Þórarinn Kristjánsson: Held að spennan hafi orðið mönnum að falli

Þórarinn B. Kristjánsson.
Þórarinn B. Kristjánsson. mbl.is/Ómar

Þórarinn Kristjánsson, hefur oftar en ekki verið í hlutverki bjargvættsins hjá Keflvíkingum. Hann kom inn á gegn Fram á 80. mínútu og kannski var það of seint. Þórarinn telur að Keflvíkingar hafi verið yfirspenntir:

,,Ég held að menn hafi bara verið yfirspenntir. Það var kannski svona hálftími eftir þegar við vorum 1:0 yfir og menn voru kannski farnir að hugsa um þann stóra allt of snemma,“ sagði Þórarinn í samtali við mbl.is. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir Keflvíkinga að reyna að halda einbeitingu undir þessum kringumstæðum, vitandi að titillinn væri handan við hornið: ,,Já það er alveg rétt. Það eru kannski ekki margir hjá okkur sem hafa spilað svona stóra leiki en þó eru það nokkrir. Að öllu jöfnu hefðum við átt að halda þetta út en ég held að spennan hafi orðið mönnum að falli hérna í dag. “

„Pressan var mikil“ 

„Ég veit ekki nákvæmlega hvað fór úrskeiðis. Pressan var mikil og á ákveðnum tímapunkti í síðari hálfleik erum við að góðri leið með að verða Íslandsmeistarar. Það var eins og sú hugsun blindaði okkur og við hættum að hugsa um leikinn. Það er sjálfsagt ein ástæðan fyrir því að við misstum þetta niður,“ sagði Patrik Redo framherji Keflvíkinga og fyrrum leikmaður Fram í samtali við mbl.is. Hann segir Keflvíkinga hafa hætt að spila sinn leik í síðari hálfleik: „Í fyrri hálfleik áttum við mikið af ágætum marktækifærum. En þetta snýst allt saman um einbeitingu og að grimmdin sé til staðar. Það vantaði hjá okkur í seinni hálfleik.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert