Hannar lúxusvörur í London

Vera Þórðardóttir segir tískuna í London vera mjög fjölbreytta.
Vera Þórðardóttir segir tískuna í London vera mjög fjölbreytta.

Vera Þórðardóttir starfar sem fatahönnuður og ráðgjafi í London. Þar vinnur hún aðallega fyrir sprotafyrirtæki eða ung hönnunarfyrirtæki sem þurfa stuðning og hjálp við hönnun, vöruþróun og stefnumótun. Auk þess er hún gestafyrirlesari hjá Istituto Marangoni í London. Smartland spurði Veru út í starfið og tískuna í London. 

Hvernig myndir þú lýsa verkefninu hjá Sands & Hall?

Nýjasta verkefnið sem ég tók að mér er að endurhanna og markaðssetja fyrirtæki sem að hét Cocoon luxury wear og breytti því í Sands & Hall. Eigendurnir komu til mín með eina vöru sem þau voru að selja í gegnum netverslun. Þau höfðu hug á að breyta merkinu og komast inn á lúxusmarkaðinn í Englandi en varan og markaðssetningin voru ekki af þeim standard sem þarf til þess að vera tekin alvarlega á þeim markaði hér. Ég settist niður með þeim, hjálpaði þeim að finna kjarnann á fyrirtækinu og svo hannaði ég línu í kringum þennan kjarna. Ég sá svo um vöruþróun og að halda uppi gæðastöðlum svo að vörunni yrði vel tekið af fólki innan bransans. Ég mótaði einnig stefnu fyrir myndatöku og setti saman teymi í kringum það. Þessi vinna hófst fyrir einu og hálfu ári og Vogue birti nýjustu línu fyrirtækisins á netsíðu sinni nýlega svo að þau eru á beinni braut inn á lúxusmarkaðinn hér.

Vera hannaði nýja línu fyrir Sands & Hall.
Vera hannaði nýja línu fyrir Sands & Hall. ljósmynd/Vogue

Hefur Ísland eða það að vera íslensk áhrif á þig í þinni hönnun?

Ísland hefur alltaf verið mér mikill innblástur og ég er mikið náttúrubarn. Ég er mikið fyrir mismunandi áferðir og tengi mjög í náttúruna þegar ég vel efni.

Hvað veitir þér innblástur?

Ég fæ mikið innblástur frá list og umhverfinu í kringum mig. Þegar ég byrja að vinna fyrir merki finnst mér líka gott að detta inn í þeirra heim og reyna að ímynda mér viðskiptavininn sem dregst að stílnum sem að merkið stendur fyrir.

Hvernig er að vera fatahönnuður í London? 

Mér hefur alltaf fundist mjög gott að vinna sem fatahönnuður í London. Hér hef ég fengið tækifæri á að kynnast og læra af fólki sem er fremst á sínu sviði í dag. Það er ómetanleg reynsla og kemur fram í öllu sem að ég geri. Samkeppnin er að sjálfsögðu hörð en það þýðir bara að maður leggur harðar að sér og verður betri fyrir vikið.

Hvernig finnst þér tískan í London í samanburði við á Íslandi?

Ég myndi segja að það sé töluvert meira af „sub culture“ í London. Það gerir það að verkum að maður hittir alls konar fólk á öllum götuhornum og tískan verður gífurlega fjölbreytt og einstaklingsbundin. Ég sé reglulega konu sem elskar fjólublátt, er bara í fjólubláum fötum, með fjólublátt hár og svo framvegis. Þetta gerir fólki kannski auðveldara fyrir að þróa óhefðbundna stíla. Hins vegar finnst mér Íslendingar yfir höfuð mjög flottir, vel til fara og standardinn er hár, verslanirnar í Reykjavík eru fallegar og vöruúrvalið vandað. Íslensk hönnun er falleg og mikið í hana lagt enda eru margir flottir hönnuðir heima að fá viðurkenningar bæði þar og erlendis.

Úr línu Sands & Hall sem Vera hannaði.
Úr línu Sands & Hall sem Vera hannaði. ljósmynd/Vogue

Eftir að hafa komið þér vel fyrir í London sérðu fyrir þér að starfa við fatahönnun á Íslandi? 

Mér finnst alltaf spennandi að vinna með íslenskum merkjum og sé mikla framtíð í íslenskri fatahönnun. Ég vinn nú þegar með viðskiptavinum sem að eru staðsettir í Mið-Evrópu og Asíu þannig að það er auðvelt að vinna að verkefnum á milli landa. Heimurinn er svo lítill í dag að maður þarf ekki endilega að búa þar sem að verkefnin eru. Mínir viðskiptavinir sjá sér hag í því að ég er staðsett í einni af stærri tískuborgum heims og get miðlað reynslu héðan.

Hvaða áhrif hafði það á feril þinn að Lady Gaga klæddist kjól eftir þig?

Það var að sjálfsögðu mikill heiður strax eftir útskrift. Það voru 80 virtir hönnuðir sem sendu inn vörur fyrir hana þetta kvöld og að vera valin úr þeim hópi var spennandi og mikil viðurkenning.  Þegar kemur að mér sem hönnuði mótaðist ég nú samt mest þegar ég vann fyrir Céline. Þar vann ég með ótrúlega hæfileikaríkum hópi sem að þróaði bara fyrsta flokks vöru úr fyrsta flokks efnum. Það voru mikil forréttindi að vinna með og læra af þessu fólki.

Hvað finnst þér mest heillandi í tískunni í dag?

Tískuheimurinn er að ganga í gegnum miklar og spennandi breytingar. Allt er að færast meira og meira yfir á netið og þeir sem að eru að standa sig vel í markaðssetningu á netinu eru að taka forystu. Þetta býður upp á sveigjanleika þegar kemur að hönnun, sölu, framleiðslu og staðsetningu. Það er líka komin aukin áhersla á gagnsæi í vöruþróun og framleiðslu. Viðskiptavinurinn gerir meiri kröfu á að það sé ekki bara vel gengið frá vörunni heldur að hún sé gerð í góðu umhverfi. Smærri merki hafa alltaf verið svolítið undir hælum á stórum verslunum og þeim skilyrðum sem að þær setja en þessar breytingar gefa þeim meira frelsi til þess að þróa sig áfram á sínum eigin forsendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál