Keypti efni í útskriftarferðinni

María Nielsen er að útskrifast úr fatahönnun frá Listaháskóla Íslands.
María Nielsen er að útskrifast úr fatahönnun frá Listaháskóla Íslands. mbl.is/Golli

María Nielsen útskriftarnemi í fatahönnun sýnir nýja fatalínu á tískusýningu útskriftarnema Listaháskóla Íslands í Hörpu 3. maí. Línan sem hún sýnir byggir á hugmyndinni um að afbaka ímyndina um hina fullkomnu húsmóður.

Bekkurinn hennar Maríu samanstendur af sjö stelpum og þrem strákum og verður því sýndur bæði dömu- og herrafatnaður á sýningunni. María segir bekkjarsystkini sín vera með mjög ólíka stíla og fólk á því von á að sjá fjölbreyttan fatnað. Einn nemandi er að vinna út frá götutísku og annar er að vinna sundfatnað. 

Byrjar vinnuna út frá einu orði

Sjálf byrjaði María að vinna út frá áráttuhegðun. „Maður byrjar oft með eitthvað orð eða tilfinningu. Þannig fór ég að skoða hvað veldur áráttu hjá fólki,“ segir María en vinnan að línunni hófst í desember. „Þá byrjuðu allir að finna sitt rannsóknarefni og út frá því byrjaði maður að skissa sem síðan þróast yfir í línuna manns.“

María vann útskriftarlínuna út frá áráttuhegðun.
María vann útskriftarlínuna út frá áráttuhegðun.

„Mín lína er svona showpiece-lína. Útgangspunkturinn hjá mér var alls ekki praktískur. Maður fær örugglega aldrei að hafa svona frjálsar hendur í neinni vinnu aftur. Þetta er líka lína sem maður myndi hanna söluvænni línu út frá,“ segir María. En í línunni hennar má meðal annars finna yfirhafnir, toppa, kjóla og pils.  

„Það er fyndið en það endaði með því að við fórum í hálfgerða útskriftarðferð átta saman úr bekknum að versla saman efni í London,“ segir María og bendir á að það sé ómögulegt að finna efni í fatalínu hérlendis. Aðeins ein stelpa í bekknum gat það enda var hún að vinna út frá endurunnum textíl.

Námið tók á andlegu hliðina

Nú þegar námið er að klárast segir María að bekkjarfélagar hennar séu það besta við skólann. „Það er kannski klisja að segja það en ég var rosa heppin með fólk. Maður er með þessu fólki alla daga og allar nætur.“ Hún segir það einnig frábært að finna hvernig hún geti alltaf unnið meira og meira sjálfstætt.

Námið var hins vegar ekki bara dans á rósum og segir hún að námið hafi reynt á andlegu hliðina. „Öll sköpun reynir á tilfinningar, maður er rosa mikið að setja sjálfan sig fram og þarf að læra að taka gagnrýni. Læra hvað það er sem maður þarf að hlusta á.“ Vökunæturnar segir hún líka hafa verið erfiðar. „Ég er mjög mikil A-manneskja og maður þarf oft að vinna fram á nótt. Sama hversu skipulagður maður er, maður lendir alltaf í því að vinna á næturnar þegar kemur að verkefnaskilum.“

María lenti með frábæru fólki í bekk.
María lenti með frábæru fólki í bekk.

Bjartsýn á aukna umverfisvitund

Að lokum segist María vera spennt fyrir aukinni umhverfisvitund meðal fataframleiðenda. „Mér finnst spennandi hvað það eru miklar nýjungar í tæknitextíl og líka hvað endurvinnsla á bæði fatnaði og textíl er farið að leka inn í meiri commercial-geira, þó svo að ég sé ekki hrifin af að H&M sé að nýta það sem auglýsingatrix. Neytendur verða meðvitaðri þegar fatamerkin sjálf eru byrjuð að hugsa sinn gang,“ segir María. „Þetta er náttúrulega annar mest mengandi iðnaður í heiminum sem er fáránlegt,“ bætir hún við að lokum.

Tískusýning útskriftarnema í fatahönnun við Listaháskóla Íslands fer fram í Hörpu 3. maí kl. 18:00 og er sýningin opin öllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál