Kann því vel að búa í ferðatösku

Ellen Lofts vinnur víða. hefur unnið út um allan heim.
Ellen Lofts vinnur víða. hefur unnið út um allan heim. ljósmynd/Anna Maggý

Segja má að stílistinn Ellen Lofts búi í ferðatösku um þessar mundir, en hún hefur mikið verið á ferð og flugi undanfarin ár. Hún er þó ekki á leiðinni heim á næstunni, enda kann hún vel við að þeytast um allan heim, sinna fjölbreyttum verkefnum og hitta áhugavert fólk. 

Ég ólst upp við það að faðir minn tók mikið af myndum sem hann framkallaði sjálfur í kjallaranum heima. Mér fannst þetta afar heillandi heimur og talaði ég um að þegar ég yrði stór vildi ég vinna við að hanna það sem var á ljósmyndinni, sem er fyndið því þá var ekkert til í mínum huga sem hét stílisti. Þegar ég var 17 ára fór ég að vera mikið í kringum fyrirtækið NIKITA og fékk ég að stílisera fyrir þau og í framhaldinu fékk ég vinnu hjá þeim. Þetta voru gríðarlega mikil mótunarár fyrir mig sem kenndu mér mikið. Ég fékk tækifæri til að fást við krefjandi verkefni með skemmtilegu fólki og ferðast á framandi staði mjög ung að aldri. Seinna fór ég í nám í tískumarkaðssetningu og almannatengslum, bæði á Spáni og síðar í London, en ég ætlaði ekkert endilega að hella mér út í að verða stílisti. Mig langaði að læra eitthvað praktískara sem myndi líka nýtast mér á öðrum sviðum. En svo toga bara örlögin, maður hefur litla stjórn á því,“ segir Ellen.
Ellen Loftsdóttir.
Ellen Loftsdóttir. ljósmynd/Anna Maggý

Látin sauma tölur í starfsnámi

„Á síðasta árinu mínu í London var ég lærlingur hjá fatahönnuðinum Peter Jensen, það var ekki mikið að gera hjá honum í markaðs- og kynningarmálum og ég var því látin sauma tölur og þess háttar, á milli þess sem ég fór í langar sendiferðir. Hann fann að mínum hæfileikum var betur varið í eitthvað annað. Ég var því látin hjálpa stílistanum hans við undirbúning á sýningu, en þetta var rétt fyrir tískuvikuna í London. Hún tók mig undir sinn verndarvæng og bauð mér í kjölfarið vinnu sem aðstoðarkonan hennar. Ég var hjá henni í rúmlega eitt og hálft ár og kynntist ferlinu mjög vel, en hún var með risastóra kúnna eins og US Vogue í New York, Teen Vogue, japanska Vogue og stór tímarit. Coldplay var mjög stór kúnni hjá okkur og sáum við um allt útlit og búninga fyrir þá meðan á Viva La Vita-tónleikaferðalagi þeirra stóð. Hún kenndi mér svo margt og meðal annars að það er allt hægt ef maður er bara nógu ákveðinn. Mér fannst þetta heillandi og mig langaði að gera það sem hún var að gera, og um leið og ég útskrifaðist úr hennar hernámi lét ég verða að því,“ segir Ellen, sem ekki er við eina fjölina felld, því hún hefur einnig fengist við leikstjórn og búningahönnun í kvikmyndum.

„Ég var aðallega að leikstýra tísku- og tónlistarmyndböndum. Það er svolítið langt síðan ég leikstýrði síðast, en það er stefnan að breyta því í nánustu framtíð. Það hefur verið svo mikið að gera í öllu öðru svo ég hef ekki náð að sinna því. Mér finnst gaman takast á við skapandi og krefjandi verkefni án þess að láta starfsheiti aftra mér. Ég er með mikinn athyglisbrest, svo að ég er pínu úti um allt, og fjölbreytileikinn hentar mér vel. Ég er heldur ekkert búin að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór, eða þarf maður eitthvað að ákveða það?“ bætir Ellen við létt í bragði, en hún lauk nýverið stóru verkefni á Íslandi þar sem hún sá um búningahönnun í kvikmynd.

Ellen Loftsdóttir stefnir á að leikstýra meira í framtíðinni.
Ellen Loftsdóttir stefnir á að leikstýra meira í framtíðinni. ljósmynd/Anna Maggý

„Ég var að klára tökur á kvikmynd í fullri lengd sem búningahönnuður. Myndin ber nafnið Vargur og er leikstýrt af snillingnum Berki Sigþórssyni og framleidd af RVK Studios. Þar var vel skipað í allar stöður. Það var langt og krefjandi en gríðarlega skemmtilegt verkefni. Við Börkur erum mjög góðir vinir og höfum unnið náið saman í gegnum tíðina, sem gerði ferlið enn þá skemmtilegra. Þessi reynsla kveikti í mér og fékk mig til að langa að gera meira bíó í framtíðinni. Eftir það fór ég beint til Noregs að gera herferð fyrir fatamerkið Selected fyrir kínverskan markað, svo ég var umvafin 30 Kínverjum í 10 daga, sem er augljóslega allt annað ferli sem gerir aðrar kröfur. Það er pínu kómískt hvað maður hoppar úr einum heimi í annan,“ segir Ellen og kímir.

Ísland togar alltaf örlítið

Ellen er búsett í Kaupmannahöfn, en hún hefur þó mikið verið á ferðinni síðastliðið ár. Hún kann því vel að vera stöðugt á ferð og flugi, þar sem hún hittir skemmtilegt fólk og sinnir fjölbreyttum verkefnum. Hún játar þó að Ísland togi örlítið í hana.

„Þetta er skemmtilegt, en getur líka verið slítandi. Þetta er svolítill rússíbani sem hentar mér vel þar sem ég er mjög dramatískur karakter. Auðvitað langar mann að skjóta rótum á Íslandi í framtíðinni, þar sem fjölskyldan og heimahagarnir eru. Ísland er alltaf heima fyrir mér. En mér hefur fundist erfitt að starfa bara á Íslandi. Maður vill alltaf eitthvað meira og stærra, sem kannski eldist af manni, og þá verð ég tilbúin að koma alfarið heim. Það er fullt af verkefnum á Íslandi. Enda er ég farin að vinna mun meira heima en ég gerði. Það hefur líka verið að aukast að stór erlend fyrirtæki koma til Íslands með verkefni sem hefur styrkt iðnaðinn mikið,“ játar Ellen.

Þar sem Ellen lifir og hrærist í tískuheiminum fannst blaðamanni tilvalið að spyrja hana hvað einkennir tísku sumarsins. Hún vék sér þó fimlega undan svörum, enda telur hún að fólk eigi einfaldlega að fylgja hjartanu og klæða sig eins og því líður best.

„Ég hræðist alltaf að svara þessari spurningu því mér finnst þetta alltaf verða svo yfirborðskennd pæling. Ég afsala mér þeirri ábyrgð að segja fólki hverju það eigi að klæðast. Auðvitað eru alltaf einhver trend í gangi, sem ég elska að pæla í, en ég verð að gera það út af mínu starfi. Sum kann maður að meta, og önnur ekki. Ef ég ætti að nefna einn tímalausan fylgihlut eru það sólgleraugu, þau eru og verða alltaf heitasti fylgihluturinn hjá mér. Ég er sólgleraugnasjúk og sanka að mér sólgleraugum í öllum stærðum og gerðum og á orðið mjög gott safn,“ segir Ellen létt í bragði, en skyldi hún ætla að gera eitthvað skemmtilegt í sumarfríinu?

Ellen segir fólk eigi að fylgja hjartanu þegar kemur að …
Ellen segir fólk eigi að fylgja hjartanu þegar kemur að tísku. ljósmynd/Anna Maggý

„Ég tek mér eiginlega ekkert sumarfrí. Þegar maður er verktaki nýtir maður einfaldlega dauðu tímana sem hafa nú ekki verið margir síðastliðið ár, þannig að ég hef ekki planað neitt sérstakt frí. Ég er þó að koma heim til Íslands og verð með annan fótinn heima í sumar. Sem ég hlakka mikið til. Það er eitthvað svo yndislegt við sumrin á Íslandi, lyktin af gróðrinum og þessi endalausa birta heillar mig. Ég ætla að reyna að fara sem mest upp í sumarbústað þær helgar sem eru lausar. Svo er ég reyndar mjög spennt fyrir Secret Solstice þetta árið,“ segir Ellen að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál