Kauphegðunin er stundum aðeins of ýkt

Tvíhneppur jakki og YSL-taska klikka ekki.
Tvíhneppur jakki og YSL-taska klikka ekki. mbl.is/Árni Sæberg

Erna Hrund Hermannsdóttir, vörumerkjastjóri snyrtivöru og fatnaðar hjá Ölgerðinni og förðunarfræðingur, hefur heillandi fatastíl. Hún elskar hönnun Christopher Bailey fyrir Burberry en hún kaupir líka notuð föt ef hún er í þannig stuði.

Hvernig er fatastíllinn þinn?

„Hann er mjög fjölbreyttur og ég er gjörn á að prófa mig áfram með stílinn minn dag frá degi og þá sérstaklega eftir því hvernig skapið er þann daginn. Ég á það til að mæta í vinnu einn daginn í Adidas jogging-buxum við Pepsi Max-merkta hettupeysu og strigaskó, þann næsta mæti ég svo mögulega í þröngum samfestingi og aðeins of hælaháum stígvélum sem ná mér upp á læri. Ef mér finnst það flott og mér líður vel þá slæ ég til. Eini ókosturinn er kannski sá að ég á ennþá alltaf voða erfitt með að vera í sömu fatasamsetningum oftar en einu sinni en þannig hef ég svo sem alltaf verið og gerir það að verkum að ég er mun líklegri til að prófa mig áfram með stílinn minn.“

Hvaða tískutímabil er í mestu uppáhaldi hjá þér?

„Ef ég hugsa um það þegar kemur að stíl og tísku myndi ég segja að það væri tímabilið sem er í gangi núna. Í dag er svo gaman að fylgjast með hve ólíkur stíll getur verið og hvað persónulegur stíll hvers og eins í kringum mann skín í gegn, mér finnst það eiga meira við núna en oft áður. Í sögulegum tilgangi jafnast ekkert á við „roaring twenties“.“

Klæðist þú litum eða ertu alltaf í svörtu?

„Það fer rosa mikið eftir skapinu sem ég er í á hverjum degi. Ég held ég sé meira í svörtu á veturna en á sumrin reyndar. Ég reyni líka helst að komast hjá því að vera í svörtu frá toppi til táar og lífga þá upp á lúkkið með áberandi skóm eða klút.“

Uppáhaldsflíkin þín?

„Svartur leðurjakki sem ég keypti mér þegar ég sótti tískuvikuna í Kaupmannahöfn fyrir þremur árum. Jakkann fékk ég í VILA á Strikinu og var hann þá ein dýrasta flík sem ég hafði keypt mér. Hann er örlítið síður og mjög töffaralegur, hef hvorki fyr né síðar séð svo fullkominn leðurjakka fyrir minn stíl.“

Erna Hrund í velúr samfesting.
Erna Hrund í velúr samfesting. mbl.is/Árni Sæberg

Kaupir þú notuð föt?

„Ég gerði það mikið fyrir nokkrum árum en stunda lítið vintage-kaup þessa stundina. Ég hef þó alltaf gaman af því að gramsa en kannski frekar núna í fataskápnum hjá ömmu og mömmu. Það er gaman að fá tækifæri til að klæðast flíkum sem tengjast manni sjálfum eða fólkinu í kringum mann.“

Hvað gerir þú við föt sem þú ert hætt að nota?

„Ég á ágætlega erfitt með að skilja við fötin mín eins fáránlegt og það hljómar. Ég man eftir hverri og einni flík sem ég hef nokkurn tímann keypt, hvenær og hvar ég keypti hana og jafnvel í hverju ég var þegar ég keypti hana. En þegar mér tekst að slíta á tengslin þá vil ég gefa þau í Rauða krossinn eða Hjálpræðisherinn.“

Uppáhaldsverslunin á Íslandi?

„Án efa Andrea Boutique. Þar finnur maður ekki bara falleg föt, aukahluti og muni heldur líka yndislegt starfsfólk svo ég tali nú ekki um þegar maður rekst á Andreu sjálfa sem er góð vinkona mín og þá endar heimsóknin iðulega með heitum kaffibolla og löngu spjalli. Ég heimsæki líka reglulega Geysi, þangað finnst mér alltaf gaman að fara og skoða fallega hönnun frá uppáhalds danska hönnuðinum mínum Stine Goya og Bianco er mín go to skóbúð þaðan sem stærstur hluti skóskápsins míns er. Ég vann lengi hjá Bestseller á Íslandi svo ég er mikið í Vero Moda, VILA og Selected hér á landi og fylgist vel með því sem er að gerast þar.“

Sparileg í síðkjól og hælaskóm.
Sparileg í síðkjól og hælaskóm. mbl.is/Árni Sæberg

En í útlöndum?

COS, & Other Stories og All Saints eru uppáhalds. Einnig hef ég gaman að því að fara í stórar verslanir eins og Illum og Magasin Du Nord í Kaupmannahöfn og La Rinascente í Milano til að fá fullt af flottum merkjum og vörum beint í æð.“

Verslar þú mikið á netinu?

Ég á það til já, þá er það helst Asos sem verður fyrir valinu. En ég reyni eftir fremsta megni að kaupa fatnað hér á landi, mér finnst það skemmtilegra og þá líka veit ég að ég geri mitt til að halda þeim verslunum hér á landi og úrvali sem breiðustu.“

Bestu kaup sem þú hefur gert?

„Ég fjárfesti í klassískum Barbour-jakka um daginn í Geysi, ég hef mikla trú á því að sú yfirhöfn eigi eftir að verða mér ómissandi í haust og vetur. Annars er mest notaða flíkin í fataskápnum mínum ef flík má kalla svört leður ökklastígvél með grófri áferð sem Camilli Pihl hannaði fyrir Bianco fyrir ábyggilega rúmum tveimur árum. Ég hef klæðst þeim skóm ca 2-3 í viku síðan ég fékk þá fyrir öllum þessum tíma og þeir eru enn eins og nýir.“

Sportleg í gallabuxum.
Sportleg í gallabuxum. mbl.is/Árni Sæberg

Mesta tískuslysið þitt?

„Ég vil helst meina að þau séu bara örfá eða engin, alla vega eru þau partur af minni stílsögu svo ábyggilega voru slysin stór partur í að móta minn stíl í dag.“

Bólstruð YSL-taska er í miklu uppáhaldi.
Bólstruð YSL-taska er í miklu uppáhaldi. mbl.is/Árni Sæberg

Uppáhaldsaukahlutur?

„Ég get varla annað en nefnt einstaklega fallegu töskuna mína frá Yves Saint Laurent. Ég var stödd í verslun tískumerkisins í Kaupmannahöfn í sumar með tveimur af mínum bestu vinum til að fá hjálp við að velja hina hárréttu tösku sem tókst svo sannarlega.“

Hvað er á óskalistanum fyrir veturinn?

„Mig langar helst í yfirhöfn, kápu eða pels með hlébarðamunstri. Ég tek reglulega rúnt um uppáhaldsverslanirnar mínar og netverslanir í leit að þeirri einu sönnu.“

Joggingbuxur og strigaskór eru í uppáhaldi þegar tækifæri gefst.
Joggingbuxur og strigaskór eru í uppáhaldi þegar tækifæri gefst. mbl.is/Árni Sæberg

Í hvaða borg finnst þér skemmtilegast að versla?

„Ég er svo heppin að fá að ferðast mikið í tengslum við vinnuna mína og fer tvisvar á ári til Ítalíu nánar tiltekið til Mílanó. Að versla í þeirri fallegu borg er eins og að versla á listasöfnum. Ekki bara eru fallegar flíkur heldur er umhverfið svo glæsilegt og auðvelt að gleyma sér í að skoða arkitektúr jafnt sem fallegar vörur.“

Hvernig er kauphegðun þín?

„Hún er stundum aðeins of ýkt en ég hef þó þroskast með árunum og spái miklu meira í hvað ég kaupi og hvernig ég get notað það.“

Ef þú ynnir milljón í happdrætti, hvað myndir þú kaupa í fataskápinn?

„Það fallegasta sem ég veit er hönnun Christopher Bailey fyrir Burberry, ég held að ég myndi eflaust splæsa í eitthvað fallegt frá honum ef ég yrði ýkt og tæki það alla leið. Annars yrði rökréttast að kaupa fyrst fleiri fataskápa, plássið er af ágætlega skornum skammti fyrir fata- og skófíkil sem þjáist af aðskilnaðarkvíða við flíkurnar sínar!“

Ernu Hrund finnst gott að vera í kósýgallanum heima hjá …
Ernu Hrund finnst gott að vera í kósýgallanum heima hjá sér. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál