Ætlum að halda fjórða sætinu

Jón Guðni Fjóluson skoraði gegn Grindavík í dag og lagði …
Jón Guðni Fjóluson skoraði gegn Grindavík í dag og lagði líka upp mark. mbl.is/Jakob

Varnarmaðurinn Jón Guðni Fjóluson hjá Fram skoraði sitt 5. mark í úrvalsdeildinni í sumar þegar Safamýrarliðið lagði Grindavík, 3:1, í dag. Hann sagði við mbl.is að hann væri ánægður með sterkan sigur á erfiðum útivelli.

„Mér fannst við byrja betur en fáum svo á okkur klaufalegt mark sem hleypti Grindvíkingum svo inní leikinn og þar sem Grindavík er sprækt lið og sterkt fram á við er erfitt að verjast en svo náum við aftur tökum á leiknum eftir hlé. Við höfum oft slakað á þegar við skorum og komumst yfir en urðum svo aftur nokkuð þéttir og náðum góðum sigri.

Við ætlum að halda fjórða sætinu og halda okkur í standi fyrir bikarúrslitaleikinn," sagði Jón Guðni eftir leikinn en þó dró ský fyrir sólu því hann fékk sitt fjórða gula spjald og verður því leikbanni í síðasta leik deildarinnar. "Ég verð í leikbanni fyrir þetta litla brot í lokin svo ég missi af næsta leik en samt ekki úrslitaleiknum."

Svona mörk sjást ekki í 7. flokki

Orri Freyr Hjaltalín fyrirliði Grindavíkur var ekki sáttur. "Við höldum áfram sem að gera eins og venjulega - að spila skelfilega - en mér fannst þessi úrslit svo sem ekki mjög sanngjörn því mér fannst við betri mestan partinn af leiknum en það eru mörkin sem ráða. Mörkin eins og við fáum á okkur eiga ekki einu sinni að sjást í 7. flokki og maður fær ekki góð úrslit ef maður gefur svona mörk," sagði Orri Freyr eftir leikinn.

Svartur blettur á sumarið

„Ég veit ekki hvað ég get sagt um þetta allt, þetta var ekki beint draumurinn og það hefur ekki gengið vel hjá mér, ég missti mig aðeins í leiknum við Fylki og með þessum leik er kominn svartur blettur á sumarið," sagði Óskar Pétursson markvörður Grindavíkur eftir leikinn.

„Þetta er mitt fyrsta tímabil í úrvalsdeildinni og það hefur verið smá mótlæti, sem ég hef ekki alveg náð að standa undir. Ég var óöruggur í fyrstu leikjunum í sumar en þjálfarinn hjálpaði mér mikið þá, sagði mér að slaka á og eftir það fannst mér ég eiga marga ágæta leiki og fannst ég fyllilega tilbúinn.

Þetta er gríðarlega svekkjandi því ég stefni á að komast í U21 árs landsliðið en hef ekki beint unnið fyrir því í undanförnum leikjum svo það verður ekki undir mér komið hvort ég næ því," sagði Óskar við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert