Finnur Orri: Skammarleg frammistaða

Frá viðureign Breiðablik og Keflavíkur í kvöld.
Frá viðureign Breiðablik og Keflavíkur í kvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við vorum bara hundlélegir í seinni hálfleik. Eftir að við lentum undir misstu menn hausinn og þetta var hreinlega skammarleg frammistaða hjá okkur,“ sagði Finnur Orri Margeirsson, fyrirliði Breiðablik, við mbl.is eftir 4:0 tap gegn Keflavík í kvöld.

„Við hreinlega gáfumst upp þegar Keflavík skoraði fyrsta markið. Við hættum að hlaupa og hreyfa okkur og létum bara valta yfir okkur. Mér fannst við byrja leikinn ágætlega en við nýttum færin okkar skelfilega og var refsað fyrir það. Vörnin sem hefur verið okkar sterkasti hlekkur í sumar galopnaðist í seinni hálfleik og Keflvíkingarnir gengu á lagið,“ sagði Finnur Orri.

„Ég ætla rétt að vona að botninum sé nú náð hjá okkur. Við fáum gott frí til að hugsa okkar gang og hver og einasti maður verður að gera það. Frammistaða okkar í seinni hálfleik var til skammar og ég vel tekið undir það hjá þér að það var engu líkara en að við viljum ekki spila lengur í þessari deild.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert