Bjarni samdi til þriggja ára

Bjarni Jóhannsson.
Bjarni Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Jóhannsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Stjörnunnar um að þjálfa áfram karlalið félagsins en Garðabæjarfélagið skýrði formlega frá þessu í dag.

Bjarni var að ljúka sínu þriðja tímabili með Stjörnuna. Liðið  vann sér sæti í úrvalsdeildinni á fyrsta ári, 2008, og hefur undanfarin tvö ár endað í 7. og 8. sæti deildarinnar. Bæði árin hefur liðið verið eitt það marksæknasta í deildinni, skoraði 45 mörk í fyrra og 39 mörk í ár.

Bjarni, sem er 52 ára Norðfirðingur, er einn reyndasti þjálfari landsins í dag. Hann hóf meistaraflokksþjálfun fyrir 25 árum, sem spilandi þjálfari Þróttar í Neskaupstað, og hefur síðan þjálfað Tindastól, Grindavík, Fylki, Breiðablik og ÍBV, en hjá þremur síðarnefndu félögunum hefur hann komið tvívegis til starfa. Þá var Bjarni eitt ár aðstoðarþjálfari Fram þegar Ásgeir Sigurvinsson þjálfaði liðið, og hann var aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins þegar Eyjólfur Sverrisson stýrði því.

Í tilkynningu Stjörnunnar segir m.a.:

Áframhaldandi uppbygging liðsins er framundan. Þar verður m.a. byggt á þeim öfluga kjarna leikmanna sem komið hafa liðinu í fremstu röð, auk yngri leikmanna sem uppaldir eru hjá félaginu.

Stjórn knattspyrnudeildar Stjörnunnar lítur björtum augum til framtíðar á öllum sviðum. Nú liggur fyrir að þrír hæfir og reyndir þjálfarar munu stýra liðum félagsins áfram og lengra. Bjarni Jóhannsson er þjálfari meistaraflokks karla, Þorlákur Már Árnason er þjálfari meistaraflokks kvenna og Ásmundur Guðni Haraldsson er yfirþjálfari yngri flokka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert