Elskar flíkur með sál og sögu

Hrefna Daníelsdóttir bloggari segir fallegt bros aldrei fara úr tísku.
Hrefna Daníelsdóttir bloggari segir fallegt bros aldrei fara úr tísku.

Hrefna Daníelsdóttir lífsstílsbloggari og ritari á fasteignasölunni Hákoti gekk nýlega til liðs við bloggsamfélagið Trendnet en hún hefur bloggað af mikilli ástríðu um tísku og falleg heimili síðan árið 2012.

Hrefna segist alltaf hafa verið mikill fagurkeri og haft sterka löngun til að hafa fínt í kringum sig. Hún skrifar bæði um tísku og heimili á bloggsíðu sinni http://trendnet.is/hrefnadan/ en skyldi annað hvort vera henni meira hugleikið en hitt. „Ef ég ætti að velja á milli þá er heimilið mér meira hugleikið. Mér finnst ótrúlega gaman að skoða alls konar heimili og er hálfgerður heimilisperri. Ég er ein af þeim sem kem í heimsókn á nýjan stað og fæ leyfi til að skoða mig um í öllum rýmum.

Heimili Hrefnu og fjölskyldu hennar er afar stílhreint og fallegt.
Heimili Hrefnu og fjölskyldu hennar er afar stílhreint og fallegt.

Hrefna segist fá mestan innblástur inni á heimilum hjá öðrum. „Misjafn stíll, ólíkar áherslur í uppröðun og falleg hönnun og hausinn á mér fer á fullt. Persónulegir munir, myndir af vinum og vandamönnum og góð birta heilla mig einnig mikið sem og útsjónarsemi og það að sjá annan tilgang með hlutum en það sem þeir voru upphaflega hannaðir fyrir.

Tískan er Hrefnu líka hugleikin en í allt annarri mynd.  Ég hrífst með og hef gaman af fallegum flíkum og fylgist með því sem er í tísku hverju sinni, en hleyp ekki eftir hverju trendi. Ég kaupi mér mjög reglulega tískutímarit og fylgi mörgum mega svölum á Instagram, þar fæ ég mikinn innblástur.

Dæmi um fallega uppröðun.
Dæmi um fallega uppröðun.

Ólíkt mörgum bloggurum sem leggja mikið upp úr nýjungum virðist Hrefna lausnsamiðuð og sniðug með ferðum sínum á fatamarkaði og með fatakaupum á netinu. Hefurðu alltaf verið nýtin? „Já, ég hef nýtt vel það sem ég á og aðrir eiga. Ég hef lengi verið sú sem fær að gramsa í fataskápum hjá frænkum, ömmum og vinkonum þeirra sem eru að losa sig við fatnað. Fyrir mér eru þær flíkur hvað merkilegastar þar sem þær eru með sögu og sál. Frænkan klæddist ef til vill kjólnum á árshátíð og amman var í kjólnum við brúðkaup dóttir sinnar. Svona flíkur elska ég.“

Flott tískufyrirmynd.
Flott tískufyrirmynd.

Nytjamarkaðurinn Búkolla á Akranesi þar sem Hrefna er búsett er svo hennar allra uppáhaldsmarkaður en þar gerir hún að eigin sögn ótrúleg kaup. „Ég get ekki talið hversu oft ég hef labbað út með fullan poka af mega fínum flíkum, skóm, beltum og alls konar fyrir mjög lítinn pening. Reglulega er allur fatnaður á 250 kr. sem er auðvitað gjöf en ekki gjald. Sem dæmi fékk ég einu sinni nýlega 66° norður úlpu á 250 kr. Margir halda að það séu bara gömul og lúin föt á nytjamörkuðum, sem lykta ógeðslega illa en því fer fjarri, þarna leynist mikið af nýju og ónotuðu og lyktin af flíkunum er alls ekki slæm.

Notað og nýtt í bland.
Notað og nýtt í bland.

Spurð um uppáhaldsverslunina sína á netinu segir hún hana vera www.asos.com.  „Þar skoða ég mjög reglulega en versla ekki í hvert skipti. Ég geymi það sem heillar mig hverju sinni á óskalistanum og svo færi ég það í innkaupakörfuna þegar þar að kemur, svo er ég líka mjög dugleg að fylgjast með afsláttum því þá getur maður gert virkilega góð kaup.“ Nýjasta flíkin sem Hrefna festi kaup á er einmitt silfurlituð vetrarúlpa sem hún keypti á www.asos.com.

Nýjasta flíkin!
Nýjasta flíkin!

En hvað ætli verði um fatnaðinn sem hefur skilað hlutverki sínu í fataskápnum hjá Hrefnu. „Ég gef helling í Rauða krossinn og tvisvar á ári skelli ég svo í almennilega fatasölu. Það er lítið rými á fasteignasölunni sem ég get nýtt undir söluna og það er alltaf brjálað að gera. Ég er meira að segja rukkuð um fatasölu af fastakúnnunum ef það líður of langt á milli.“ Er einhver flík sem þú getur bara ekki hent sem hefur tilfinningalegt gildi fyrir þig? „Pallíettukjóll frá ömmu minni heitinni og nöfnu Hrefnu Dan er flík sem mér þykir ótrúlega vænt um en kjólinn nota ég mjög mikið við alls konar tilefni. Ég vil meina að ég finni stundum ilmvatnslyktina af ömmu þegar ég klæðist kjólnum.“

Nú styttist í nýtt ár, hvaða tískustrauma eigum við von á að sjá? „Það sem mér finnst mikilvægast á hverju ári, hverri árstíð, alla daga og alltaf er að vera maður sjálfur. Það og fallegt bros er alltaf í tísku.“

Falleg mynd af Instagram-síðu Hrefnu af henni og dóttur hennar.
Falleg mynd af Instagram-síðu Hrefnu af henni og dóttur hennar.

Fyrir nokkru léstu hafa það eftir þér í blaðaviðtali að þú værir Instagram-fíkill með risastóra drauma. Hverjir eru draumarnir? Hvar á ég að byrja, í mörg ár hefur mig dreymt um að eignast litla sæta búð sem er í senn kaffihús. Notuð föt, nýir fylgihlutir, gott kaffi, gamlar bækur til að glugga í yfir kaffibollanum og huggulega stemmning. Gömlu bækurnar væru hluti af skiptibókamarkaði sem væri í einu horninu, fólk kæmi þá með bók að heiman og gæti fundið sér annað eintak þarna og tekið með sér heim. Hversu góð nýting á bókum væri það?


Einnig langar mig í tengslum við fasteignabransann að vera manneskjan sem fær að hafa puttana inni á heimilum fólks sem er að selja eignina sína, svona svipað og þekkist í öðrum Norðurlöndum. Ég fengi að færa til hluti, koma inn með afskorin blóm og fleira áður en teknar yrðu myndir af eigninni. Mig langar einnig að gera meira úr ljósmyndaáhuganum sem hefur aukist með árunum hjá mér.“ Hrefna tekur myndir af því sem heillar augað hverju sinni en segir stelpurnar sína þrjár, þær Viktoríu, Söru og Tinnu, vera orðnar frekar leiðar á þessum endalausu myndatökum. „Þar af leiðandi er ég farin að taka í auknum mæli myndir af heimilinu okkar. Það tjáir sig ekkert svo ég get myndað það linnulaust.“

Sunnudagsárbíturinn klár.
Sunnudagsárbíturinn klár.

Spurð hvort að hún setji sér skýr og regluleg markmið til að nálgast alla þessa fallegu drauma segist hún einfaldlega gera sitt besta á degi hverjum. „Ég tek einn dag í einu og svo er líka ótrúlega skemmtilegt að sjá hvert lífið leiðir mann hverju sinni, það kemur nefnilega sífellt á óvart.“

Að lokum liggur beinast við að spyrja hvers þessi heillandi fagurkeri óskar sér í jólapakkann. Ég labbaði inn í skóbúðina Kaupfélagið um daginn og sá þar skópar sem mætti alveg bætast í hópinn með öllum hinum skópörunum. Maðurinn minn hann Páll Gísli elti mig um búðina og tók myndir af þeim pörum sem heilluðu mig hvað mest, svo hann væri örugglega með þetta allt saman á hreinu. Förðunarbókin Andlit er líka ofarlega á óskalistanum mínum. Inni á heimilið langar okkur í stærri týpuna af Aalto-trébrettinu frá Iittala, það væri svo hentugt í sunnudagsárbítinn okkar fjölskyldunnar,“ segir Hrefna Daníelsdóttir að lokum.

Hægt er að fylgjast nánar með Hrefnu á:
Instagram: hrefnadan
Snapchat: hrefnadan
www.trendnet.is/hrefnadan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál