Þetta þarf að íhuga fyrir brjóstaaðgerðina

Brjóstastærð getur haft mikil áhrif á sjálfstraust kvenna.
Brjóstastærð getur haft mikil áhrif á sjálfstraust kvenna.

Brjóstaaðgerðum hér á landi hefur fjölgað mikið undanfarið en á árunum 2009-2012 voru um 550 brjóstaaðgerðir framkvæmdar á ári á Íslandi. En það er ekkert grín að leggjast undir hnífinn og láta stækka eða minnka á sér brjóstin og málið þarf að hugsa frá A-Ö áður en ákvörðun er tekin.

Á heimasíðu Cosmopolitan má finna lista yfir nokkur atriði sem vert er að hafa í huga áður en lagst er á skurðarborðið. Listann má lesa í heild sinni á heimasíðu Cosmo

Þín fyrsta aðgerð verður líklegast ekki þín síðasta.  25% kvenna sem fara í brjóstastækkun þurfa að fara í aðra aðgerð eftir tíu ár vegna þess að brjóstafyllingar endast ekki að eilífu. Fyllingin gæti til dæmis farið að leka og þyngdarmissir og barneignir geta haft áhrif á brjóstapúðana.

Aðgerðin getur kostað í kringum hálfa milljón. Samkvæmt gjaldskrá inni á www.lytalaeknir.is kostar brjóstastækkun 470.000 krónur en þar kemur einnig fram að verð getur tekið breytingum án fyrirvara. Verðið fer einnig eftir læknum.

Sjúklingar taka sér að meðaltali fimm eða sjö daga frí frá vinnu eftir aðgerð á brjóstum, hvort sem um stækkun eða minnkun er að ræða. Þú munt ekki hafa náð þér fyllilega eftir eina viku en þú ættir að vera í nógu góðu ástandi til að snúa aftur til vinnu ef vinnan krefst ekki líkamlegs erfiðis.

Það er öðruvísi að snerta gervibrjóst en raunveruleg brjóst. Sílikonbrjóst eru svipuð raunverulegum brjóstum viðkomu en þau eru samt manngerð og maður finnur ekki fyrir náttúrulegum líkamsvef. Brjóstapúðarnir verða líka meira áberandi hjá þeim konum sem eru með mjög lítil brjóst frá náttúrunnar hendi. Þá brjóstapúða sem eru undir vöðvanum er erfiðara að finna heldur en þá sem liggja ofan á vöðvanum.

Þú getur fengið að prófa ólíkar brjóstastærðir áður en þú ferð í aðgerðina. Sérstakir brjóstahaldarar með hólfum fyrir fyllingar koma að góðum notum fyrir þær konur sem eru ekki vissar hvaða brjóstastærð hentar þeim. Spurðu lýtalækninn þinn út í þetta.

AFP

Þú getur ekki farið úr litlum brjóstum yfir í risavaxin með einni aðgerð. Ef þú ert með lítil A-brjóst þá getur þú ekki búist við að fara yfir í brjóst í stærð DD á svipstundu. Það er nauðsynlegt að setja sér raunhæf markmið. Líkaminn og húðin þarf smá-aðlögunartíma. Þess vegna þarf að stækka brjóstin hægt og rólega ef breytingin á að vera mikil.

Þú gætir misst tilfinningu í geirvörtunum eftir brjóstaaðgerð. Það er möguleiki á því að konur sem gangast undir aðgerð á brjóstum missi tilfinningu í geirvörtunum. Þetta er vissulega misjafnt eftir konum en margar konur missa einhverja eða mikla tilfinningu í geirvörtunum þrátt fyrir að þær geti ennþá orðið stinnar við ertingu og í kulda.

Þú ert ekki tilvalinn kandídat fyrir brjóstastækkun ef brjóstakrabbamein er algengt í fjölskyldunni, ef þú ert of feit eða ef þú reykir. Þessir þættir geta sett þig í hættu á meðan á aðgerð stendur og eftir hana. Ef þú þjáist af einhverjum heilsufarsvandamálum er nauðsynlegt að gera lækninum þínum grein fyrir þeim fyrir aðgerðina.

Það er bannað að stunda líkamsrækt eftir aðgerðina. Læknar mæla með því að sjúklingar taki því rólega, hvað varðar líkamsrækt, í allt að 12 vikur eftir aðgerðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál