Willum hættur sem þjálfari Vals

Willum Þór Þórsson
Willum Þór Þórsson mbl.is/Kristinn

Knattspyrnufélagið Valur tilkynnti rétt í þessu á  vef sínum að Willum Þór Þórsson væri hættur störfum sem þjálfari meistaraflokks karla en hann hefur stýrt liðinu frá árinu 2004.

Í yfirlýsingunni segir:

Knattspyrnufélagið Valur og þjálfari meistaraflokks, Willum Þór Þórsson, hafa komist að samkomulagi um að ljúka farsælu samstarfi.

Knattspyrnufélagið Valur óskar Willum velfarnaðar í framtíðinni og þakkar honum fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Willum tók við liði Vals haustið 2004, eftir að það hafði tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni eftir eins árs fjarveru. Undir hans stjórn hefur það verið í baráttu um titla undanfarin ár, varð  bikarmeistari 2005 og síðan Íslandsmeistari 2007.

Síðasta ár vann liðið deildabikarinn en endaði hinsvegar í 5. sæti úrvalsdeildarinnar og þá olli frammistaðan nokkrum vonbrigðum.

Valsmenn byrjuðu tímabilið illa í vor en höfðu unnið fjóra leiki í röð í deildinni áður en þeir töpuðu illa fyrir Stjörnunni, 3:0, síðasta fimmtudag.

Willum hefur verið erlendis að undanförnu þar sem hann var að ljúka UEFA Pro Licence þjálfaragráðunni og var því ekki við stjórnvölinn í tveimur síðustu leikjum, gegn Stjörnunni og í sigurleik gegn ÍBV, 2:0.

Willum er 46 ára gamall og hefur þjálfað samfleytt undanfarin tólf ár. Hann var með Þrótt í Reykjavík í þrjú ár, Hauka í tvö ár, KR í þrjú ár þar sem liðið varð tvisvar Íslandsmeistari undir hans stjórn, og hann var að verða hálfnaður með sitt fimmta tímabil með Val.

Á síðasta ári var samningur Willums við Val framlengdur til ársloka 2012.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert