Ekkert grín að vera svona fallegur

Jóna Ósk Pétursdóttir.
Jóna Ósk Pétursdóttir. mbl.is/Rósa Braga

„Undanfarna daga hef ég dvalið í landi tækifæranna. Það er margt sem gerist í henni Ameríku sem ég hef gaman af að fylgjast með og oft reynist svo sannarlega ekki öll vitleysan vera eins. Eitt af því sem mér finnst skemmtilegt að sjá eru viðtöl við fræga fólkið. En það nýjasta sem vakti athygli mína var viðtal við hinn gullfallega Rob Lowe. Hver man annars ekki eftir þeim súkkulaðimola?

Leikarinn myndarlegi sem bræddi mörg hjörtun hér í „den“ hefur elst alveg einstaklega vel. Hann er sem sagt ennþá alveg fjallmyndarlegur – bara aðeins eldri. Augljóst að hann hefur gert eitthvað rétt um ævina eða að hann er svona einstaklega lánsamur með gen. En það er samt greinilega ekki tekið út með sældinni að vera svona fallegur og lánsamur. Elsku kallinn var nefnilega, í þessu viðtali, að kvarta yfir því hversu erfitt það getur verið að vera svona sætur,“ segir Jóna Ósk Pétursdóttir í sínum nýjasta pistli

„Það er einmitt það! Hversu erfitt getur það verið að hafa útlitið svona með sér? Ég bara spyr. Það hlýtur að vera svakalegt álag. Ekki að ég hafi grænan grun um hvernig honum líður enda svo venjuleg að það jaðrar við að vera óvenjulegt.

Þess vegna er ekkert skrýtið að mér hafi fundist þessi yfirlýsing hjartaknúsarans fyndin og talið að um grín væri að ræða. Ég meina, hver kvartar yfir því að vera of fallegur? Í alvöru!

En Rob kallinn var sko bara alls ekkert að grínast. Svo er hann víst ekki sá eini sem hefur kvartað yfir of mikilli fegurð. Mér skilst nefnilega að leikkonan Jessica Biel hafi átt við sama vandamál að stríða en hún kennir fegurð sinni m.a. um skort á bitastæðum hlutverkum,“ segir hún. 

Hún segir að hann vilji meina að fólk sé með fordóma gagnvart of fallegu fólki. 

„Við fyrstu hugsun virðist þetta algjörlega fráleitt. Enda fólk sífellt að eltast við fegurðina og leggja margir töluvert á sig til að öðlast hana. Sumir leggjast meira að segja undir hnífinn til að verða fallegri. Og til hvers? Til þess að verða svo fyrir fordómum eins og Rob greyið.

Þegar ég fór hins vegar að velta þessum fullyrðingum hans alvarlega fyrir mér læddist að mér sá grunur að kannski væri heilmikið til í þessu hjá kappanum. Alls konar fordómar hrjá okkur, af hverju ekki líka fordómar gagnvart fallegu fólki? Eru sumir til dæmis ekki haldnir fordómum gagnvart ófríðu fólki?

Í viðtalinu benti Rob á að fallegt fólk væri almennt ekki talið hafa upplifað neitt erfitt um ævina. Allir teldu sem sagt lífið vera stanslausan dans á rósum hjá þeim fríðu. Hann sagði jafnframt þá skoðun almenna að fallegt fólk skorti alla dýpt og væri þar af leiðandi ekki áhugavert. Þetta er auðvitað það sama og að segja að fallegt fólk sé heimskt, ekki satt? Og enn einir fordómarnir gagnvart hinum fallegu væru að þeir þættu hreint ekkert fyndnir.“

Jóna Ósk bendir á að það sé ekkert grín að vera svona fallegur. „Eins og þið sjáið þá er greinilega ekkert grín að vera of fallegur. Við venjulega fólkið erum því þau heppnu. Við megum sko þakka fyrir að vera svona venjuleg og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að fegurðin þvælist fyrir okkur í lífinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál