Fyrsti sigur KR í Landsbankadeildinni

Teitur Þórðarson þjálfari KR.
Teitur Þórðarson þjálfari KR. mbl.is/Brynjar Gauti

KR sigraði Fram 2:1 í síðasta leik 8. umferðar Landsbankadeildar karla í knattspyrnu. Þetta var fyrsti sigur KR-inga í deildinni í sumar en þeir eru þó enn í botnsæti deildarinnar með fjögur stig, einu á eftir Frömurum.

Framarar eru mun betri í upphafi leiks en hafa ekki skapað sér nein teljandi marktækifæri.

0:1 Hjálmar Þórarinsson hefur komið Fram yfir með glæsilegu marki á 24. mínútu. Hjálmar þrumaði boltanum efst í markhornið frá vítateigslínu.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks átti Guðmundur Pétursson ágætt skot að marki Fram en boltinn fór rétt fram hjá markinu. Staðan því 1:0 fyrir Fram í hálfleik.

Stefán Logi Magnússon markvörður KR var að verja vítaspyrnu á 56. mínútu frá Hjálmari Þórarinssyni. Stefán kastaði sér til vinstri og varði ágæta spyrnu Hjálmars. Stefán Logi tók stöðu Kristjáns Finnbogasonar í byrjunarliðinu sem hafði leikið 81 leik í röð í efstu deild. Dæmt var víti á Pétur Marteinsson fyrir að toga Kristján Hauksson niður í vítateignum.

1:1. Jóhann Þórhallsson hefur jafnað metin fyrir KR á 79. mínútu eftir stungusendingu frá Rúnari Kristinssyni. Fyrsta mark Jóhanns í deildinni í sumar.

2:1. Guðmundur Pétursson hefur komið KR yfir með skallamarki eftir hornspyrnu á 90. mínútu.

Guðmundur Pétursson fékk að líta rauða spjaldið hálfri mínútu eftir að hann skoraði. Guðmundur braut af sér og fékk sitt annað gula spjald í leiknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert