Sundbolalína Ernu Bergmann

Fatahönnuðurinn Erna Bergmann hefur sent frá sér línu af vistvænum …
Fatahönnuðurinn Erna Bergmann hefur sent frá sér línu af vistvænum sundfötum. Ljósmynd/Saga Sigurðardóttir

Fatahönnuðurinn Erna Bergmann sendi nýverið frá sér nýja línu af sundfatnaði undir merkinu Swimslow. Sundbolirnir eru hannaðir á Íslandi og framleiddir á Ítalíu, en notast er við endurunnið hráefni. Þar fyrir utan er lögð áhersla á að lágmarka áhrif á umhverfið við framleiðslu bolanna, enda leggur Erna mikið upp úr því að bera virðingu fyrir náttúrunni og njóta þess að vera í núinu. 

Swimslow-sundbolirnir eru hugsaðir fyrir allar konur sem vilja láta sér líða vel, bera virðingu fyrir umhverfinu og kjósa almenn mannréttindi,“ segir Erna, aðspurð hver sé markhópur bolanna.
Ljósmynd/Saga Sigurðardóttir

„Þráðurinn í efni sundbolanna er unninn úr úrgangi, meðal annars úr notuðum teppum og fiskinetum, en hann er búinn til í Slóveníu með áherslu á lágmarksáhrif á umhverfið. Efnið í sundbolunum er svo gert á Norður-Ítalíu og er OEKO-TEX® vottað. Sundbolirnir eru saumaðir og framleiddir hjá frábæru fjölskyldufyrirtæki sem er nokkra kílómetra frá efnaverksmiðjunni,“ bætir Erna við.

Umhverfisvænni kostir og sjálfbærni í framleiðslu er Ernu mikið hjartans mál, en hverju munar það fyrir náttúruna að fara sjálfbærar leiðir í hönnun og framleiðslu?

„Hagkerfi manna virðist starfa samkvæmt lögmálum sem brjóta í bága við vistkerfi jarðar. Í vistkerfinu endurnýjast efni og orka, en í hagkerfinu fara orka og efni að miklu leyti forgörðum eða umbreytast í úrgang eða eiturefni. Hugmyndir um sjálfbæra þróun eru settar fram sem tilraun til þess að laga vandann, þar sem hagkerfið heldur áfram að vaxa en verndar umhverfið í leiðinni,“ segir Erna.

„Miðað við núverandi neyslu þyrftu jarðarbúar eina og hálfa jörð til þess að styðja við lífshætti sína á sjálfbæran máta, en fjórar til fimm jarðir ef allir jarðarbúar neyttu jafn mikils og Bandaríkjamenn og Íslendingar. Sjálfbær þróun er hugtak sem vísar til þróunar þar sem litið er til lengri tíma og reynt að ná jafnvægi milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta. Hún kallar á samþættingu þessara þriggja þátta við ákvarðanatöku, frekar en að horfa á þá aðskilda.“

Erna segir að það sé mikil þörf fyrir vitundarvakningu, enda séu loftslagsbreytingar gríðarlegt vandamál.

„Tískuiðnaðurinn er ein stærsta atvinnugrein veraldar, sem auk þess ber ábyrgð á að menga hvað mest. Þar fyrir utan ber tískuiðnaðurinn mikla ábyrgð á gegnumstreymi efnis, fjármagns og vinnuafls. Hnattræn hlýnun er ógn við fataiðnaðinn og líkleg til að draga úr burðargetu jarðar. Á sama tíma er fataiðnaðurinn ábyrgur fyrir gríðarlegri losun gróðurhúsalofttegunda og í kjölfarið ógn við líffjölbreytileika. Þess vegna er mikilvægt að hvetja til sjálfbærni innan tískuiðnaðarins. Þessi hugmyndafræði er umhverfisvænni, hagstæðari og styður við grundvallar mannréttindi hvað varðar laun, vinnuskilyrði og vinnutíma,“ segir Erna, og bætir við að auðvelt sé að sameina sjálfbærni, fagurfræði og notagildi.

Ljósmynd/Saga Sigurðardóttir

„Já, það er lítið mál. Frumkvöðlar sjálfbærrar tísku þurfa að sameina krafta sína og einblína á að veita neytendum innblástur og gera sjálfbæra tísku aðlaðandi, spennandi og áhugaverða í augum almennings.“

Erna segir jafnframt að það sé mikilvægt að neytendur afli sér upplýsinga um uppruna fatnaðarins sem þeir kaupa, og bendir á að ekki sé endilega samasemmerki á milli þess að vara kosti lítið og hún sé góður kostur.

„Fólk hugsar því miður lítið sem ekkert um uppruna fata sinna, og þar af leiðandi er enginn þrýstingur á framleiðendur að bæta úr vinnuháttum sínum. Eina krafan sem fólk gerir er að geta keypt ódýran fatnað. Sú sannfæring að ódýrt sé frábært virðist vera áberandi, en svo er aldeilis ekki. Við verðum að taka siðferðislega afstöðu, vera gagnrýnin og spyrja okkur hvað við getum gert til þess að tryggja að fötin sem við klæðumst séu ekki framleidd við óviðunandi aðstæður og hafi sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið. Það virðist vera sem ekki hafi orðið nægjanleg vitundarvakning um þá umhverfisspillingu, og oft og tíðum þrælavinnu, sem gjarnan tíðkast þegar fatnaður er búinn til. Það er mikilvægt að neytendur séu upplýstir og hvattir til þess að velja umhverfisvænni og sjálfbærari fatnað og leita sér upplýsinga um uppruna vörunnar sem þeir kaupa,“ segir Erna og bætir við að neytendur þurfi að vera meðvitaðir um mikilvægi þess að hugsa vel um fötin sín og velja heldur gæði fram yfir magn.“

Ljósmynd/Saga Sigurðardóttir
Ljósmynd/Saga Sigurðardóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál