Á allt of mikið af snyrtivörum

Svala hefur gaman að því að farða sig fallega.
Svala hefur gaman að því að farða sig fallega.

Tónlistarkonan Svala Björgvins er þekkt fyrir líflegan stíl og litríka förðun. Það er því ekki úr vegi að fá að forvitnast aðeins um förðunarrútínuna hennar. 

„Ég trúi því að góður svefn geti gert kraftaverk fyrir útlitið, húðina og hárið. Ég hef alltaf verið frekar ströng á það að fá góðan svefn, sem getur reyndar oft verið mjög erfitt í minni vinnu. Sérstaklega þegar ég hef verið á tónleikaferðalögum og í löngum vinnutörnum. Ég drekk ekki áfengi og það hefur mikið að segja varðandi útlit og sérstaklega þegar maður eldist. Ég fer rosa mikið í sánu, en ég var alin upp við að fara í sánu með ömmu og afa og mömmu minni. Ég hef verið búsett í Los Angeles í átta ár og fer þá í kóreskt spa því þar eru sánur eins og á Íslandi. Svokallaðar þurrgufur sem mér finnst alveg geggjaðar fyrir húð og hár. Ef ég kemst ekki í sánu fer ég í andlitsbað. Þá sýð ég vatn í potti, set handklæði yfir hausinn og læt gufuna leika um andlitið í allavega 15-20 mínútur,“ segir Svala aðspurð hvað hún geri til að líta vel út.

„Ég sef aldrei með farða á andlitinu, er dugleg að nota andlitskrem og trúi því að ef maður haldi miklum raka í húðinni haldi maður henni góðri. Svo er auðvitað líka mikilvægt að borða rétt og drekka mikið vatn. Ég er samt alls ekki dugleg að drekka vatn og er ein af þeim sem drekka rosa mikið gos. Ég er að reyna að minnka það. Hér í LA skín sólin allan ársins hring og það er því mikilvægt að vera með sólarvörn alla daga og hatt. Sólin hérna er rosalega sterk og ég fer aldrei í sólbað á andliti. Ef ég fer á ströndina læt ég bara skína aðeins á lappirnar. Annars væri ég orðin eins og sveskja í framan.“

Hér er augnmálningin áberandi.
Hér er augnmálningin áberandi.

Svala segist mála sig lítið dagsdaglega, enda sé hún yfirleitt mikið máluð þegar hún kemur fram.

„Dagsdaglega nota ég bara smá BB-krem, púður, maskara og gloss. Ég er yfirleitt svo mikið máluð í myndatökum, á tónleikum og myndböndum að ég vil ekki vera mikið förðuð ef ég þarf þess ekki. Mér finnst samt rosa gaman að snyrtivörum og að vera alls konar máluð. Finnst það mjög skemmtilegt og skapandi ferli,“ segir Svala og bætir því við að púður og maskari séu förðunarvörur sem hún gæti ekki verið án. En hvernig er förðuninni háttað fyrir fínni tilefni?

„Ef ég er að fara á einhverja viðburði, eða út á lífið, mála ég mig aðeins meira. Þá skelli ég á smá gerviaugnhárum, set eyeliner, smá kinnalit og bronzer. Förðunin fer svolítið eftir fötunum hverju sinni og því hvert ég er að fara,“ segir Svala, sem játar að tónleika- og myndbandsförðun sé síðan sérkapítuli út af fyrir sig.

„Ég vinn alltaf með förðunarfræðingum og hárgreiðslufólki þegar ég er á tónleikum, í myndböndum, myndatökum eða sjónvarpi. Þá fara alveg þrír tímar í hár og förðun, en ég er aldrei eins förðuð þegar ég kem fram. Á tónleikaferðalögum sé ég yfirleitt um mína eigin förðun en stundum þekki ég einhvern í viðkomandi borg sem farðar mig. Ég hef verið þekkt fyrir að vera með mjög sérstaka förðun, hárgreiðslu og hárkollur þegar ég kem fram.“

Maskarinn frá Make Up Forever er í uppáhaldi.
Maskarinn frá Make Up Forever er í uppáhaldi.

Svala játar að hún eigi allt of mikið af snyrtivörum, enda fái hún þær gjarnan að gjöf.

„Ég er heppin að þurfa ekki mikið að kaupa mér snyrtivörur. Ég fékk fullt af geggjuðum vörum frá Makeup Forever um daginn og elska þær. Fékk besta maskara í heimi sem heitir Smoky Extravagant og fékk svo HD Ultra-meikið sem er algerlega tryllt og sjúklega fallegt þegar maður er í sjónvarpi eða í myndböndum. Gerir einhverja töfra við húðina þegar maður er fyrir framan myndavélar. Ég á í raun alltof mikið af snyrtivörum og var að gefa vinkonu minni fullt um daginn til að minnka aðeins við mig. Þetta er í töskum úti um allt hús,“ segir Svala. Hún á þó ekki mikið af ilmvötnum enda segist hún einungis notast við náttúrulegar ilmolíur en þá sé Pikaki-olían í uppáhaldi. En hvert skyldi besta förðunarráðið vera að hennar mati?

„Contour- og highligthing-brellan virkar alltaf. Þá undirstrikar maður það sem maður hefur, en það virkar stundum eins og photoshop. Það þarf að gera það varlega og vel og alls ekki of mikið. Allt er gott í hófi. Ég er heppin að hafa unnið með snillingum og listamönnum þegar kemur að hári og förðun og ég hef lært ótrúleg trix. Svo er líka alltaf mikilvægt að elska sjálfan sig og vera sáttur við sig. Það gerir alla fallega því við erum öll falleg á okkar hátt.“

Kíkt í snyrtibudduna hjá Svölu Björgvins.
Kíkt í snyrtibudduna hjá Svölu Björgvins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál