Frjálsleg og ófeimin

Ragnheiður Arngrímsdóttir.
Ragnheiður Arngrímsdóttir. mbl.is

Ragnheiður Arngrímsdóttir ljósmyndari segir fermingarbörnin mun afslappaðri fyrir framan myndavélina nú en þegar hún sjálf fermdist fyrir 30 árum. Vinsælt sé að skírskota til áhugamáls eða hampa gæludýri í fermingarmyndatökunni og sumir bíði fram á sumar og láti þá mynda alla fjölskylduna úti í náttúrunni.

Þegar fermingarmyndatökurnar hefjast er það merki um að vorið sé að koma, og það er svo sannarlega uppáhaldsárstíminn minn,“ segir Ragnheiður Arngrímsdóttir, flugmaður og atvinnuljósmyndari, en hún hefur helgað sig ljósmyndastarfinu síðastliðin 11 ár, er með ljósmyndastúdíó á Grandanum og sinnir fjölbreyttum verkefnum.

„Fermingarmyndatökur eru mikilvægur hluti af starfinu en ég passa þó alltaf að taka ekki of mikið að mér hverju sinni, þannig að tökurnar verði ekki að einhverri rútínu. Ég legg mikla áherslu á að velja mér ólík ljósmyndaverkefni – eða kannski má segja að ólík verkefni velji mig. Rútínuvinna er ekki það sem hentar mér best og starf ljósmyndarans er þess eðlis að ég upplifi sífellt eitthvað nýtt og spennandi, þar sem engir tveir vinnudagar eru eins.“

Uppáhaldshornið

Ragnheiður er spurð nánar út í fermingarmyndatökurnar og undirbúninginn, og hvort algengast sé að unga fólkið láti mynda sig á fermingardaginn? „Mömmur bóka yfirleitt myndatökurnar fyrir börn sín og það er mjög misjafnt hvenær pantanir byrja að berast. Stundum bóka fjölskyldur myndatökuna ár fram í tímann, en oftast fer fólk af stað upp úr áramótum og byrjar þá hægt og rólega að skipuleggja stóra daginn.

Reyndar er það sjaldnast þannig að fermingarmyndirnar séu teknar á fermingardaginn,“ útskýrir Ragnheiður. „Oftast koma krakkarnir til mín í myndatöku nokkrum vikum fyrir ferminguna, til þess að geta sýnt myndirnar í veislunni sinni. Því fylgir auðvitað alltaf mikil stemning, og þannig geta fleiri notið myndanna. Svo eru alltaf einhverjir sem bíða með myndatökuna fram á sumar og þá er stórfjölskyldan oft mynduð með. Þetta fyrirkomulag hentar öllum vel, bæði fermingarbörnunum og ljósmyndaranum, því þannig er hægt að mynda í rólegheitum og ekki í kappi við tímann.“

Hún bendir á að stelpurnar komi yfirleitt í fermingarmyndatökuna daginn sem þær fara í prufugreiðslu á hárgreiðslustofunni. „Strákarnir aftur á móti koma þegar tími gefst til. Þegar fermingarbörn ákveða að koma til mín vikum eða jafnvel mánuðum eftir ferminguna reyni ég alltaf að taka myndirnar utandyra, í björtu og fallegu veðri. Því má segja að útimyndatökur séu orðnar mjög vinsælar. Sumir velja þó að láta mynda sig heima, til dæmis á sínum uppáhaldsstað, þannig að þetta er gjörbreytt frá því sem var hér á árum áður, þegar stúdíómyndatökur voru allsráðandi.“

Vön myndatökum

Ragnheiður bætir við: „Það sem kannski einkenndi fermingarmyndirnar áður fyrr var að fermingarbörnin voru uppstillt á myndunum, en nú er þetta allt orðið svo miklu frjálslegra. Gæludýrin fá nú oftar en ekki að vera með á fermingarmyndunum, sömuleiðis hljóðfærin, fótboltinn og annað tengt áhugamálum krakkanna. Þetta er skemmtileg þróun.

Það er ótrúlega gaman að sjá hvað unglingar eru núna ófeimnir við að sýna hvað í þeim býr, og njóta sín í myndatökunum. Fermingarbörn – og ég tel sjálfa mig með, ég fermdist 1985 – voru áður feimnari. Manni fannst það vera hálfgert mont að sýna hvað maður kunni og alveg fráleitt að festa það á mynd. Kannski er það hluti af skýringunni að krakkar eru orðnir vanari myndavélum og myndatökum; flestir eiga snjallsíma og margir ófeimnir við sjálfsmyndir.

Núna fæ ég til dæmis oft að hlusta á fallegan tónlistarflutning í fermingarmyndatökunni, horfa á flottan dans, fylgjast með skemmtilegum fótboltatöktum og öðru í þeim dúr. Í myndatökunum er meginreglan sú að ég byrja á því að mynda fermingarbarnið í fermingarfötunum, bæði með og án fjölskyldunnar, og stundum eru amma og afi jafnvel með á myndum. Svo tek ég nokkrar myndir af barninu sem tengjast áhugamálinu, íþróttum eða tónlist, og loks mynda ég fermingarbarnið í venjulegum, frjálslegum fatnaði.“

Nýtt verkefni

Talið berst að öðrum verkefnum á sviði ljósmyndunar, þegar fermingarmyndatökurnar eru að baki, og segir Ragnheiður ýmislegt spennandi í vinnslu. „Ég er svo heppin að áhugamál mín tengjast líka ljósmyndun og ég fæ mína hvíld með því að taka myndir úti í náttúrunni.

Fantoma er nýjasta ljósmyndaverkefnið, þetta er fyrirtæki sem ég stofnaði nýlega, ásamt Evu Magnúsdóttur. Fantoma sérhæfir sig í vinnslu náttúruljósmynda, sem eru svo hitapressaðar á örþunnar álplötur og tilbúnar upp á vegg eða í hillu. Ljósmyndirnar eru allar eftir mig og við framleiðum líka aðra fallega gjafavöru, svo sem púða, slæður og veggfóður, með myndum úr náttúru Íslands. Vörurnar eru til sölu í Álafossbúðinni í Mosfellsbæ, og líka í Into the Arctic; heimskautasetrinu sem pabbi, Arngrímur Jóhannsson, opnaði á Akureyri á dögunum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál