Verður Keflavík Íslandsmeistari í dag?

Kristján Guðmundsson á gullna möguleika á að stýra Keflavík til …
Kristján Guðmundsson á gullna möguleika á að stýra Keflavík til Íslandsmeistaratitils. mbl.is/Árni Sæberg

Keflvíkingar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitil karla í knattspyrnu í dag en 21. og næstsíðasta umferð Landsbankadeildarinnar hefst klukkan 16.00 og þá fara allir sex leikirnir fram. FH tekur á móti Keflavík í uppgjöri toppliðanna.

Keflavík er með 46 stig og á eftir tvo leiki en FH-ingar eru með 38 stig og eiga eftir þrjá leiki. FH mætir Breiðabliki í frestuðum leik næsta miðvikudag, og á laugardaginn kemur er lokaumferð deildarinnar leikin. Þá leikur Keflavík við Fram og FH-ingar sækja Fylki heim.

Möguleiki FH felst í því að vinna alla þrjá leiki sína og Keflavík takist ekki að sigra Fram í lokaumferðinni. Nái Keflvíkingar stigi í Kaplakrikanum í dag standa þeir uppi sem Íslandsmeistarar í fyrsta skipti í 35 ár.

Fram og Valur mætast í öðrum stórleik á Laugardalsvellinum en það er uppgjör liðanna í þriðja og fjórða sæti. Þar er sæti í UEFA-bikarnum í húfi en um það keppa einnig KR og Breiðablik.

Þá geta úrslitin í fallbaráttunni ráðist endanlega í dag. ÍA er fallið og HK þarf að sigra Fjölni í Grafarvoginum í dag til að eiga möguleika á að bjarga sér. Jafntefli gæti þó gefið HK von ef Fylkir tapar fyrir Breiðabliki í Kópavogi á meðan. Fjögur stig skilja að HK og Fylki en möguleikar HK felast í því að fá minnst fjögur stig úr tveimur síðustu leikjunum, við Fjölni og Breiðablik, og að Fylkir tapi þá báðum, eða vinni í það minnsta hvorugan, gegn Breiðabliki og FH.

Fylkir leikur við Breiðablik á Kópavogsvelli, KR tekur á móti Þrótti í Vesturbænum og Grindavík og ÍA mætast á Grindavíkurvelli. Fylgst er með gangi mála í öllum leikjunum í beinum textalýsingum hér á mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert