FH - Keflavík, 3:2

Ú r leik FH og Keflavíkur í dag
Ú r leik FH og Keflavíkur í dag mbl.is/Frikki

FH heldur lífi í baráttu sinni við Keflavík um Íslandsmeistaratitilinn með sigri, 3:2, á Keflavíkurliðinu á Kaplakrikavelli í leik sem var að ljúka en mikla sviptingar voru í leiknum á síðasta stundarfjórðungi hans. Atli Viðar Björnsson skoraði sigurmark FH fjórum mínútum fyrir leikslok en áður hafði Magnús Sverrir Þorsteinsson skorað tvö mörk fyrir Keflavík á 77. og 81. mínútu. Jafntefli hefði tryggt Keflavík Íslandsmeistaratitilinn.
Fylgst er með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Eftir frekar meinlausan fyrri hálfleik hljóp meira fjör í leikinn í síðari hálfleik þar sem FH-ingar voru lengst af sterkari. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson kom FH á bragðið með góðu skoti rétt utan vítateigs á 57. mínútu. Keflavíkingar reyndu að klóra í bakkann eftir markið en allt kom fyrir ekki og FH-liðið var sterkara. Kom engum á óvart þegar það komst tveimur mörkum yfir með marki Atla Viðars Björnssonar á 67. mínútu. Næstur mínútur á eftir var FH-liðið líklegra til að bæta við þriðja markinu en Keflavík að klóra í bakkann.

Tvöföld skipting Kristjáns Guðmundssonar, þjálfara Keflavíkur, á 71. mínútu bar ávöxt sex mínútum síðar þegar Magnús Sverrir Þorsteinsson skoraði laglegt mark með skoti rétt utan teigs. Fram að markinu benti samt fátt til þess að lið Keflavíkur væri að sækja í sig veðrið. Eftir markið hljóp mikill kraftur í Keflavíkurliðið og kom engum á óvart að þeir jöfnuðu leikinn á 81. mínútu. Aftur var Magnús Sverrir á ferðinni.

FH-ingar neituðu að gefast upp og blesu til sóknar en Keflvíkingar voru áfram hættulegir en jöfn staða, 2:2, þýddi að Íslandsmeistaratitilinn var í höfn hjá þeim eftir 35 ára bið.

Sú ekki raunin. FH-ingar héldu áfram að sækja og Atli Viðar tryggði Hafnfirðingum sigur þegar hann skallaði í mark Keflavíkur eftir frábæra sendingu frá Tryggva Guðmundssyni. Leikmenn Keflavíkur reyndu hvað þeir gátu í fjögurra mínútna uppbótartíma að jafna metin en tókst ekki. Þeir voru nærri því og einu sinni dansaði knötturinn eftir markslá FH marksins.

Lið FH: Gunnar Sigurðsson - Dennis Siim, Tommy Nielsen, Freyr Bjarnason, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Davíð Þór Viðarsson, Tryggvi Guðmundsson, Atli Guðnason, Guðmundur Sævarsson, Matthías Guðmundsson, Atli Viðar Björnsson.

Varamenn: Daði Lárusson, Jónas Grani Garðarsson, Matthías Vilhjálmsson, Hákon Atli Hallfreðsson, Björn Daníel Sverrisson, Birkir Halldór Sverrisson, Hjörtur Logi Valgarðsson.

Lið Keflavíkur: Ómar Jóhannsson - Guðjón Árni Antoníusson, Kenneth Gustafsson, Guðmundur Steinarsson, Símun Eilier Samuelsen, Jóhann Birnir Guðmundsson, Brynjar Guðmundsson, Patrik Ted Redo, Hallgrímur Jónasson, Hólmar Örn Rúnarsson, Hans Yoo Mathiesen.

Varamenn: Jón Gunnar Eysteinsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson, Magnús Þórir Matthíasson, Þórarinn Brynjar Kristjánsson, Hörður Sveinsson, Magnús Þormar.

Keflvíkingar hafa fagnað mikið í sumar.
Keflvíkingar hafa fagnað mikið í sumar. mbl.is/hag
FH 3:2 Keflavík opna loka
90. mín. Keflavík fær hornspyrnu
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert