Jóladressið enn þá í vinnslu

Elísabet Gunnarsdóttir á Trendnet.is er ein best klædda kona landsins. Hún er búsett í Svíþjóð og verður þar um jólin ásamt manni sínum og börnum. Hún segir að þessi árstími kalli á rauðan varalit og pallíettur. 

„Jólatískan er meira spennandi að því leytinu að maður leyfir sér að fara út fyrir boxið í vali á klæðnaði. Yfir hátíðirnar dreg ég fram pallíettur og nota þær óspart og hvet lesendur mína til að gera slíkt hið sama. Pallíettur passa líka svo vel við aðrar jólaskreytingar.

Á jólunum eru þó þægindin stór þáttur þar sem manni vill líða vel í hátíðargírnum á meðan áramótin eru aðeins ýktari í klæðavali. Þegar maður sest með tásurnar upp í loft eftir ljúffenga máltíð þá verður maður þakklátur fyrir þægindavalið. 

Tískan í dag hentar þar einstaklega vel – bundnir kjólar (kimonar) eru til dæmis vinsælir og þá má nota sem jólakjól og losa svo um mittið eftir matinn. Þá virka samfestingar alltaf vel ef sniðið er rétt. Mæli til dæmis með einum góðum frá AndreA Boutiqe sem er virkilega vel heppnaður,“ segir Elísabet. 

Elísabet í samfestingi frá Andreu.
Elísabet í samfestingi frá Andreu.

Elísabet segir að rauður hafi sjaldan verið vinsælli en akkúrat núna. 

„Jólaliturinn, rauður, hefur aldrei verið vinsælli en einmitt núna og ég tek þátt í því að klæðast honum óspart. Þetta verða því líklega rauðustu jólin í langan tíma hvað klæðaburð varðar en ég óska eftir hvítum snjó á göturnar á sama tíma.“

Þegar Elísabet er spurð að því hverju hún ætlar að klæðast á jólunum segist hún ekki vera búin að ákveða það. 

„Ég er ekki komin svo langt að pæla í jóladressinu. Góður samfestingur er á óskalista en það væri þó ekki ólíklegt að ég myndi halda í vanann og klæðist svörtum kjól við rauðar varir – það klikkar aldrei. Nýju rauðu Kalda-skórnir mínir yrðu líklega paraðir við varalitinn.“

Elísabet í kápu úr Geysi.
Elísabet í kápu úr Geysi.

Ertu þessi týpa sem ert glansandi fín á jólunum? 

„Ég fer millileiðina, klæði mig og börnin mín upp í jóladress (fínni klæði) en tíminn er naumur þegar huga þarf að mat og börnum. Ég enda því oftast á að setja hárið í snúð í flýti og læt mér nægja að fela baugana og setja rautt á varirnar. Við fjölskyldan erum bara fjögur í sænska kotinu okkar og því er stemningin eftir því – við erum fljót að skipta yfir í náttfötin þegar þau hafa verið opnuð úr einhverjum af jólapökkunum.“

Uppáhaldsflík þessa dagana? 

„Nýja íslenska kápan mín úr vetrarlínu GEYSIS (Skugga Sveinn) er uppáhalds í augnablikinu.“

Uppáhaldsskór? 

„Það eru tvennir í uppáhaldi þessa dagana. Ég elska rauðu Kalda-skóna mína, keypta í YEOMAN á Skólavörðustíg en mest í notkun eru loðnir „Gucci“-inniskór úr Lindex.“ 

Þessir skór fást í YEOMAN.
Þessir skór fást í YEOMAN.

Uppáhaldstaska? 

„BLANCHE-pokataska (sem brátt verður fáanleg í Húrra Reykjavík) og Saint Laurent shoppingbag, jólagjöf frá því í fyrra, fara með mér dagelga út úr húsi. En taska drauma minna er þessi hér – Gucci dionysus í svörtu.“ 

Hver er tískufyrirmyndin þín? 

„Ég á í rauninni enga eina tískufyrirmynd en þær eru margar sem veita mér innblástur á samskiptamiðlum. Ég hef lesið sænsk blogg í mörg ár og held áfram að fylgjast með gömlum góðum (sem eru þó löngu hættar að blogga) sem kunna að klæða sig.“ 

Elísabetu dreymir um þessa Gucci-tösku.
Elísabetu dreymir um þessa Gucci-tösku.

Ef þú mættir velja einn fylgihlut sem gerir kraftaverk, hvað myndir þú velja?

„Eyrnalokkar hafa verið sá fylgihlutur sem hjálpar mér við að gera einfalt dress meira næs – setur punktinn yfir i-ið. Þó eru sólgleraugu líklega minn besti fylgihlutur – þau hafa bjargað mér ansi oft og það er misskilngur að þau séu eingöngu ætluð sumartímanum. Ég óska mér þeirra oft í jólagjöf sem sumum finnst skrítin ósk í desember.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál