náttúrulega alger hryllingur“

Það skiptir miklu máli að þvo treyjuna rétt.
Það skiptir miklu máli að þvo treyjuna rétt. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þeir sem fjárfestu í íslensku landsliðstreyjunni áttu líklega ekki von á því að nota þessa flík dag eftir dag, viku eftir viku. Í hita leiksins getur komið óheyrileg líkamslykt í treyjuna, sem er úr 100% gerviefni, og því skiptir þvottaaðferð miklu máli. 

Það vita fáir betur hvernig á að meðhöndla þvott en skólastjóri Hússtjórnarskólans, Margrét Sigfúsdóttir. Margrét er ekki bara með öll þvottatrix á hreinu heldur þekkir hún það af eigin raun hvernig er að koma að mygluðum íþróttafötum sem hafa gleymst í íþróttatöskunni. Ég hringdi í Margréti og fékk hana til að leiða mig í allan sannleikann um þvott og þvottaefni. Þegar ég spyr hana út í treyjuna stendur ekki á svarinu. 

„Það verður svo leiðinleg lykt af þessu,“ segir hún og bendir á að það sé hægt að fara nokkrar leiðir til að ná lyktinni og óhreinindunum í burtu. 

„Gott er að skola treyjuna upp úr ediksblöndu áður en hún fer í þvottavél,“ segir hún. Þegar hún nefnir ediksblöndu þá er hún að tala um að setja 1/2 lítra af ediki í 2–3 lítra af vatni og láta treyjuna liggja í blöndunni í nokkrar mínútur áður en hún fer í hefðbundinn þvott. 

Margrét bendir á að það sé erfitt að meðhöndla föt úr þessu efni því þetta þoli illa hita. Hún segir mér að það sé alveg galið að þvo íþróttaföt á 40 gráðum, jafnvel þótt sú tala sé gefin upp á þvottamiðanum. 

„Það koma krumpur í treyjurnar ef þær eru þvegnar á 40 gráðum. Það er of hár hiti,“ segir hún. 

Ef ediksblandan virkar ekki og líkamslykt næst ekki úr treyjunni við þá meðhöndlun mælir Margrét með efninu Rodalon. Það fæst í matvöruverslunum. 

„Ef allt annað bregst þá er gott að þvo upp úr Rodaloni. Það má ekki setja þvottaefni í vélina heldur er efnið sett í vélina og svo er flíkin þvegin aftur á hefðbundinn hátt. Rodalon virkar ekki með þvottaefni,“ segir hún. 

Þegar ég spyr hana hvað hún noti mikið af Rodaloni segist hún alls ekki spara það. 

„Ég nota alveg einn fjórða úr flöskunni. Það hreinsar vélina í leiðinni en þetta efni tekur alla þessa vondu lykt sem kemur í föt fólks,“ segir hún og bætir því við að hún sé mjög fegin að þetta efni kom á markað. Til að byrja með fékkst það bara í byggingarvöruverslunum en nú fæst það í nánast hvaða matvörubúð sem er. 

Hún segir að það henti líka vel á föt sem hafa gleymst í íþróttatöskunni og eyði allri táfýlu og svitalykt. „Þessi lykt er náttúrulega alger hryllingur,“ segir hún. 

Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík.
Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál