Vinkonur síðan 2004 og vinna nú saman

Íris Ósk Laxdal og Theódóra Mjöll Skúladóttir.
Íris Ósk Laxdal og Theódóra Mjöll Skúladóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nafnið Angan er skírskotun í „ilminn af íslenskri náttúru“. Þær Theodóra Mjöll og Íris Ósk deila sýn á fullnýtingu náttúrulegra hráefna ásamt því að hvetja til vitundarvakningar á eiginleikum þeirra. Markmið fyrirtækisins er að skapa einfaldar og áhrifaríkar húðvörur sem gefa húðinni raka, mýkt og ilm, en fyrstu tvær vörurnar frá Angan eru þarabaðsalt og saltskrúbbur sem innihalda íslensk fjallagrös. Theodóra hefur víðtækan bakgrunn, en hún starfar sem hárgreiðslukona og rithöfundur, var stjórnandi eigin þátta á Stöð 2 og er með BA-próf í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands. Íris hefur síðastliðin tíu ár verið búsett í Kaupmannahöfn, þar sem hún stundaði nám við Arkitektaskólann og starfaði sem arkitekt. „Við höfum verið vinkonur síðan 2004, en við kynntumst í Iðnskólanum í Reykjavík þegar við vorum þar í námi.“

Vinkonurnar segjast alltaf hafa deilt áhuga á hönnun og listum.

„Í byrjun ársins vorum við að spjalla saman og deildum hugmynd sem við vorum að vinna að hvor í sínu lagi,“ útskýrir Theodóra, sem segir hugmyndir þeirra hafa verið keimlíkar, en í kjölfar samtalsins tóku vinkonurnar ákvörðun um að þarna væri réttur tími til að samnýta krafta og reynslu þeirra beggja og stofna fyrirtæki.

„Við trúum því að með því að sameina krafta okkar beggja náum við áhugaverðari og betri útkomu. Við köstum ólíkum hugmyndum á borðið og tölum krítískt um þær, sem leiðir okkur í að uppgötva eitthvað nýtt og óvænt,“ segir Íris.

Þá segjast þær sækja innblástur alls staðar að.

„Frá bókum, ljósmyndum, hönnun og arkitektúr, en síðast en ekki síst úr náttúrunni.“

Spurðar hvers vegna þær hafi ákveðið að gera húðvörur segjast þær hafa séð tækifæri á markaðnum fyrir sjálfbærar húðvörur með íslenskar náttúrulegar hrávörur í forgrunni.

„Okkur finnst afar mikilvægt að styðja við innlenda sjálfbæra framleiðslu. Við viljum nýta hin kraftmiklu og hreinu hráefni í náttúrunni fyrir húðina sem svo skolast til baka út í náttúruna þaðan sem þau komu. Við viljum stuðla að vitundarvakningu á náttúrulegum hrávörum sem skapa jákvæða hringrás milli manns og náttúru,“ útskýrir Theodóra.

Vörur Angan eru allar handgerðar af mikilli nákvæmni til að tryggja gæði.

„Fyrstu tvær vörurnar eru byggðar á salti sem fellur út í sjálfbærri saltframleiðslu á Reykjanesi. Saltið er mjúkt og steinefnaríkt, sem hentar vel í húðvörur. Saltið er streitulosandi, djúphreinsandi, eykur blóðflæði og örvar endurnýjun húðarinnar. Í þarabaðsaltinu notum við handtínt bóluþang sem er þurrkað með jarðvarma og er stútfullt af andoxunarefnum, steinefnum og slímefnum sem mýkja húðina. Einnig dregur það úr bólgum, örvar framleiðslu kollagens og er slakandi. Ilmkjarnaolíurnar völdum við bæði út frá andlegri virkni og örvun þeirra á skynfærin,“ segir Íris.

Í saltskrúbbnum nota þær síðan handtínd fjallagrös. Theodóra og Íris segja fjallagrös eiga langa sögu á Íslandi frá landnámi og hafa þau verið notuð meðal annars til lækninga.

„Fjallagrösin hafa bakteríudrepandi eiginleika, eru mýkjandi og græðandi. Í skrúbbnum er einnig að finna lífrænar olíur sem gefa húðinni mýkt og raka,“ segir Theodóra og bætir við að lífræn hráefni séu framleidd og ræktuð án allra aukaefna og með því að notast við lífræn hráefni tryggi þær að vörurnar séu lausar við aukaefni.

„Með því að notast við lífræn hráefni stuðlum við að jákvæðri framleiðslu í sátt við umhverfið,“ útskýrir Íris.

Umbúðirnar eru ákaflega vandaðar og segja þær hönnunarbakgrunn þeirra endurspegla útlitið.

„Þar sem við erum báðar með hönnunarbakgrunn lögðum við mikinn metnað í hönnun og útlitið í kringum Angan-vörumerkið. Græni litur umbúðanna er tilvísun í íslensku náttúruna og gömlu jurtaapótekaraflöskurnar ásamt því að þær vernda og lengja ferskleikann á náttúrulegu innihaldsefnunum. Græni liturinn stendur meðal annars fyrir jafnvægi og ró, sem hentar svo vel fyrir baðvörur,“ segir Theodóra að lokum og bætir við að nú vinni vinkonurnar í því að þróa fleiri vörur til þess að bæta í Angan-flóruna.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál