Er förðunin að gera þig eldri?

Lilja Ósk Sigurðardóttir er snyrtipenni Smartlands.
Lilja Ósk Sigurðardóttir er snyrtipenni Smartlands.

„Þegar aldurinn færist yfir kann húð okkar og hár að breytast svo það sem virkaði um tvítugt virkar ekki jafn vel um þrítugt og svo framvegis. Hér koma tíu góð ráð til að uppfæra snyrtinguna svo hún geri sem mest fyrir okkur,“ segir Lilja Ósk Sigurðardóttir sem er Snyrtipenni Smartlands í sínum fyrsta pistli: 

1. Skarpar línur ýta undir aðrar línur

Með aldrinum er gott að tileinka sér mjúkan fókus á andlitið því öll skerpa gerir þreytumerki og fínar línur sjáanlegri. Í stað þess að vera með þráðbeinan og oddhvassan eyeliner skaltu nudda línuna aðeins til með fingri eða bómullarpinna eða setja augnskugga í svipuðum lit ofan á. Það getur jafnframt verið sniðugt að nudda augnblýantinum við rót augnháranna og framkalla þannig aukin svipbrigði. Sama gildir um varirnar á okkur og þegar kemur að notkun varalita og -blýanta. Þar sem gloss og mjúkir varalitir kunna að blæða út í línur í kringum varirnar er vissulega gott að nota varalitablýanta til að hindra slíkt en gætið þess að mýkja línuna eins og eyelinerinn.

2. Öfgar í hárlit gera okkur þreytuleg

Of dökkur hárlitur miðað við okkar náttúrulega húðlit getur ýtt undir fínar línur og þreytumerki, öskukenndur hárlitur getur gert húðina líflausa og svona mætti lengi telja. Það er gott ráð að spyrja hárgreiðslufagmann þinn númer hvað þinn náttúrulegi hárlitur er á skalanum 1-10 (1 er dekkstur og 10 er ljósastur) og halda þig innan tveggja stiga upp eða niður. Það er einnig gott að hafa smá líf í hárinu með því að nota mismunandi brúna tóna eða örfínar ljósar strípur því einn litur í öllu hárinu gerir það flatt.

Dannii Minogue.
Dannii Minogue.

3. Vertu meðvituð um augabrúnirnar

Of skarpar og/eða of dökkar augabrúnir verða okkar verstu óvinir með aldrinum því þær kunna að skapa of mikla andstæðu við húðina. Notaðu góðan augabrúnablýant í svipuðum tón og hárliturinn þinn er, jafnvel örlítið ljósari, og vendu þig á léttar, fjaðrakenndar strokur upp á við ásamt því að fylla upp í allar gloppur augabrúnanna.

4. Út með svartan, inn með brúnan

Allt snýst þetta um að draga úr sterkum andstæðum og mýkja fókus andlitsins. Svartur litur er það versta sem þú setur upp við þreytulega augnumgjörð og ef húðin þín er mjög ljós er svartur litur of mikil andstæða við hana. Skiptu yfir í brúnan eyeliner og maskara, eða annan skemmtilegan lit sem dregur fram augnlit þinn, og sjáðu hvað gerist.

Courteney Cox.
Courteney Cox.

5. Gott rakakrem er besta hrukkukremið

Með aldrinum verður húðin gjarnan þurr og því mikilvægt að velja sér gott rakakrem til að halda húðinni í sínu besta ástandi en góð húð er ávallt grunnur að góðri förðun. Með reglulegri notkun rakakrems verður húðin fyllri ásýndar og förðunin ofan á kemur betur út. Ef húðina skortir raka byrjar hún að taka til sín þann farða sem settur er ofan á hana og þá verður farðinn fljótt ójafn.

6. Kinnalitur getur dimmu í dagsljós breytt

Húðliturinn okkar getur breyst með tíð og tíma og ásýnd andlitsins kann að verða líflausari. Náttúrulega rjóðar kinnar einkenna æskuna svo bjartur kinnalitur frískar samstundis upp á útlitið. Ertu vön að brosa og setja kinnalitinn á epli kinnanna? Ef þú gerir það og hættir svo að brosa mun allt vísa niður á við svo vertu venjuleg í framan, settu kinnalitinn á miðju kinnanna og þannig færðu fram fríska og lyfta ásýnd andlitsins. 

7. Mattur augnskuggi er máttugur

Sanseraður augnskuggi virkar sem stækkunar- og margföldunargler á allar línur augnsvæðisins þar sem hann endurkastar ljósi og skapar skugga. Mattur augnskuggi veitir hinsvegar sléttari ásýnd þar sem hann endurkastar ekki ljósinu ofan í línunum í kringum augnsvæðið.

8. Farðu varlega með hyljarann

Þykkt lag af hyljara undir öllu augnsvæðinu gerir engum greiða og er engu líkara en að viðkomandi hafi verið að koma úr skíðafríi. Þegar við erum komnar með fínar línur, hrukkur og jafnvel poka undir augun gerir hyljarinn fátt annað en að festast þar svo prufaðu að setja hyljarann einungis undir innri horn augnanna og yfir dekksta svæðið. Þannig færðu bjartari ásýnd án þess að hyljarinn dragi sig saman á tilteknum stöðum.

Nicki Minage.
Nicki Minage.

9. Ekki nota of mikið púður

Þegar við vorum ungar og jafnvel með olíukennda húð var púður besti vinur okkar. Þegar húðin er orðin þurrari þarf að draga úr púðurnotkunni til að leyfa æskuljómanum að skína í gegn. Ef húðin þín er olíukennd skaltu einblína við púðurásetninguna á T-svæðið með fínlegum bursta.

10. Farðagrunnur er vanmetinn

Farðagrunnur eða primer byggist gjarnan á sílikoni sem fyllir upp í misfellur húðarinnar og sléttir yfirborð hennar. Þannig situr farðinn mun betur ofan á húðinni og sekkur ekki ofan í opnar svitaholur, fínar línur og hrukkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál