„Með nokkur aukakíló í farangrinum“

Margt forvitnilegra viðureigna er í 32-liða úrslitum VISA-bikarsins en leikur …
Margt forvitnilegra viðureigna er í 32-liða úrslitum VISA-bikarsins en leikur Carl og FH vakti mesta athygli. mbl.is/Golli

„Við vorum mjög heppnir. Við fengum besta liðið á Íslandi og erum hvergi smeykir við það,“ sagði Sigurður Örn Ágústsson, fyrirliði utandeildaliðsins Carl, sem mætir Íslandsmeisturum FH í 32-liða úrslitum VISA-bikarsins en dregið var í dag.

Carl komst í gegnum 1. og 2. umferð bikarkeppninnar með því að leggja að velli önnur utandeildalið en Sigurður er hvergi banginn enda í liðinu margar þekktar kempur.

„Leikurinn byrjar í 0:0 og við erum með gott lið þó við séum kannski komnir af léttasta skeiði og með nokkur aukakíló í farangrinum

Fyrir utan mig erum við með Hermann Arason, Eyjólf Sverrisson, Sverri Sverrissyni, Finn Kolbeinsson, Tómas Inga Tómasson, Rút Snorrason, Kristinn Tómasson, Þorstein Sveinsson og bara fullt af góðum leikmönnum. Þetta eru allt strákar sem hafa spilað í efstu tveimur deildum Íslands, nokkrir hafa spilað erlendis og einhverjir eiga landsleiki að baki. Við förum þetta á reynslunni og gerum þetta í rólegheitunum,“ sagði Sigurður.

Leikurinn er skráður heimaleikur Carl en Sigurður segir að vonast sé til að leikurinn fari fram á heimavelli FH í Kaplakrika og þá helst á sjálfum lýðveldisdegi okkar Íslendinga.

„Það kemur til greina að hafa leikinn sem „skemmtiatriði“ í Hafnarfirðinum 17. júní og við vonumst til að það verði gott veður og við fáum sem flesta á völlinn, því við ætlum að láta allan ágóða af leiknum renna óskiptan til Umhyggju, félags langveikra barna. Við ætlum bara að hafa gaman af þessu og njóta þess að fá alvöru leik svona á efri árum,“ sagði Sigurður. En af hverju heitir liðið Carl?

„Liðið heitir eiginlega IFC og það var smá klúður hjá KSÍ með að breyta nafninu. Núna erum við samt búnir að sýna að við erum á meðal 32 bestu liða á landinu þannig að þeir hjá KSÍ hljóta að taka málið til skoðunar og breyta nafninu í IFC, sem stendur fyrir Icelandic Football Club.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert