Heimamenn í ham í torfærukeppni á Egilsstöðum

Gunnar Gunnarsson á Trúðnum sigraði í torfærukeppninni á Egilsstöðum eftir …
Gunnar Gunnarsson á Trúðnum sigraði í torfærukeppninni á Egilsstöðum eftir harða keppni þar sem keppnisbrautirnar voru sérlega erfiðar. mbl.is/Jóhann A. Kristjánsson

Önnur umferð Íslandsmeistaramótsins í torfæruakstri var ekin á Egilsstöðum á laugardaginn og var þar hart barist um hvert stig. Framganga heimamanna var sérlega vaskleg og þeir nutu þess að vera á „heimavelli", hvattir óspart af áhorfendum.

Mikill uppgangur er í torfærunni á Austurlandi og sem merki um það voru sex keppendur að austan. Þar fór fremstur í flokki Ólafur Bragi Jónsson frá Egilsstöðum en Ólafi tókst með harðfylgi að ná 2. sæti í flokki sérútbúinna jeppa. Réð þar úrslitum frábær akstur hans í lokabraut keppninnar, tímabrautinni, þar sem hann náði langbesta tímanum.

Það var hins vegar Gunnar Gunnarsson á Trúðnum sem sigraði í keppninni og hefur hann með því tekið fjögurra stiga forystu á næsta mann, Ólaf Braga, í keppninni til Íslandsmeistaratitils. Sigurður Þór Jónsson á Tröllinu varð þriðji og er jafnframt þriðji í stigakeppninni.

Erfiðar brautir

Ragnar Róbertsson á N1 Willysnum sigraði enn og aftur í flokki breyttra götubíla og sýndi þar nokkra yfirburði. Dalamaðurinn Bjarki Reynisson varð annar og Vignir Rúnar Vignisson þriðji en hann keppti á sama bíl og Ragnar Róbertsson.

Í götubílaflokki var keppnin hörð og erfið en brautirnar sem lagðar voru fyrir götubílaflokkinn voru mjög erfiðar. Hið sama má reyndar segja um hina flokkana og til marks um það var einungis einn bíll í keppninni sem tókst að ljúka braut. Var ótrúlegt að sjá hversu langt götubílarnir komust í erfiðum þrautunum. Páll Pálsson á Willys CJ5 sigraði í götubílaflokki og er í forystu Íslandsmeistaramótsins með mjög vænlega stöðu þar sem Steingrímur Bjarnason, helsti keppinautur hans, keppti ekki að þessu sinni. Hannes Berg Þórarinsson varð annar og Hlynur B. Sigurðsson á Toyota HiLux þriðji.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert