Bjútítips Lindu Bjargar

Linda Björg Árnadóttir hönnuður hjá Scintilla.
Linda Björg Árnadóttir hönnuður hjá Scintilla.

Linda Björg Árnadóttir hönnuður Scintilla segir að það geri mest fyrir útlitið að sleppa áfengisneyslu og sykri. Hún gæti ekki verið án svarts augnblýants og ber á sig rauðan varalit þegar vel liggur á henni.

Hvað gerir þú til að halda þér í formi? Ég fer í líkamsrækt og í hot yoga 5-6 sinnum í viku.

Hvað finnst þér vera besta bjútítrix allra tíma? Að borða hollan mat og sleppa öllu sem veldur bjúgi eins og sykri og áfengi.

Hvaða krem er í mestu uppáhaldi? Ég nota AD-krem á andlitið á mér. Það er krem sem ætlað er á sára barnsrassa og inniheldur lanolín. Þetta er ótrúlega græðandi krem og ég get alls ekki verið án þess. Ég nota einnig andlitskrem frá Clarins sem á að vinna á móti öldrunaráhrifum. Ég veit ekkert hvort það virkar en það er gott krem.

Hvaða snyrtivara gætir þú ekki verið án? Ég get ekki verið án svarta augnblýantsins. Svört lína í kringum augun er orðin órjúfanlegur hluti af mér.

Hvernig málar þú þig dagsdaglega? Ég set á mig smá af Lancôme-meiki en mjög lítið, aðeins kinnalit og svo svarta augnblýantinn. Ef ég er í góðu skapi smyr ég á mig einhverjum skemmtilegum varalit, yfirleitt frá MAC en þeir eru í uppáhaldi.

Rauðir varalitir frá MAC eru í sérstöku uppáhaldi hjá Lindu …
Rauðir varalitir frá MAC eru í sérstöku uppáhaldi hjá Lindu Björgu.

Hvað finnst þér skipta mestu máli þegar heilsurækt er annars vegar? Það er mikilvægt að hreyfa sig daglega og ég reyni að gera það. Þá verður að hafa hreyfinguna fjölbreytta þannig að maður fái ekki leið á henni.

Hvað borðar þú á hefðbundnum degi? Ég borða nú yfirleitt frekar hollt. Mér finnst gott að steikja grænmeti í sesamolíu eða með engiferi og ég borða töluvert af baunum. Oft bý ég mér til salat með eggjum og baunum og alls konar grænmeti en ég er líklegast best í að búa til súpur. Blómkálssúpan mín er í sérstöku uppáhaldi og er oft á boðstólum heima hjá mér!

Hvernig slakar þú best á? Mér finnst mjög afslappandi að fara í sund og heita potta.

Hvers getur þú ekki verið án? Ég get ekki verið án tölvunnar minnar. Þar er öll mín vinna og verkefni sem ég er að vinna að. Hún er eins og framlenging á mér.

Hvað gerir þú þegar þú ert þreytt og þarft að núllstillast? Mér finnst gott að fara í göngutúra og ég elska að vera nálægt vatni. Það er eitthvað róandi við það. Mig dreymir um að eignast kajak og fara í kajakferðir til þess að gleyma mér og endurnýjast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál