„Ég er algjör yfirhafna- og skóperri“

Guðrún Helga Kristjánsdóttir.
Guðrún Helga Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson.

Guðrún Helga Kristjánsdóttir lýsir sér sem ósköp venjulegri stelpu út Vesturbænum. Það þarf hins vegar ekki langa stund til að átta sig á því að hún er allt annað en venjuleg. Hún er óhrædd við að takast á við nýjar áskoranir og lætur ekkert stoppa sig. Sautján ára gömul pakkaði hún ofan í ferðatösku og flutti til London. Hún viðurkennir að sú ákvörðun hafi fallið í grýttan jarðveg heima við en hún lét sér ekki segjast. Út vildi hún og fór.

Guðrún Helga Kristjánsdóttir ásamt hönnun sinni.
Guðrún Helga Kristjánsdóttir ásamt hönnun sinni. Ljósmynd/úr einkasafni.

„Ég hafði trú á því að í London gæti ég unnið mig upp í að verða fatahönnuður og fór bara, án þess að hlusta á kóng né prest. Verð að viðurkenna að það vakti ekki mikla lukku en ég lærði heilmikið á þeim árum sem ég bjó í London. Ég lærði að standa ein, sjá um mig sjálf og geta ekki stólað á neinn,” segir Guðrún Helga en hún endaði á að búa í London í tvö og hálft ár. 

„Í London vann ég fyrir hin og þessi tískumerki, náði að vinna mig vel upp og endaði sem verslunarstjóri fyrir fatahönnuð. Þar fékk ég að taka þátt í ákvörðunum innan fyrirtækisins, hvað ætti að hanna næst og tæla kúnna inn í búðirnar, ná sölumarkmiðum og sjá til þess að hitt starfsfólkið næði þeim líka, sem var mjög lærdómsríkt. Þarna sá ég hvernig flík verður til og komst svo á endanum í sölu og sá hversu gíganísk vinna er á bakvið rekstur og hversu mikilvæg öll eftirfylgni er. Þetta verður eiginlega eins og nýfætt barn, sem þú getur ekki litið af.” 

Guðrún Helga segir að henni hafi fundist gott að fá þessa reynslu fyrir nám. 

„Fatarekstur eða að skapa þér merki snýst eiginlega minnst um hönnunarferlið. Það er gott að vera búin að átta sig á því áður en maður dembir sér út á vinnumarkaðinn. En það er svo sem allt skemmtilegt við fötin finnst mér, hvort sem það er að hanna þau, selja þau eða gera rekstaráætlun, stílesara eða gera búðina eða vinnustaðinn fínann. Allt er þetta jafn mikilvægt ef maður vill koma flíkunum sínum til kúnnans.”  

Eftir árin í London ákvað Guðrún Helga að snúa heim og klára stúdentspróf með miklum hraða og því varð Menntaskólinn Hraðbraut fyrir valinu sem hún segir að hafi verið æðislegur skóli. 

„Fatahönnun átti alltaf hug minn og planið var alltaf að fara í það nám.  En áður en ég hóf nám ákvað ég að flytja til Kína. Það var bæði af því að landið heillaði mig og líka af forvitni þar sem þetta er allt svo gjörólíkt okkur. Ég lærði þar smá kínversku og kínverska menningu. Á meðan ég bjó þar nýtti ég tíman og skoðaði og heimsótti hinar ýmsu verksmiðjur og sá hvernig fötin eru framleidd og verða til fyrir bæði stóru og litlu fatamerkin. Shanghai tíminn var virkilega lærdómsríkur og áhugaverður.”   

Ljósmyndari/Baldur Kristjánsson.

Guðrún Helga lærði fatahönnun með áherslu á viðskiptahlutann í Englandi en fékka að taka síðasta árið sitt í Listaháskóla Íslands en hún hefur komið sér vel fyrir hér á landi ásamt eiginmanni og tveimur gullfallegum dætrum, Ísey og Grímheiði. Hún segist vera mikil fjölskyldumanneskja og viti fátt skemmtilegra en að vera með skemmtilegur fólki, helst borðandi góðan mat um leið.

Þegar hún er spurð út í samstarfið við Norr11 segir hún að það hafi orðið til vegna kunningsskapar. 

 „Vinir mínir reka Norr11. Yfir heitum kaffibolla vorum við að spjalla um daginn og veginn. Á þessum tíma var ég að taka sérpantanir af yfirhöfnunum mínum fyrir kúnna en alveg opin fyrir því að koma nokkrum eintökum inn í búð í sölu. Þá datt okkur í hug hvort það væri ekki tilvalið að sameina krafta okkar með þessum hætti og í desember hafa mokka jakkarnir mínir og kápur verið til sölu í búðinni hjá þeim. Ég er þeim ótrúlega þakklát fyrir það.” 

Þegar hún er spurð að því hvað hún leggi mest áherslu á í klæðaburði segist hún vera alger yfirhafna- og skóperri. 

„Ég er algjör yfirhafna- og skóperri.  Það er eins og ég geti alltaf á mig yfirhöfnum og skóm bætt. Annars finnst mér efnið skipta mjög miklu máli og ég elska fallega díteila.” 

Hvernig á nútíma kona á klæða sig? „Eins og henni líður best. Er ekki bara allt leyfilegt? Ég fagna fjölbreytileikanum.” 

Ljósmynd/Baldur Kristjánsson.

Mesta tískuslysið? „Þegar ég var 12-13 ára var ég að vinna með alveg hræðilegt lúkk. Það var svona: Hvítar ný þröngar Tark buxur, svakalega háir böffalóskór, sem ég var svo ánægð með þegar ég eignaðist þá og fannst þetta vera eilífðareign. Við þetta var ég svo í frekar víðri Nike peysu og með hvítt Nike hárband eða öllu heldur svitaband, sem var bara upp á lúkkið. Síðan var þetta toppað með þykkum hvítum eye-liner og kannski smá bleikum augnskugga ef tilefnið var fínt. Gjörsamlega hræðilegt lúkk,” segir Guðrún Helga en næstu skref segir hún vera að njóta jólanna og halda síðan áfram að skapa og búa til fallegar yfirhafnir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál