Daníel og Ásta keppa á bresku rallmótaröðinni

Daníel og Ásta hafa fest kaup á meistarabíl Gwyndaf Evans.
Daníel og Ásta hafa fest kaup á meistarabíl Gwyndaf Evans. mynd/Guðmundur Karl

Íslandsmeistararnir í rallakstri, systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn, hafa staðfest þátttöku sína í bresku Evo Challenge mótaröðinni í rallakstri, sem hefst síðar í mánuðinum. Um er að ræða átta keppnir frá febrúar fram í október en einnig munu þau taka þátt í nokkrum öðrum keppnum í breska meistaramótinu.

Fyrr í febrúar héldu þau út til Englands þar sem þau festu kaup á Mitsubishi Evo 9 keppnisbifreið, sem að sögn Daníels er fullkomlega samkeppnishæf við þá bestu. Walesverjinn Gwyndaf Evans varð meistari á þessari sömu bifreið árið 2006.

„Þessi keppni er ein sú sterkasta í heiminum í dag og hafa allir bestu ökumenn Bretlands keppt í þessari mótaröð undanfarin ár. Það er ljóst að það verður á brattann að sækja fyrir okkur Íslendingana en við erum full bjartsýni fyrir komandi tímabil og er stefnan sett á topp fimm í heildarkeppninni," segir Daníel.

Fyrsta keppnin, Sunseeker rallið í Bournemouth, fer fram dagana 22.-23. febrúar og er gert ráð fyrir á annað hundrað keppnisbifreiðum í rallinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert