Teitur rekinn - Logi stjórnar KR út leiktíðina

Teitur Þórðarson.
Teitur Þórðarson. Ómar Óskarsson

KR og Teitur Þórðarson komust í dag að samkomulagi um að Teitur léti af störfum hjá KR. Í fréttatilkynningu frá KR þakkar félagið Teiti Þórðarsyni fyrir störf hans fyrir félagið og sérstaklega þátt hans í uppbyggingarstarfi félagsins og stofnun KR Akademíunnar. Við starfi hans tekur Logi Ólafsson og er honum ætlað stjórna KR liðinu út þessa leiktíð. Sigursteinn Gíslason verður áfram aðstoðarþjálfari KR.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun enda höfum við verið mjög ánægðir með störf Teits. Því er ekki að leyna að það hefur vantað einhvern neista í KR-liðið að undanförnu og stjórn félagsins fór yfir stöðuna og niðurstaðan er þessi,“ sagði Jónas Kristinsson formaður KR-Sports sem er rekstrarfélag mfl. karla hjá KR. Nánar verður rætt við Jónas í Morgunblaðinu á morgun.

KR er í neðsta sæti Landsbankadeildarinnar eftir 11 umferðir en liðið er með 7 stig og hefur aðeins landað einum sigri. Næsti leikur liðsins er á fimmtudaginn í UEFA-keppninni gegn sænska 1. deildarliðinu Häcken en liðin skildu jöfn, 1:1, í Gautaborg í fyrri leiknum.

Teitur gerði 5 ára samning við KR þann 11. september árið 2005 en þá voru Sigursteinn Gíslason og Einar Þór Daníelsson þjálfarar liðsins. Þeir tóku við þjálfun liðsins af Magnúsi Gylfasyni sem var sagt upp störfum sumarið 2005.

Meira síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert