Lærði að sauma á Youtube

Anton Birkir, Guðjón Geir, Róbert og Christopher á vinnustofu sinni.
Anton Birkir, Guðjón Geir, Róbert og Christopher á vinnustofu sinni. Hanna Andrésdóttir

Guðjón Geir Geirsson og Róbert Ómar Elmarsson voru sammála um það að vöntun væri á flottum íslenskum fatnaði fyrir karlmenn, en félagarnir keyptu fötin sín gjarnan erlendis frá. Þeir dóu þó ekki ráðalausir heldur stofnuðu tískumerkið Inklaw, sem hefur vaxið og dafnað undanfarin ár. Nú hefur teymið stækkað og hafa Anton Birkir Sigfússon og Cristopher Cannon bæst í hópinn.

 „Okkur fannst alltaf vera gat á markaðnum fyrir íslenska götutísku. Ég og Róbert unnum báðir í fataverslunum og vorum mikið að kaupa okkur ný föt, en mestmegnis erlendis frá. Okkur fannst vanta séríslenskan götufatnað. Við slógum því til og byrjuðum á því að panta tilbúna hlýraboli að utan sem við létum merkja með lógóinu okkar. Eftir það byrjaði boltinn að rúlla,“ segir Guðjón Geir, hönnuður hjá Inklaw.

 „Fyrirtækið var síðan opinberlega stofnað árið 2014. Þá var ég búinn að læra að sauma sjálfur, en ég lærði allt á Youtube. Við skiptum þessu svolítið niður. Róbert var í öllu sem tengdist sölu og markaðssetningu, og ég að hanna og sauma. Ef allt nýja dótið okkar er talið með höfum við framleitt um 50 vörutegundir. Við erum komnir með slatta af dóti,“ segir Guðjón Geir, sem segir að sérstaða merkisins felist einkum í því hversu fljótir þeir eru að tileinka sér erlenda tískustrauma.

Strákunum fannst vera vöntun á íslenskum götufatnaði.
Strákunum fannst vera vöntun á íslenskum götufatnaði. Inklaw

 „Við höfum verið duglegir að fylgjast með því sem er að gerast erlendis, en Ísland hefur stundum verið svolítið eftir á. Við seljum á netinu og gerum allt eftir pöntunum. Við erum aldrei með neinn lager, þannig að við erum fljótir að bregðast við því sem er að gerast úti. Ég held að það sé okkar sérstaða,“ segir Guðjón en Inklaw hefur notið töluverðrar velgengni undanfarið. Þá hafa stórstjörnur eins og Justin Bieber, Nick Jonas og fótboltakappinn Raheem Sterling klæðst hönnun þeirra. En hvernig kom það til?

 „Þetta er eiginlega ótrúlegt. Við vinnum mikið með internetið og höfum alltaf notað samfélagsmiðla, sérstaklega Instagram, til að auglýsa okkur. Árið 2014 keypti knattspyrnumaðurinn Raheem Sterling bol af okkur, en hann hafði fundið okkur á Instagram. Þegar Justin Bieber kom hann til landsins veltum við því fyrir okkur hvort við ættum að gera eitthvað fyrir hann, en bjuggumst ekki við því að hann færi í fötin. Síðan spurði vinkona okkar, sem var að vinna við tónleikana, hvort við vildum setja pakka í búningsklefann hans. Við sögðum bara: „ekki málið“ og gerðum það. Okkur var sagt þetta hefði verið það fyrsta sem hann sá þegar hann kom inn í klefa, en hann klæddist fötunum þegar hann var á Íslandi. Nokkru seinna sáum við að hann var í bol frá okkur á einhverjum fimm eða sex tónleikum. Það gerðust síðan allskonar hlutir eftir það. Svona alveg óvart,“ segir Guðjón Geir, og játar að þetta hafi verið hreint prýðileg auglýsing.

 „Þetta var mjög góð auglýsing, enda er bolurinn núna alltaf kallaður Bieber-bolurinn. Þetta er gaman fyrir teymið, en í dag erum við orðnir fjórir. Það er skemmtilegt þegar eitthvað svona gerist, þá er mikill spenningur í hópnum. Núna erum við rosa duglegir að fylgjast með hverjir eru að versla við okkur. Til dæmis var tónlistarmaður frá Suður-Ameríku að versla við okkur um daginn. Hér veit maður ekkert hver hann er, en hann er samt með einhver 100 milljón áhorf á Youtube. Þetta vissum við ekki fyrr en við gúggluðum nafnið hans. Það er fyndið hvernig þetta gerist sjálfkrafa,“ segir Guðjón, sem hikar ekki þegar hann er spurður hvað einkenni sumartískuna.

 „Við ætlum líklega að koma með eitt drop í viðbót fyrir veturinn. Það verða íþróttagallar, „joggarar“, hettupeysur og stuttermabolir. Eitthvað mjög létt og þægilegt. Við ætlum síðan svolítið að keyra á þetta í vetur, og erum síðan byrjaðir að hanna fyrir næsta sumar líka,“ segir Guðjón Geir, en þeir félagar eru með ýmislegt á prjónunum og aldrei að vita nema þeir sendi frá sér nokkrar flíkur fyrir kvenpeninginn.

 „Við verðum hugsanlega með eitthvað smá fyrir stelpur í sumar. Við höfum alltaf sagt að merkið væri bara fyrir stráka, því það er svo mikið til fyrir stelpur. En við erum að íhuga að stelast svolítið út fyrir þennan ramma. Það er mjög mikið af stelpum sem kaupa af okkur. Maður heldur kannski að þær séu að kaupa fyrir kærastann, en svo sér maður þær oft sjálfar í fötunum sem er mjög skemmtilegt.“

Frétt mbl.is: INKLAW og Cintamani í samstarf

Frétt mbl.is: IKEA-pokinn í íslenskri fatalínu

Stelpur hafa verið að kaupa hönnun strákanna.
Stelpur hafa verið að kaupa hönnun strákanna. Inklaw
Stákarnir segja að mikið verði um þægileg íþróttaföt í sumar.
Stákarnir segja að mikið verði um þægileg íþróttaföt í sumar. Inklaw
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál