Ingólfur fór úr KR í Val

Ingólfur Sigurðsson í Valsbúningnum seint í gærkvöld.
Ingólfur Sigurðsson í Valsbúningnum seint í gærkvöld. www.valur.is

Ingólfur Sigurðsson, knattspyrnumaðurinn ungi sem hefur verið í röðum KR að undanförnu, gekk til liðs við Val rétt áður en lokað var fyrir félagaskiptin hér á landi á miðnætti.

Þetta kemur fram á vef Vals en á Fótbolta.net er sagt að hann hafi skrifað undir þriggja ára samning við félagið.

Ingólfur, sem er 18 ára sóknarmaður, var í Val fram að 15 ára aldri þegar hann fór í KR og þaðan til Heerenveen í Hollandi um mitt síðasta sumar. Hann hætti þar í vetur og kom til liðs við KR á ný.

Ingólfur kom inná í fyrsta leik KR í Pepsi-deildinni í vor, gegn Breiðablik, en sat á bekknum allan tímann í leiknum við Keflavík í 2. umferð. Eftir leikinn fór hann hörðum orðum um KR í Twitter-færslu og mætti ekki á æfingar hjá liðinu eftir það.

Samkvæmt Fótbolta.net höfðu nokkur félög í Pepsi-deildinni hug á að fá Ingólf til sín, Fylkir, ÍBV og Þór eru þar nefnd til sögunnar, en samningar tókust á milli Vals og KR laust fyrir miðnættið.

KSÍ hefur ekki staðfest félagskiptin á vef sínum enn sem komið er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert