Fátt toppar dökk Armani-föt eða smóking

Vilhjálmur S. Vilhjálmsson verslunarstjóri í Herragarðinum í Kringlunni.
Vilhjálmur S. Vilhjálmsson verslunarstjóri í Herragarðinum í Kringlunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það eru ekki bara brúðarkjólar sem skipta máli fyrir stóra daginn. Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, verslunarstjóri Herragarðsins í Kringlunni, segir að menn fari um víðan völl þegar komi að brúðkaupsfötum og þeir vilji flestir líta vel út á stóra daginn.

„Ég hef tekið eftir því að mörg pör kjósa að hafa meira „casual“ brúðkaup og því er valið á brúðkaupsfötunum hversdagslegra. Þá er ekki valinn smóking eða svört jakkaföt. Þannig að það eru alls kyns pælingar þegar kemur að þessum hlutum. Það toppar fátt dökk Armani-föt eða smóking og svo eru fötin frá Sand og Ralph Lauren vinsæl. Síðan 2015 höfum við svo boðið upp á línu sem við köllum Herragarðinn-sérsaum. Það er okkar merki þar sem við sérsaumum jakkaföt, smókinga, kjólföt, staka jakka eða buxur. Möguleikarnir eru óteljandi í útfærslum. Menn geta valið sér öll smáatriði eða óskir um snið eða frágang með okkar ráðgjöf, segir hann.

Úrvalið af efnum telur mörg hundruð og koma þau frá bestu vefurum heims. Það færist í vöxt að menn nýti sér þessa þjónustu.

„Við klæddum karlalandsliðið í knattspyrnu upp fyrir EM í Frakklandi síðasta sumar og aðsókn í þessa þjónustu hefur verið að stóraukast hjá okkur. Síðasta sumar var svo mikið um það að karlmenn báðu um sérsaumuð föt fyrir brúðkaupið. Enda stór dagur í lífi flestra þar sem menn vilja láta pússa sig saman í sínu fínasta.“

Þegar Vilhjálmur er spurður út í litapallettu segir hann algengast að menn velji sér dökk föt eða svört. Svo sé vinsælt að vera í hvítri ermahnappaskyrtu við og hafa bindi eða slaufu um hálsinn í silfur eða svörtu.

Hér er verið að sérsauma föt á Jón Agnar Ólason.
Hér er verið að sérsauma föt á Jón Agnar Ólason. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þegar líður að sumri vilja menn líka jafnvel ljósari tóna í jakkafötin, ljósgrá og létta aðeins á þessu. Smókingur er líka vinsæll og er aftur að koma sterkur inn og má hann vera svartur eða „midnight blue“ sem er dökkblár tónn sem sumir segja að sé liturinn sem smókinginn hafi verið í upphaflega. Vestisföt eru líka oft tekin og jafnvel aðeins ljósari tónn af bláu og vesti í öðrum lit, til dæmi í gráu. Fyrir þá sem eru djarfastir er farið í alveg ljós föt, sérstaklega þegar veðjað er á sumarblíðuna.“

Eru fötin að víkka aftur eða verða áfram svona svolítið „þröng“ föt?

„Það má segja að menn vilja fötin sín alveg sniðin á sig. Við höfum tekið eftir því að viðskiptavinir okkar eru mun fróðari um hvernig föt skuli passa enda aðgengi að þess háttar hlutum allt annað en það var með tilkomu, blogga, Instagram, Facebook, Pinterest og áhugi á vönduðum fötum hefur stóraukist síðustu ár. Þegar ég byrjaði í bransanum fyrir nær tuttugu árum setti viðskiptavinurinn allt traust á mann og maður tók öll völd á vali á fötunum en nú koma menn með mótaðar skoðanir á því sem þeir vilja og við aðstoðum við að þjónusta fólk og er það mun skemmtilegra fyrir okkur sem fagmenn í okkar bransa. Víð föt eru alls ekki í tísku en mikilvægt er að velja föt sem falla að manni en ekki frá manni og finna snið sem hentar vaxtarlagi hvers og eins.“

Þegar Vilhjálmur er spurður út í sérsauminn segir hann að þetta virki þannig að menn bóki sér tíma í verslun þeirra og svo mæti þeir, af þeim séu tekin mál og það taki um klukkutíma.

„Við mælum viðkomandi upp, efni er valið, fóður er valið, tölur eru valdar og farið yfir öll smáatriði sem skipta máli. Við aðstoðum viðskiptavininn svo hann þjáist nú ekki af of miklum valkvíða. Það er gaman að segja frá því að margir setja dagsetningu brúðkaupsdagsins inn í fötin á látlausan stað og var þetta hugmynd frá kúnna sem mér fannst alveg frábær. Mælingarnar eru svo sendar til framleiðanda okkar og er afhendingartími alla jafna um 5-6 vikur. Síðan þegar fötin koma er önnur mátun þar sem við athugum hvort eitthvað þurfi að bæta og erum við með klæðskera til að græja það ef þarf. Einnig getum við mælt skyrtur ef óskað er.“

Eftir að hafa farið yfir sérsauminn spyr ég Vilhjálm hvort það sé í alvöru þannig að það sé óalgengt að menn smellpassi í föt sem fást í stöðluðum stærðum.

„Ef ég horfi á viðskiptavin í fötum af slánni þá yfirleitt sé ég einhverja misfellu sem við getum lagað með sérsaumi. Síðan eru menn líka með mun meiri kröfur um að fötin séu passlegri á þá og vilja hafa ákveðið snið. Það vill svo til að flestir eru á einhvern hátt pínulítið skakkir, með mislangar hendur og fætur, misbreiðar axlir og svo framvegis. Það sem við erum að gera með sérsaum er að „balancera“ fötin þannig að sérstaklega jakkinn sitji vel á mönnum. Enda hef ég eina sögu um þetta þar sem maður kom til mín og skildi ekkert í því að önnur skálmin á buxunum væri síðari en hin, ég mæli svo skálmarnar og sé að þær eru jafnlangar og bendi honum á að fætur hans séu mislangir. Hann gengur með innlegg í skónum í dag og hefur snarlagast í bakinu,“ segir hann og hlær.

Eru menn eitthvað að láta klæða „af sér“ á brúðkaupdaginn?

„Ég skil ekki spurninguna,“ segir hann og hlær.

„En ef þú ert að meina varðandi vaxtarlag þá auðvitað reyna menn að líta sem best út og besta aðferðin til að klæða af sér er að vera í vönduðum, vel sniðnum jakkafötum.“

Hvað skiptir máli þegar föt eru valin?

„Það eru margir hlutir sem skipta máli þegar föt eru valin. Fyrst og fremst er það sniðið. Föt eiga að passa vel og vera þægileg. Menn eiga að geta verið í aðsniðnum fötum án þess að eiga í hættu á því að rífa buxurnar eða vera þvingaðir um axlir. Ef mönnum líður vel í jakkafötum þá nota þeir þau. Síðan er það efnisvalið. Spariföt eru oft úr léttari og viðkvæmari efnum en vinnuföt. Enda eru þægindi og glæsileiki aðalatriðin frekar en þegar valin eru vinnuföt sem oft eru úr þyngri og sterkari efnum. Við höfum mikla þekkingu á efnum og pössum að efnisvalið henti við hvert tækifæri eða eftir því hvernig menn eru í laginu. En að lokum er að sjálfsögðu að menn fái eftirtekt og sjálfstraust í fötunum sínum og gangi í þeim brosandi og glaðir við helstu tækifæri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál