Fólk meira að finna sinn eigin stíl

Heiðrún Birna Rúnarsdóttir og Sigríður R. Kristjánsdóttir eiga og reka …
Heiðrún Birna Rúnarsdóttir og Sigríður R. Kristjánsdóttir eiga og reka Grænu stofuna. Ljósmynd / aðsend

Græna stofan er hárgreiðslustofa í hjarta Reykjavíkur sem, eins og nafnið gefur til kynna, leggur áherslu á græna starfshætti og umhverfisvernd. Stofan starfar eftir vottunarkerfinu Grøn Salon, en áhersla er lögð á að útiloka hættuleg eiturefni sem algeng eru á hefðbundnum hárgreiðslustofum.

„Algengt er að hársnyrtar þrói með sér ofnæmi og hingað til hafa þeir neyðst til að hætta í faginu, en flestir myndu þrífast vel á grænum stofum. Auk þess leggjum við mjög mikið upp úr umhverfisvernd og endurvinnslu,“ segir Sigríður R Kristjánsdóttir, en hún og Heiðrún Birna Rúnarsdóttir eiga og reka stofuna.

En hvers vegna ákváðuð þið að taka upp græna starfshætti?

„Eftir að við öðluðumst vitneskju um skaðlegu efnin sem við setjum ofan í okkur, og á okkur, vitandi að hægt er að gera allt sem er í boði á hefðbundnum stofum á grænan hátt var ekki aftur snúið. Það má líkja þessu við andlega vakningu. Að okkar mati er þetta eina leiðin inn í framtíðina bæði fyrir okkur og jörðina,“ segir Sigríður og bætir við að sífellt fleiri séu farnir að huga að náttúruvernd.

„Það er mikil vakning í gangi, það er alveg klárt. Það er líka frábært að upplifa hversu mikið ungt fólk er farið að hugsa vel um sig og umhverfið. Við látum ekki bjóða okkur hvað sem er.“

Umbúðalaus lífstíll hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarið, en stöllurnar eru líklega með þeim fyrstu sem bjóða viðskiptavinum sínum að koma með brúsa að heiman og kaupa sjampó og hárnæringu umbúðalaust.

Stofan er sérlega hugguleg.
Stofan er sérlega hugguleg. Ljósmynd / aðsend

„Fólki er velkomið að koma með sinn eigin brúsa að heiman og við reiknum verðið út eftir millilítrum. Aðaláherslan er lögð á að endurnýta umbúðirnar sem maður á, spara peninga og notast við lífrænar, svansvottaðar hárvörur. Viðtökurnar hafa verið frábærar og það verður sífellt vinsælla að koma aftur með brúsann að heiman til áfyllingar.“

Þótt stöllurnar leggi mikið upp úr umhverfisvernd þýðir það ekki að þær tolli ekki í tískunni, en hvað verður vinsælast á komandi mánuðum.

„Það er í tísku að vera með hárið sem náttúrulegast, fallega heilbrigt hár og eðlilega en lifandi liti. Á sama tíma er í tísku að vera meira í áberandi litatónum. Fallegir bláir, fjólubláir, bleikir, rauðir, appelsínugulir hreinir litir koma sterkir inn. Pastellitirnir eru líka enn þá vinsælir. Það sem er svo skemmtilegt við hártískuna núna er að enginn er að eltast við neitt, heldur er fólk meira að reyna að finna sinn eigin stíl.“

En virka umhverfisvænar vörur jafnvel og þær hefðbundnu?

„Umhverfisvænu vörurnar sem við bjóðum upp á gefa þeim hefðbundnu ekkert eftir og eru um leið mun betri fyrir heilsuna, og að sjálfsögðu umhverfið, en margar vörur sem eru í boði í dag. Oft eru efni í þessum hefðbundnu vörum sem geta valdið óþoli eða ofnæmi, eða hlaðast upp í hárinu og valda jafnvel hárlosi með tímanum. Þar sem við vinnum eftir ströngum reglum getur fólk treyst því að slík efni leynast ekki í vörunum okkar. Eins eru hárlitirnir sem við notum alveg frábærir, þeir endast mjög vel og dofna fallega en verða ekki glærir eins og margir hárlitir vilja verða. Litirnir sem við notum innihalda enga þekkta ofnæmisvalda og ekkert PPD. Einnig bjóðum við jurtaliti sem eru vegan. Svo er bara gott að vita til þess að við séum ekki að nota eiturefni á viðskiptavini okkar, eða anda að okkur eiturgufum,“ segir Sigríður að endingu.

Allar vörurnar sem fást á grænu stofunni eru „cruelty free“ …
Allar vörurnar sem fást á grænu stofunni eru „cruelty free“ og sumar eru vegan. Ljósmynd / Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál