Ertu í veseni með hárið? Indíana veit svarið

Indíana Steingrímsdóttir.
Indíana Steingrímsdóttir.

Indíana Steingrímsdóttir, hársnyrtimeistari og eigandi Sápa.is, veit allt um hár og hvernig á að meðhöndla það. Hún er sérfræðingur í vali á hárvörum og notar ýmis trix daglega til að hárið á henni sjálfri sé sem best. Hún hefur verið viðriðin hárbransann frá árinu 1986 þegar hún byrjaði í hárgreiðslunámi. Hún fékk sveinspróf 1991. Áður en hún opnaði Sápa.is rak hún hárstofuna Soho á Laugavegi. Ég spurði hana spjörunum úr.

Hvernig hugsar þú um hárið á þér? „Ég þvæ hárið annan hvern dag með sjampói og hárnæringu sem passar mínu hári. Djúpnæringu svo hálfsmánaðarlega. Ég blæs alltaf á mér hárið með mjúku blásturskremi sem inniheldur hitavörn, nota rótarsprey til að lyfta rótinni en ég er með eðlislega þungt hár og nota stundum mini volume iron, það er lítið vöfflujárn sem gerir  vöfflur í hárið við hársvörðinn og gefur því spyrnu frá rót og lyftingurinn helst allan daginn og daginn eftir, frábært lítið tæki sem gerir mikið. Svo er það hárolían til að fá fallega glans á hárið.“

Hvert er besta hártrix allra tíma? „Besta hártrix allra tíma snýst um að nota réttu hárvörurnar, þ.e.a.s. sjampó, hárnæringu og mótunarvörur sem henta hverri hárgerð fyrir sig. Sjampóið er fyrsta skrefið að fallegu og flottu hári, leggur grunninn að því sem koma skal, svo kemur hárnæringin, ekki síður mikilvæg að nota, en við fagfólk heyrum oft að fólk vilji ekki nota hárnæringu vegna þess að hárið leggst bara niður flatt og þungt. Í dag getum við fengið algjörlega þyngdarlaust sjampó og hárnæringu fyrir svona hár. Þegar við notum sjampó ýfist ysta lag hársins, má kannski líkja því við greni á jólatré. Ef við sleppum hárnæringunni  skiljum við hárstráið eftir úfið og opið, hárið verður mikið viðkvæmara og veikara fyrir að slitna þegar það er greitt með hárbursta og þegar hárblásari, sléttujárn og önnur hitatæki eru notuð. Hárnæringin aftur á móti lokar ysta lagi hársins, það er að segja, leggur það saman og útlitið á hárstráinu verður slétt og glansandi, og hárið sterkara fyrir vikið. Við vitum að slétt áferð getur glansað en ekki úfin áferð. Svo eru það mótunarvörurnar og þar eru endalausir möguleikar. Góður hárblásari og t.d. hringburst er undirstaða fyrir flottan blástur, og að sjáfsögðu réttu efnin, blásturefni sem getur verið froða eða krem, rótarsprey til að fá lyftingu við rót, glansgefandi olía eða sprey og svo gott hárlakk/sprey. Allt verður miklu auðveldara, skemmtilegra og flottara.   Að sjálfsögðu fer þetta allt eftir sídd hárs og stíl hvers og eins hvað á við hjá hverjum og einum. En trixið er rétta varan.“

Hvernig er best að meðhöndla þurra enda? „Góð hárnæring, síðan góð rakadjúpnæring vikulega. Síðan er mjög mikið úrval af flottum hárolíum sem næra og mýkja hárið og eru góður kostur fyrir þurra enda.“

Hvað gerir þú til að halda þér í formi?

„Ég fer stundum í göngutúra og finnst gaman að hjóla, bæði á reiðhjóli og mótorhjóli.“

Hvað finnst þér vera besta bjútítrix allra tíma? „Að brosa.“

Hvaða krem er í mestu uppáhaldi? „EGF dagkremið finnst mér reglulega gott og hefur verið í uppáhaldi hjá mér frá því að ég prófaði það fyrst.“

Hvaða snyrtivara gætir þú ekki verið án? „Sápu, hahaha, en án alls gríns þá gæti ég ekki verið án góðrar sápu, sem sagt gott sjampó fyrir hárið og góða sápu fyrir kroppinn, og svo gott dagkrem í andlitið.“

Hvernig málar þú þig dagsdaglega? „Í seinni tíð er ég farin að mála mig minna en ég gerði. Í dag nota ég BB krem, ljós brons litaðan augnskugga, maskara og ljósan gloss eða varasalva.“

Hvað finnst þér skipta mestu máli þegar heilsurækt er annars vegar? „Gott og fjölbreytt mataræði, engin boð og bönn þar, góður og reglulegur svefn, forðast reykingar og áfengi, umgangast fjölskylduna sína og hafa sem oftast gaman, fíflast og hlæja mikið.“

Hvað borðar þú á hefðbundnum degi? „Þetta hefst á lýsistöku, ein matskeið af þorskalýsi og hálf matskeið af omega 3 fiskiolíu frá lýsi. Í morgunmat drekk ég AB drykk með jarðarberjabragði, svo klukkutíma síðar er það kaffibolli og súkkulaði, hádegismaturinn er eitthvað úr nærliggjandi veitingastöðum hérna á Laugaveginum, í kaffitímanum er það kaffi og súkkulaði og svo kvöldmatur heima, sem getur verið fiskur, kjúklingur eða pasta, allt eftir tíma og svo óskum fjölskyldumeðlima.“

Hvernig slakar þú best á? „Heima með fjölskyldunni, að gera ekki neitt.“

Hvers getur þú ekki verið án? „Ég mundi ekki vilja vera án fjölskyldunnar minnar, en í sambandi við dauða hluti vildi ég ekki vera án bílsins, hann gefur mér frelsi til að fara þangað sem ég vil þegar ég vil.“

Hvað gerir þú þegar þú ert þreytt og þarft að núllstillast? „Fer í heitt bað, svo í náttföt, og upp í rúm með góða bók.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál