„Ég er líka blússandi ADHD-manneskja“

Sigrún Ásta segir að rauði liturinn verði vinsæll áfram.
Sigrún Ásta segir að rauði liturinn verði vinsæll áfram. mbl.is/Golli

Sigrún Ásta Jörgensen starfar sem stílisti og förðunarfræðingur auk þess sem hún hefur fengist við listræna stjórnun í tískumyndatökum. Hún segir að starfinu fylgi endalaust svigrúm fyrir skemmtilegar hugmyndir og mikið frelsi til að prufa eitthvað nýtt.

„Ég er líka blússandi ADHD-manneskja svo ég þrífst á þessari endalausu orku sem fylgir þessum bransa. Það er alltaf nóg að gera, nýtt fólk til að kynnast og frelsi til að haga dögunum eftir eigin höfði. Það er líka mikið af yndislegu fólki í þessum bransa og ég kann alltaf að meta öll ævintýrin sem maður lendir í. Einn daginn gæti maður verið uppi á jökli í auglýsingatökum og þann næsta er maður kominn upp á Keflavíkurflugvöll.“

Þar sem Sigrún Ásta starfar í tískuheiminum er hún augljóslega með puttann á púlsinum þegar kemur að vetrartískunni. En hvernig skyldi hún sjálf kjósa að klæða sig yfir vetrarmánuðina?

„Ég á nokkrar uppáhaldsvetrarkápur og peysur sem ég nota langmest. Það er líka gott ráð að nota undirlag úr ull, sérstaklega ef þú ert kápuskvísa sem er ekki fyrir þykkar úlpur. Svo eru það gallabuxurnar, ég breytist í algjöran gallabuxnaperra á veturna og kýs aðsniðnar buxur. Svo vel ég liti eftir því hvernig skapi ég er í þann daginn. Ég er einnig alltaf í góðum leðurskóm, mínir helstu eru allir svartir, aðsniðnir með smá hæl. Mér finnst þeir virka við allt.“

Sigrún Ásta segir að bjartir og fallegir litir verði áberandi í haust- og vetrartískunni, til að mynda rauði liturinn sem kom sterkur inn á árinu.

„Rauði liturinn verður vinsæll fram á næsta ár. Silfraður og gulur eru líka að koma sterkir inn í ýmsum flíkum, svo ég býst við að þeir muni vera vinsælir restina af árinu og koma enn sterkar inn á því næsta. Dúnúlpur eru víða sjáanlegar og fallegt prjón mun alltaf vera klassískt,“ segir Sigrún Ásta og bætir við að það sem heilli hana mest við vetrartískuna sé hvernig hægt sé að setja saman dress með því að raða saman mörgum lögum af fatnaði.

„Íslendingar, Svíar og Danir eru góðir í þessu, en mér finnst það alltaf svo glæsilegt. Þá klæðist fólk til dæmis rúllukragapeysu, glæsilegri peysu yfir og svo kápu. síðan setur fólk upp fína húfu og trefil til að fullkomna „lúkkið“.“

En er eitthvað sem fólk ætti að forðast að spreða í fyrir veturinn?

„Ekki kaupa sokka úr gerviefnum, frekar ætti að velja sokka úr ull. Ég myndi einnig mæla sterklega með því að kaupa leðurskó, frekar en vegan „pleather“ skó. Nema að sjálfsögðu fyrir þá sem eru vegan. Gerviefnin gera það að verkum að maður svitnar meira á fótunum og fæturnir verða kaldari en þeir þurfa að vera. Það er eitthvað sem ég þoli til dæmis mjög illa,“ segir Sigrún Ásta, en hver verður að hennar mati heitasti aukahluturinn í vetur?

„Það er alltaf gott að eiga traust og gott leðurveski sem þolir rigningu og kulda. Ég á eitt frábært Marc Jacobs-veski sem ég er búin að nota endalaust síðustu ár og það sér ekki mikið á því. Það kostaði reyndar sitt, en notagildið gerir það að verkum að það var þess virði. Svo er gott að eiga nóg af húfum, treflum og skóm til velja úr svo „lúkkið“ verði fjölbreyttara og skemmtilegra. Ekki skemmir fyrir að eiga fallegan feld inni í skáp sem maður tekur út á veturna. Síðan má ekki gleyma varasalvanum þar sem frostið tekur á varirnar. Persónulega nota ég alltaf brjóstakremið, en það heldur vörum fullkomum yfir vetrartímann,“ segir Sigrún Ásta, sem hefur í nógu að snúast á næstunni enda er hún að vinna að tveimur stórum verkefnum um þessar mundir.

„Ég er búningahönnuður fyrir Steypustöðina 2, auk þess sem ég er að fara að vinna með Nordic Style Magazine þar sem ég mun gera nokkra tískuþætti og aðstoða við tískutengd mál í blaðinu. Það er virkilega spennandi enda erum við að vinna í fyrsta íslenska tískublaðinu sem fer í svona stóra alþjóðlega dreifingu. Fólkið sem kemur að blaðinu er frábært og mikið fagfólk, svo ég veit að útkoman verður góð hjá okkur. Svo hlakka ég líka mikið til að breytast í sófakartöflu í jólafríinu. Það verður ljúft,“ segir Sigrún Ásta að lokum, hress í bragði.

Kápur eru hið mesta þarfaþing.
Kápur eru hið mesta þarfaþing. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál