Litaleiðréttingarpallettur ómissandi

Erna Hrund Hermannsdóttir.
Erna Hrund Hermannsdóttir. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Það hefur lítið farið fyrir Ernu Hrund Hermannsdóttur tískubloggara síðasta árið á netinu. Hún er þó ekki týnd og tröllum gefin heldur kvaddi hún bloggheiminn þegar hún hóf störf sem vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni. Erna Hrund er alltaf með puttana á púlsinum þegar kemur að tísku og förðun og því var ekki úr vegi að spyrja hana spjörunum úr. 

Hvað finnst þér skipta máli þegar kemur að förðun?

„Umhirða húðar er lykilatriði. Undirstaða fallegrar förðunar er heilbrigð húð svo það skiptir máli að velja réttu hreinsivörurnar, rétta rakann og huga vel að húðinni, þetta er stærsta líffærið okkar.“

Hvað er það núna sem er möst að eiga í snyrtibuddunni sinni?

„Color Correcting vöru! Allir förðunarmiðlar eru sammála um það að litaleiðréttingarvörur séu að koma sterkar inn og ég er mikill stuðningsmaður þeirra. Litaleiðréttingarpallettur eru nefnilega svo flott leið til að jafna litarhaft húðarinnar og fela óvelkomna flekki án þess að þurfa að nota þétt lag af farða eða púðri. Með litaleiðréttingu er ekkert mál að fela roða, bauga eða misfellur í húðinni. Ég nota á hverjum degi Infallible Total Cover Concealer Palette frá L‘Oreal Paris sem er mjög þægileg í notkun, fjólublái liturinn gefur ljóma og dregur úr þreytu í húðinni og sá græni felur roða og svo eru hyljarar með til að fela litina.“

Hvernig málar þú þig dagsdaglega?

„Ég er rosalega vanaföst þegar kemur að minni daglegu förðun, góður grunnur, létt skygging, fallegar augabrúnir og nóg af kinnalit ég er algjör fíkill þegar kemur að kinnalitum. Svo nota ég yfirleitt tvo ólíka maskara til að ná sem mestu fram úr mínum augnhárum.“

Hvað skiptir mestu máli að eiga í snyrtibuddunni sinni?

„Góða förðunarbursta, ég kæmist ekki langt án Real Techniques-burstasafnsins míns og er orðin svo góðu vön með þeim að ég verð stundum alveg hjálparlaus þegar ég er án þeirra eða finn ekki einn af þeim.“

Hvernig hugsar þú um húðina?

„Ég er algjör ofurnotandi þegar kemur að húðvörum og veit fátt betra en að dekra við húðina, bæði líkama og andlit. Ég hreinsa húðina tvisvar sinnum bæði kvölds og morgna með Rare Flowers-hreinsivörunum frá L‘Oreal og klára alltaf með Micellar-hreinsivatninu frá Garnier. Svo dekra ég við andlitið alla vega þrisvar í viku með einhverjum af leirmöskunum frá L‘Oreal og nota gott rakakrem á eftir, nýja Hydra Genius-rakabomban frá L‘Oreal er í ofnotkun þessa dagana. Svo er mikilvægt að gleyma ekki líkamanum en ég þurrbursta húðina, nota líkamsskrúbb nokkrum sinnum í viku og næri húðina á hverjum degi með næringu. Nú þegar sólin er svo komin er fátt nauðsynlegra en góð sólarvörn.“

Hvernig málar þú þig um augun?

„Ég er mjög settleg dags daglega og er í allra mesta lagi með kolblýant í brúnu eða grábrúnu í kringum augun sem ég smudge-a til. Ef ég fer eitthvað fínt út sem þarfnast meiri augnförðunar þá vel ég nær undantekningarlaus brúnt smokey, það passar einhvern veginn alltaf.“

Hvað setur þú á varirnar?

„Ég á einn varalit sem ég er alltaf með og það er sá sem ég vel alltaf þegar ég er í valkvíða með varirnar á mér og það er Butter Lipstick í litnum Snowcap frá NYX Professional Cosmetics. Ég er með þrjá í gangi í einu, einn á skrifborðinu í vinnunni minni, einn í töskunni og annan í vasanum á leðurjakkanum mínum sem er mín go to yfirhöfn þessa dagana.“

Hvernig myndir þú aldrei farða þig?

„Ég held ég þori ekki að svara þessari spurningu því ég held að ég gæti mögulega þurft að éta svarið ofan í mig seinna mér. Ég er ein af þessum týpum sem er alltaf til í að prófa allt alla vega einu sinni. Trendin í förðunarheimunum breytast svo ört og í mínu starfi þarf maður að vera til í að gera ýmislegt til að kynnast trendunum betur!“

Hvað um augabrúnir, hvernig viltu hafa þær?

„Ég er mjög vanaföst þegar kemur að augabrúnum og vil bara helst hafa þær eins villtar og ég get. Það eru komin tvö ár síðan ég plokkaði þær síðast almennilega, ég tek bara eitt og eitt hár sem er á stangli og ég hef aldrei litað þær. Ég er reyndar heppin með það að ég er með svört hár í augabrúnunum. En ég nota á hverjum degi Micro Brow Pencil frá NYX Professional Cosmetics í grátóna köldum lit, ramma þær aðeins inn og þétti og nota augabrúnagel til að festa mótunina.“

Hvað dreymir þig um að eignast í snyrtibudduna?

„Þessa stundina get ég ekki beðið eftir nýjungunum sem við eigum von á í NYX Professional Cosmetics-verslanirnar okkar. En þær detta í búðir í lok maí, ég get ekki beðið eftir að fylla á snyrtibuddurnar mínar… já ein budda dugir ekki fyrir mig!“

mbl.is/Hanna Andrésdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál