„Draumaverkefnið er alltaf handan við hornið“

Birta Ísólfsdóttir hannaði nýja línu GK Reykjavík.
Birta Ísólfsdóttir hannaði nýja línu GK Reykjavík. Ljósmynd / Birta Ísólfsdóttir

„Ég var frekar ung þegar ég ákvað að mig langaði að verða fatahönnuður, sem barni fannst mér skemmtilegast að teikna mínar eigin dúkkulísur sem áttu mörg föt til skiptanna. Í menntaskóla fór ég á listnámsbraut til að eiga betri möguleika á því að komast inn í listaháskólann, sem gekk eftir og ég útskrifaðist frá LHÍ sem fatahönnuður þaðan árið 2010,“ segir Birta Ísólfsdóttir, en hún hannaði nýja tískulínu fyrir GK Reykjavík.

Getur þú sagt mér aðeins frá nýju línunni fyrir GK, hver er hugsunin á bak við hana?

„Þetta er í raun frekar lítil lína sem ég vann í samstarfi við Evu Katrínu, verslunarstjóra GK Reykjavík. Verslunin var stofnuð árið 1997 og höfum við því mikla sögu og breiðan kúnnahóp til að vinna með. Mig langaði að hanna klassískan vandaðan fatnað í bland við götutísku fyrir bæði dömur og herra, og í leiðinni hlusta á þarfir kúnna GK. Hugsunin er að byrja smátt og þróa okkur síðan upp í tvær línur á ári. GK Reykjavík hefur alltaf selt vönduð merki og finnst mér því mikilvægt að gera vandaðan fatnað sem endist og erum við komin í samstaf við flotta framleiðendur og efnaframleiðendur erlendis.“

Hvaðan færð þú innblástur?

„Allt fólk sem verður á vegi mínum gefur mér innblástur, ég hef alltaf haft gaman að því að fylgjast með fólki í kringum mig og skoða hvernig það klæðist, hagar sér og hvernig hægt er að sjá samfélagsleg mynstur í gegnum klæðaburð fólks.“

Samfestingur úr nýrri línu Birtu.
Samfestingur úr nýrri línu Birtu. Ljósmynd / Birta Ísólfsdóttir

Áttu þér einhverja tískufyrirmynd, eða eftirlætis hönnuð?

„Það er svo breytilegt hverjir eru í uppáhaldi á hverjum tíma en ég hef alltaf haft gaman af hönnuðum sem leika sér með hönnun sína og túlka hana eins og myndlist. Annars ber ég mikla virðingu fyrir hönnuðum eins og Filippu K sem leggur mikla áherslu á sjálfbæra hönnun og umhverfis meðvitund í framleiðslu sinni.“

Hvert er ferlið frá hugmynd og að tilbúinni flík?

„Ég byrja á því að tala við fólk í kringum mig og leita að þörfum. Ég hef til að mynda fundið mikið fyrir því að fólk í kringum mig vanti daglegan vinnufatnað úr góðum efnum, flíkur sem þurfa að endast vel og hafa fjölbreytta notkunarmöguleika. Þaðan fer ég í hugmynda- og „concept“-vinnu og útfæri flíkurnar með tækniskjölum fyrir framleiðendur. Framleiðandinn skilar af sér sýnishornum, ég geri breytingar eftir að hafa mátað flíkurnar á nokkur módel og geng svo frá endanlegri flík. Ferlið getur tekið allt að fjórum til átta mánuðum, frá frumhönnun þar til fullbúin vara berst í mínar hendur.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið þitt?

„Starfið mitt er mjög viðamikið þar sem ég sé um stóran hluta framleiðslunnar hjá NTC, en ég verð að segja að fjölbreytileikinn og fólkið sem ég vinn með er það skemmtilegasta við starfið. Og að sjálfsögðu frelsið við að fá að skapa.“

Áttu þér draumaverkefni?

„Draumaverkið er alltaf handan við hornið.“

Hvernig væri uppskrift þín að fullkomnum degi?

„Ég bý svo vel að kærastinn minn eldar einstaklega góðan mat, og ég vinn við áhugamál mitt, svo flestir dagar eru fullkomnir.“

Birta vildi hanna klassískan og vandaðan fatnað í blandi við …
Birta vildi hanna klassískan og vandaðan fatnað í blandi við götutísku. Ljósmynd / Birta Ísólfsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál