Byrjaði ferilinn fyrir fermingu

Björg í Spaksmannsspjörum.
Björg í Spaksmannsspjörum. Morgunblaðið/Ófeigur Lýðsson

Björg Ingadóttir, fatahönnuður og einn af eigendum Spaksmannsspjara, er reynslubolti í bransanum sem hún segir aðeins vera fyrir þá allra þrjóskustu, sérstaklega þessa stundina þegar neyslumynstur fólks er eins og raun ber vitni; þegar magn virðist oft skipta mestu máli. Björg er ekki hrifin af þessu neyslumynstri en sér fram á vitundarvakningu hjá neytendum í nákominni framtíð. 

Spurð hvenær hún hafi byrjað í fatahönnunarbransanum kveðst Björg hafa byrjað ung. „Það má segja að ég hafi byrjað ferilinn fyrir fermingu. Þegar ég var 13 ára réði ég fyrsta starfsmanninn til mín til að sauma og breyta fötum. Það var aðallega fyrir sjálfa mig en ég fór síðan að framleiða og selja upp úr því. Sem unglingur vann ég í fataiðnaðinum á Akureyri og í fataverslunum í Reykjavík, þar til ég fór í nám til Danmerkur,“ segir Björg, sem útskrifaðist sem fatahönnuður árið 1987 frá Københavns Mode- og Designskole. Síðan þá hefur hún starfað sem fatahönnuður. „Ég vann í Max og 66°N á sínum tíma við að koma útivistarfatnaðinum á koppinn sem tískuvöru. Á þessum tíma þótti ég ótrúlega bjartsýn þegar ég hélt því fram að það þyrfti að gera útivistarlínur fyrir konur. Þá dugði að eiga skíðaföt og regnjakka. Árið 1993 voru Spaksmannsspjarir svo stofnaðar og við vorum þrjár saman í byrjun. Á þeim tíma var staðan svipuð og núna, sem sagt ekki mikið um störf í þessu fagi og eina leiðin til að starfa við fagið var að stofna sitt eigið fyrirtæki. Árið 2014 keypti ég svo meðeigenda minn út úr fyrirtækinu og seinna sama ár komu dóttir mín og eiginmaður hennar inn með mér.“

Björg og Björg í Spaksmannsspjörum hafa fyrir löngu runnið saman í eitt

Björg segir einkalífið og starfsframann vera fyrir löngu orðið einn og sama hlutinn. „Það hefur bara ekki tekist,“ segir Björg spurð hvernig hafi gengið að púsla persónulega lífinu saman við vinnuna. „Ég hef ekki hugmynd um hvernig á að gera það. Björg og Björg í Spaksmannsspjörum hafa fyrir löngu runnið saman í eitt. Ég er alltaf í vinnunni en ég velti mér ekkert sérstaklega upp úr því. Ég hef mjög gaman af þessu starfi, er alltaf að gera nýja hluti og læra eitthvað nýtt. Ég myndi helst vilja vera í vöruþróun alla daga og einblína á umhverfisþáttinn og tæknimálin og vinna að því að koma okkur út úr því neyslumynstri sem tíðkast í dag á öllum sviðum, það er algjörlega úrelt,“ útskýrir Björg, sem verður þess vör að fólk velji gjarnan mikið magn fata fram yfir gæði því að það sé oft á tíðum einfaldast ákvörðunin. „Það er komin hefð að kaupa nýtt frekar en að laga, finna, þvo eða hvað það er sem þarf að gera. En sem betur fer er ákveðin vitundarvakning hafin í sambandi við sóun og neyslu. Það er ekki lengur flott að grobba sig af því að þetta eða hitt hafi ekki kostað meira en einhver tiltekin upphæð því að þýðir einfaldlega að einhver annar er að borga raunverulegt verð vörunnar – vinnuafl eða náttúran.“

„Reksturinn hefur alltaf verið erfiður“

Björg segir fatahönnunarbransann aðeins vera fyrir þrjóskasta liðið. „Reksturinn hefur alltaf verið erfiður. En ég hef alltaf átt mína frábæru viðskiptavini sem elska fötin og nota þau við alls konar tækifæri. Með árunum bætast svo alltaf nýjar konur við hópinn og í dag eru t.d. dætur fyrstu viðskiptavinanna minna meðal minna bestu kúnna, það er ótrúlega gefandi. Markaðurinn hér heima er samt eiginlega of lítill fyrir „slow fashion“-búð eins og Spaksmannsspjarir og það er mjög flókið að fara á erlendan markað. Til þess þarf þolinmótt fjármagn og áhættan er mikil, meðal annars þar sem krónan okkar er óútreiknanleg. Framleiðsluferlið er langt og margar breytur eiga sér stað frá því að prufur eru gerðar og þar til peningurinn skilar sér á endanum í kassann frá erlendri sölu. Þess vegna er svo mikið atriði að aðal „útflutningurinn“ fari fram hér land í formi sölu til ferðamanna.“

Björg segir miklar breytingar hafa orðið á miðbænum á undanförnum árum, sumar góðar en aðrar ekki. „Hér er nóg af fólki alla daga vikunnar og yfirleitt mikil og góð stemming. En svokallaðar lundabúðir hafa verið að spretta upp í auknum mæli í takt við fjölgun erlendra ferðamanna á kostnað margra lítilla sérverslana. Ég verð að viðurkenna að ég sakna fyrirtækjanna sem hafa farið af þessum punkti sem mín verslun er á. Það hafa a.m.k. sex íslensk hönnunarfyrirtæki hætt eða flutt úr nágrenninu á undanförnum sex til sjö árum,“ segir Björg og telur upp verslanirnar ELM, STEiNUNN, Gust, Orr, Birna og ELLA. „Eftirspurnin eftir húsnæði fyrir minjagripaverslun er mikil og það hefur leitt af sér hækkun á leiguverði í miðbænum. Verð á húsnæði hefur að minnsta kosti tvöfaldast á síðustu tveimur árum. Þetta gerir það að verkum að lítil fyrirtæki eru á höttunum eftir ódýrara húsnæði en vita ekki hvert þau eiga að fara.“

Spurð út í aukin viðskipti við erlenda ferðamenn kveðst Björg alltaf fá fleiri og fleiri erlenda viðskiptavini í verslunina sína. „En ég hefði viljað sjá enn meiri vöxt í samræmi við gífurlega fjölgun ferðamanna sem koma til landsins. Ferðamaðurinn ætti að vera mikið tækifæri fyrir íslenska hönnun en því miður höfum við lítið náð því enn sem komið er. Þeir vita mest lítið um hönnun hér á landi, þar sem engin heildræn markaðssetning á hönnun hefur átt sér stað fyrir ferðamenn. Við eigum enga Björk Guðmundsdóttur eða álíka snillinga sem hafa gert garðinn frægan fyrir okkur hönnuði erlendis. Við erum á byrjunarstigi hvað þetta varðar,“ segir Björg.

Björg segir reksturinn alltaf hafa verið krefjandi.
Björg segir reksturinn alltaf hafa verið krefjandi. Morgunblaðið/Ófeigur Lýðsson

Smartasta fólkið ekki það sem er alltaf í nýjum fötum

Þeir sem þekkja til Spaksmannsspjara vita að þar er ekki verið að eltast blindandi við heitustu tískustraumana. „Nei, Spaksmannsspjarir er algjör tímaskekkja í „fast fashion“-tískunni í dag og passa ekki við almenna hugsun neytenda samtímans. Ég vinn að sjálfsögðu með alþjóðatrendin en á minn hátt. Ég er mjög praktískur hönnuður og legg mikið upp úr notagildi og sníðagerð. Smart og vel hönnuð flík virkar ekki ef sniðið er ekki nógu gott. Ég legg metnað minn í að fatnaðurinn frá Spakmannsspjörum geri þetta „litla extra“ fyrir konurnar.“

Eins og áður sagði er Björg ekki hrifin af neyslumynstri samtímans. Hún skilur ekki hvernig fólk nennir almennt að eiga eins mikið af fötum og alls konar hlutum og tíðkast nú til dags. „Ég er spennt fyrir framtíðinni og allri þeirri þróun sem mun eiga sér stað í efnum, framleiðsluferli og umhverfisvitund. Vonandi er stutt í að við getum öll prentað fötin okkar í 3D-prenturum. Þá mun hönnunin skipta öllu máli en ekki framleiðslan því hún mun þá færast til neytenda og efnið í fötin verður hægt að endurnýta aftur og aftur í prentunina. Mér finnst smartasta og áhugaverðasta fólkið alls ekki vera þeir sem fara í eitthvað nýtt endalaust. En oft á tíðum er það einfaldasta lausnin og stundum er það meira að segja ódýrara; að kaupa sér nýja flík frekar en að fara með eldri flík í hreinsun. Þetta er auðvitað ekki í lagi. Alvöru hönnun á að vera hægt að nota í gegnum mismunandi tímabil, bara með því að stílísera fatnaðinn á misjafnan hátt. Og það er ekkert ljótt þó að það sjáist á fötum, en til þess að láta fatakaupin endast þarf að vanda sig við kaupin og hugsa vel um fötin sín. Það þarf að kunna að strauja, pressa, taka hnökur og laga saumsprettur.“

„Aðgengi að alls konar fatnaði hefur aldrei verið meira en í dag, né hafa fötin verið ódýrari. En gæðin og smartheitin haldast ekki alltaf í hendur við framboðið. Hér á Íslandi finnst mér oft koma upp mjög sterk trend og undanfarin ár hafa einfaldir kjólar og toppar verið mjög áberandi. Spaksmannsspjarir hafa ekki tekið þátt í þessu trendi nema að litlu leyti og er ástæðan sú að þetta er einfaldur fatnaður sem í raun allir geta auðveldlega saumað sjálfir,“ segir Björg, sem þykir jákvætt að fólk geri tilraunir í saumaskapnum og vill leggja sitt að mörkum. „Ég hef verið að undirbúa að selja snið í öllum stærðum í einfalda kjóla og toppa sem koma fljótlega í sölu. Það eina sem þarf er áhuginn, æfingin skapar meistarann,“ segir Björg.

Hvað þýðir „slow fashion“ og „fast fashion“?

„Fast fashion“ er hugtak sem er gjarnan notað yfir þá stefnu hönnuðar að koma vörunni sem hraðast inn á markað til neytanda. Öllum „óþarfa“ þáttum er fækkað í kaupferlinu og þannig styttist sá tími sem tekur að koma tískuvöru í verslun. Með þessum viðskiptahætti er hægt að bregðast hratt við tískustraumum og koma tískuvarningi skjótt í hendur viðskiptavina. „Fast fashion“-tískuföt eru oftast unnin í stórum verksmiðjum og það er lítil sem engin leið fyrir viðskiptavin að komast að uppruna vörunnar. Föt sem unnin eru með þessum hætti eru gjarnan unnin af ódýru vinnuafli, fjöldaframleidd og einblínt er á að halda verðinu niðri fyrir viðskiptavininn.

„Slow fashion“er hugtak sem spratt upp sem mótsvar við offramleiðslu og sóun í textíl- og hönnunarheiminum. Til að hönnun geti flokkast sem „slow fashion“ þarf hún að vera vönduð og endingargóð. Eins er aðbúnaður þess sem framleiðir vöruna góður og neytandi á að geta rakið hvaðan varan er upprunnin. Allir sem koma að gerð vörunnar fá greitt fyrir vinnu sína og niðurstaðan er sú að neytandinn sem kaupir vöruna borgar meira fyrir hana en ef hún væri fjöldaframleidd í verksmiðju. Sanngirni í viðskiptum skiptir miklu máli í „slow fashion“-tískuheiminum. Vandað handverk og endurunnin efni einkenna gjarnan fatnað sem unninn er undir „slow-fashion“-hreyfingunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál