„Ég las leikinn en það gerði dómarinn ekki“

Magnús Þórisson og Tryggvi Guðmundsson fara yfir málin í leiknum …
Magnús Þórisson og Tryggvi Guðmundsson fara yfir málin í leiknum í dag. mbl.is/Sigfús

 Tryggvi Guðmundsson bar fyrirliðabandið í dag en hann leikur ekki meira með ÍBV í sumar þar sem hann fékk gult spjald og verður í leikbanni í síðustu umferðinni.  Tryggvi var alls kostar ekki sáttur við spjaldið.

 „Við vorum þungir en þeir voru það sjálfsagt líka enda spilað stíft í þessu hraðmóti í lokin.  En við náðum að landa þessu og hefðum átt að gera mikið fleiri mörk.  Við fórum illa með færin og á einhvern óskiljanlegan hátt fæ ég gult spjald fyrir leikaraskap þegar ég átti að fá víti.  Ég verð því í banni út af þessum blessaða dómara,“ sagði Tryggvi verulega ósáttur í lokin.

Hvað gerðist í þessu atviki?

„Þetta kallast að lesa leikinn, það gerði ég en ekki dómarinn.  Boltinn datt fyrir framan mig og það koma tveir varnarmenn á fullri ferð í mig.  Ég vippaði boltanum framhjá öðrum þeirra og hann keyrði bara í mig, en var ekkert að brjóta á mér viljandi.  Ég reyndi að standa upp og klára færið en þá kemur þessi blessaði dómari og gefur mér gula spjaldið sem er alveg út úr kortinu.  Mér er alveg sama þótt ég hefði ekki fengið vítið en að fá spjald fyrir svona kjaftæði er mjög blóðugt enda algjör úrslitaleikur fyrir okkur næst á móti Keflavík.  Allt út af dómara sem les ekki leikinn og hefur greinilega aldrei spilað fótbolta áður á hæsta stigi.  Því miður, það eru allt of margir svona.“

Hvað með möguleikana gegn Keflavík?

„Við ætlum okkur auðvitað sigur, öðruvísi eigum við ekki möguleika.  En Blikarnir eru með þetta í sínum höndum.  Þeir eru geysilega sterkir og hafa sýnt það í síðustu leikjum, m.a. í dag.  Þeir spila næst gegn Stjörnunni sem hefur að engu að keppa þannig að það má nánast bóka það að þeir klári sitt.  En við megum ekki vera það vitlausir að klára ekki okkar,“ sagði Tryggvi að lokum.

Í tólf síðna íþróttablaði Morgunblaðsins er fjallað ítarlega um alla leikina í 21. og næstsíðustu umferð deildarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert