Grái liturinn á útleið

Steinunn Ósk segir að stuttar klippingar muni sækja í sig …
Steinunn Ósk segir að stuttar klippingar muni sækja í sig veðrið. mbl.is/Eggert

Steinunn Ósk Brynjarsdóttir, hársnyrtir á hárgreiðslustofunni Senter, segir fólk gjarnan vilja breyta um stíl á haustin þegar sumarfríum lýkur, skólar hefjast á ný og fólk fer að tínast til vinnu.

„Þá dettur þetta svolítið í sama mynstrið og margir fara að klippa á sig topp, sem er skemmtilegt. Fólk vantar einhverja breytingu. Náttúrulegir litir eru í tísku um þessar mundir, en þessi grái er að detta út. Við sögðum það reyndar líka í fyrra, en núna er hann að detta út,“ segir Steinunn og bætir við að fólk velji frekar gyllta og náttúrulega tóna, auk þess sem klippingarnar séu að verða styttri.

„Toppurinn er líka að styttast, en síðustu ár hefur hann verið svolítið þungur. Í ár verður hann í styttra lagi, sem er mjög skemmtilegt því þá verður þetta svolítið „edgy“. Síða hárið er ennþá inni, sem og það axlasíða sem hefur verið vinsælt undanfarið. Þær sem hafa verið í axlasíddinni eru þó jafnvel að stytta það ennþá meira, sem er spennandi fyrir okkur fagfólkið,“ segir Steinunn Ósk og bætir við að skvísur landsins þyrsti yfirleitt í svolitla tilbreytingu á haustin.

„Fólk langar í eitthvað nýtt, það er að byrja aftur í skólanum og vinnunni eftir sumarfrí. Endarnir eru líka oft ónýtir eftir sólina. Þannig að fólk er að losa sig við þá.“

Grái liturinn, sem hefur verið vinsæll undanfarið, er á útleið.
Grái liturinn, sem hefur verið vinsæll undanfarið, er á útleið. Pinterest

Steinunn segir að einnig sé vinsælt að blanda köldum tónum saman við hlýja, auk þess sem ennþá sé vinsælt að leyfa rótinni að halda sér dökkri og lita endana ljósari. „Ég hef mikið verið að setja vel ljósar og kaldar strípur í mjúka liti. Það er einnig ennþá vinsælt að leyfa sínum náttúrulega dökka tón að halda sér í rótinni og láta svo aflita endana,“ segir Steinunn og bætir við að sléttujárnið sé farið að sækja í sig veðrið eftir að hafa legið í dvala um hríð.

„Sömu liðirnir hafa verið áberandi undanfarið, en svo virðist sem allar stelpur hafi notað samskonar krullujárn. Sléttujárnið er þó að koma inn aftur og krullujárnið detta aðeins út. Ég er mjög ánægð með það því ég nenni ekki að krulla mig og finnst skemmtilegt að fá að draga sléttujárnið upp úr skúffunni,“ segir Steinunn Ósk, en skyldi hún luma á einhverjum ráðum fyrir fólk sem þyrstir í að breyta til?

„Mér finnst alltaf gott ef kúnnarnir mínir fara inn á Pinterest eða á netið og finna sér myndir til að styðjast við því við lesum auðvitað ekki hugsanir. Þá getur maður rætt þetta aðeins, bæði hvernig kúnninn sér þetta fyrir sér og hvernig ég sé þetta fyrir mér sem fagmaður,“ segir Steinunn.

Það er þó ekki nóg að skella sér í klippingu og litun, enda verður að hirða hárið vel svo það haldist fallegt. En hverju ætti að huga að yfir köldustu mánuðina?

„Yfir vetrartímann þarf að eiga gott rakasjampó og rakanæringu og jafnvel einhvern djúpnærandi maska. Það er algert möst. Það ætti heldur ekki að þvo hárið á hverjum degi, þannig er auðveldara að halda rakastiginu í hárinu góðu.“

Stuttir toppar verða vinsælir á næstunni.
Stuttir toppar verða vinsælir á næstunni. Pinterest
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál