FH og ÍA hefja seinni umferðina í dag

Frá viðureign ÍA og FH í fyrstu umferðinni þar sem …
Frá viðureign ÍA og FH í fyrstu umferðinni þar sem FH-ingar höfðu betur, 3:2. Brynjar Gauti

Síðari umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Landsbankadeildar, hefst í dag þegar Íslandsmeistarar FH fá Skagamenn í heimsókn í Kaplakrikann klukkan 16. Þessum leik var flýtt um einn dag vegna þátttöku FH-inga í forkeppni Meistaradeildar Evrópu en þeir taka á móti færeysku meisturunum HB í Kaplakrika á miðvikudaginn kemur.

FH-ingar eru efstir í deildinni með 22 stig, átta stigum á undan Skagamönnum sem eru í fjórða sætinu með 14 stig. Fyrri leikur liðanna, sem var opnunarleikur Íslandsmótsins í vor, var bráðfjörugur en FH náði þá að knýja fram sigur á Akranesi, 3:2, í leik þar sem Skagamenn voru lengi vel einum leikmanni færri.

Skagamenn hafa ekki sótt þrjú stig í Kaplakrika í sex ár, eða frá því þeir unnu þar 1:0 með marki Hjartar Hjartarsonar árið 2001 en þá urðu þeir Íslandsmeistarar. Frá þeim tíma hefur ÍA aðeins einu sinni náð að sigra FH í síðustu ellefu viðureignum liðanna í úrvalsdeildinni.

Keflavík mætir KR

Annað kvöld mætast Keflavík og KR suður með sjó en Keflvíkingar eru í þriðja sætinu með 17 stig og KR-ingar sitja á botni deildarinnar með aðeins 5 stig.

Keflvíkingar hafa haft gott tak á Vesturbæjarliðinu undanfarin ár og ekki tapað fyrir því í síðustu sjö leikjunum í deildinni, og þar af unnið fimm þeirra. Keflavík vann, 2:1, þegar liðin mættust á KR-vellinum í fyrstu umferðinni í vor.

Á mánudagskvöld eru svo þrír síðustu leikirnir í tíundu umferðinni. HK og Víkingur R. leika í Kópavogi, Fylkir og Breiðablik í Árbænum og Fram mætir Val á Laugardalsvellinum.

Skorað fyrir gott málefni

Í þessari umferð er á ný skorað fyrir gott málefni í boði styrktaraðila deildarinnar, Landsbankans. Hvert félag hefur valið sér gott málefni til að styrkja, og í það renna 30 þúsund krónur fyrir hvert mark sem viðkomandi lið skorar.

Þegar þetta var gert fyrr í sumar, í 5. umferðinni, söfnuðust 390 þúsund krónur þar sem 13 mörk voru skoruð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert